
„Ég hef ráðlagt öðrum stelpum í sömu aðstæðum að einbeita sér að náminu og neita því að gifta sig áður en þær ná lögaldri eins oft og þarf til. Stúlkur eiga að geta einbeitt sér að náminu“
sagði Maria*, 16 ára stúlka frá Nampula svæðinu í Mósambík. Þegar Maria var í sjötta bekk þá reyndi amma hennar og fjölskylda að neyða hana til þess að ganga í hjónaband með eldri manni en hún neitaði. Því var henni gert að yfirgefa heimili sitt og flosnaði á endanum úr námi. Maria reyndi þá að búa með öðrum fjölskyldumeðlimum en þau reyndu einnig að sannfæra hana um að ganga í hjónaband.
„Ég sagði að ég gæti ekki gift mig vegna þess að ég hefði ekki náð ráðlögðum aldri. Að auki átti ég eftir að klára nám mitt“ – Maria
Á endanum neyddist Maria að búa ein án fjölskyldu og forráðamanna sinna. Fyrr á þessu ári hitti hún Ivone aðgerðarsinna sem leiðbeinir og styður við unglingsstúlkur fyrir hönd ‘Fórum Mulher’ félagasamtakanna, en þau eru samstarfsaðilar Spotlight Initiative.
Ivone hjálpaði Mariu með því að fræða fjölskyldu hennar um þær hættur sem fylgja giftingum á barnsaldri og tilkynnti atvikið til yfirvalda. Á endanum gat Maria flutt inn með annarri frænku sinni og er nú aftur byrjuð í námi.

Maria tekur nú einnig þátt í stúlknahóp sem býður uppá ýmsa uppbyggjandi fræðslu til að koma í veg fyrir barnagiftingar og kynbundið ofbeldi. Síðastliðin þrjú ár hafa meira en 45 þúsund stúlkur notið góðs af þessari fræðslu og átökum hópsins.
Spotlight Inititive er alþjóðlegt átaksverkefni SÞ í samstarfi við Evrópusambandið sem var stofnað í því markmiði að útrýma kynbundnu ofbeldi í öllum þeim myndum sem það birtist. Verkefninu er framfylgt í Mósambík af ráðuneyti kynja-, barna- og félagsmála í samstarfi við SÞ og félagasamtaka eins og ‘Fórum Mulher’. Árið 2021, þjálfaði Spotlight Inititiative í Mósambík fleiri en 500 aðgerðasinna og leiðbeinendur í að halda fræðslukynningar og átaksverkefni á svæðum Gaza, Manica og Nampula, en þær náðu til yfir 700 þúsund manns.

Með því að auka þekkingu og vitund um réttindi sín eru stúlkur eins og Maria betur í stakk búnar til að segja nei við giftingum á barnsaldri, leita eftir nauðsynlegum stuðningi og lifa því lífi sem þær sannarlega eiga skilið.
*Nöfnum hefur verið breytt til að tryggja persónuvernd og öryggi viðmælenda.
Heimildir: