Í mars 2025 kynnti António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, umfangsmikið umbótaátak undir heitinu UN80 Initiative, sem miðar að því að styrkja hlutverk stofnunarinnar í síbreytilegum heimi. Átakið markar 80 ára afmæli SÞ með framtíðarsýn að leiðarljósi og leggur áherslu á að gera stofnunina skilvirkari, sjálfbærari og betur í stakk búna til að takast á við áskoranir samtímans.
„Þetta er rétti tíminn til að líta í eigin barm og meta hversu vel við stöndum okkur sem fjölþjóðleg stofnun í afar krefjandi aðstæðum,” sagði Guy Ryder, sem starfar undir aðalframkvæmdastjóra og ber ábyrgð á stefnumótun en er einnig formaður UN80 vinnuhópsins.
Ferlið hefur ekki aðeins að markmiði að auka skilvirkni, heldur einnig að undirstrika mikilvægi fjölþjóðasamvinnu á tímum þar sem traust er í lágmarki og þörfin mikil. UN80 miðar að því að efla getu Sameinuðu þjóðanna til að bregðast við áskorunum samtímans, allt frá átökum, fólksflótta og ójöfnuði til loftslagsváar og hraðrar tækniþróunar, auk þess að takast á við ytri þrýsting á borð við minnkandi fjárveitingar og pólitískan klofning innan fjölþjóðakerfisins.
Þrjú meginverkefni UN80
UN80 umbótaferlið stendur á þremur meginstoðum:
-
Innri hagræðing sem felst í því að skera niður óþarfa skriffinnsku og unnið er að aukinni skilvirkni, meðal annars með flutningi verkefna til hagkvæmari staðsetninga.
-
Endurskoðun umboða (e. mandates) en yfir 40.000 verkefnaskilgreiningar hafa safnast upp í gegnum tíðina, margar hverjar skarast og enn aðrar eiga ekki lengur við. Með aðstoð gervigreindar og gagnagreininga er nú unnið að því að auðvelda aðildarríkjum að meta hvaða verkefni eigi að halda, endurskoða eða leggja niður.
-
Endurskipulagning innan kerfisins, þar sem kannað er hvort þörf sé á að breyta skipulagi verkefna og stofnana innan SÞ til að bæta nýtingu fjármuna og árangur.
Ekki niðurskurðarátak, heldur framtíðarsýn
Þrátt fyrir mikla umræðu um fjárhagsþrengingar og niðurskurð leggur Ryder áherslu á að UN80 snúist ekki um að skera niður, heldur að efla stofnunina. Fjárhagsleg sjálfbærni og raunverulegur árangur þurfi að haldast í hendur.
„UN80 snýst ekki um að draga saman seglin, heldur um að endurnýja traust og tryggja að Sameinuðu þjóðirnar verði áfram raunhæfur og áhrifaríkur vettvangur fyrir alþjóðlegt samstarf.“
Áætlað er að fyrstu tillögur UN80 vinnuhópsins verði kynntar í júlí 2025 og síðan munu aðildarríkin ákveða næstu skref. Þá kemur í ljós hvort hefja eigi formlegt samráð ríkja um framhald umbótanna. Í dag fengu þó aðildarríkin innsýn í þessa vinnu og hvernig henni miðar á óformlegum fundi um fyrstu tvö meginverkefnin í umbótaferlinu.
UN80 Initiative er því ekki aðeins stjórnunarlegt umbótaverkefni, heldur yfirlýsing um að Sameinuðu þjóðirnar ætli áfram að vera burðarás í friðarviðleitni, mannréttindum og þróun, í þágu fólks um allan heim.
Unnið upp úr frétt á vef Sameinuðu þjóðanna: UN80 Initiative: What it is – and why it matters to the world | UN News
Sjá myndband
Hlaðvarp á ensku frá Sþ þar sem rætt er við Guy Ryder um hvað verkefnið snýst.
Upplýsingasíða UNRIC (á íslensku) um afmælisárið og umbætur kerfisins.