Dagana 21.–27. apríl verður haldin Vika 17, vitundarvakningarátak um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á bókasöfnum víðsvegar um landið. Verkefnið er að danskri fyrirmynd og var fyrst prófað hér á landi af Amtsbókasafninu á Akureyri árið 2024 sem hefur leitt þetta og fengið fleiri bókasöfn með. Í ár hefur þátttakan margfaldast og er búist við að yfir tíu bókasöfn um allt land taki þátt.
Markmið Viku 17 er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum 17 með fjölbreyttum hætti: bókasöfn bjóða upp á viðburði, fræðslu, skiptimarkaði og smiðjur sem tengjast sjálfbærni, réttlæti, menntun, loftslagsmálum, jafnrétti og öðrum brýnum málum samtímans. Þannig verða bókasöfn að vettvangi fyrir samfélagslega umræðu og þátttöku í anda heimsmarkmiðanna.
Í ár taka m.a. þátt:
-
Amtsbókasafnið á Akureyri
-
Amtsbókasafnið í Stykkishólmi
-
Bókasöfn Árborgar, Garðabæjar, Ísafjarðar, Kópavogs, Reykjanesbæjar, Vesturbyggðar og Seltjarnarness
-
Héraðsbókasafn Rangæinga
Á tímabilinu má búast við skemmtilegri dagskrá á hverju bókasafni – þó vikan sé stutt í ár vegna páskanna og Sumardagsins fyrsta, verður nóg um að vera og þátttakendur hvattir til að taka þátt, læra og ræða heimsmarkmiðin í sínu nærumhverfi.
Verkefnið er hluti af stærra samnorrænu samstarfi og í nóvember síðastliðnum héldu norræn bókasöfn sameiginlega vefráðstefnu þar sem þau skiptust á reynslu og hugmyndum um innleiðingu Viku 17. Frá þeim tíma hefur áhugi aukist til muna og verkefnið stækkað jafnt og þétt – líkt og sjá má hér á Íslandi.
Dagskrá einstakra safna og fleiri upplýsingar má nálgast á viðkomandi heimasíðum bókasafna og á samfélagsmiðlum þeirra. Áhugasöm bókasöfn eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við Hrönn; hronnb@amtsbok.is
Skýrsla um verkefnið í Danmörku og innblástur: SDGs and Libraries – Inspirational Examples