Sevilla, 30. júní 2025.
„Við erum hér í Sevilla til að breyta um stefnu,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í opnunarræðu sinni á fjórðu ráðstefnunni um fjármögnun þróunar (FFD4). Þar kallaði hann eftir metnaðarfullum aðgerðum til að loka gríðarlegu fjármögnunarbili upp á 4 billjónir dollara sem stendur í vegi fyrir heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.
„Heimsbyggðin logar, klofin af ójöfnuði, loftslagsvá og vopnuðum átökum,“ sagði Guterres. „Fjármögnun er hreyfiafl þróunar og núna hikstar vélin.“
Í Sevilla var Sevilla-skuldbindingin samþykkt án þátttöku Bandaríkjanna, en hún felur í sér alþjóðlegt loforð til þróunarríkja um að efla fjárfestingar, bæta ósanngjarnt skuldakerfi og endurskoða fjármálakerfi heimsins.
Guterres lagði áherslu á þrjár aðgerðir:
-
Tvöfalda þróunaraðstoð og þrefalda lánshæfni fjölþjóðastofnana.
-
Endurskoða skuldir þróunarríkja, sem verja nú 1,4 billjónum dollara árlega í vaxtagreiðslur.
-
Endurbæta alþjóðlegt fjármálakerfi og tryggja réttlátara skattkerfi „mótað af öllum, ekki bara fámennum hópi“.
„Þessi ráðstefna snýst ekki um góðgerðarmál – hún snýst um réttlæti. Hún snýst ekki um peninga – heldur fjárfestingu í framtíðinni sem við viljum byggja saman,“ sagði hann.
Spænski forsætisráðherrann Pedro Sánchez undirstrikaði að „nú er tíminn okkar – og staðurinn okkar er hér“ og hvatti til samstöðu og hugrekkis. Ráðstefnan er talin marka upphaf nýs áfanga í alþjóðlegri samvinnu og skuldbindingu um sjálfbæra framtíð fyrir alla.
Íslensk stjórnvöld voru af sjálfsögðu í Sevilla, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, sótti ráðstefnuna. Áherslur Íslands eru:
- Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna er forsenda sjálfbærrar þróunar. Nauðsynlegt er að virkja alla til þátttöku í hagkerfinu til að hámarka árangur.
- Virkjun einkageirans til fjárfestinga í þróunarríkjum er lykilatriði til að efla hagvöxt og skila þróunaráhrifum, ekki síst í samhengi niðurskurðar til þróunarsamvinnu.
- Efling skattkerfa í þróunarríkjum er nauðsynleg til þess að styrkja stoðir stjórnvalda og gera þeim betur kleift að sinna grunnþjónustu og uppbyggingu.
