Þann 25. apríl síðastliðinn fór Heimsins stærsta kennslustund fram í Laugarnesskóla við góðar undirtektir. Um það bil 100 börn úr 6. bekk tóku þátt í viðburðinum sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóð fyrir í samstarfi við skólann og barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Heimsins Stærsta kennslustund (Worlds Largest Lesson) er samstarfsverkefni UNESCO og UNICEF og miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auka vitund barna og ungmenna um alþjóðamál og sjálfbæra þróun, og hvetja þau til aðgerða. Verkefnið er framkvæmt á vegum UNESCO-skóla hér á landi, undir umsjón Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Fulltrúar barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða, Aldís Ögmundsdóttir og Baldur Ari Hjörvarsson, komu í heimsókn og leiddu líflegar umræður við nemendur um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra. Við viljum færa þeim sérstakar þakkir, ásamt kennurunum í Laugarnesskóla fyrir frábært samstarf: Rúnu Björgu, Bryndísi Ósk, Dagnýju Björk, Ingu Rut og Guðrúnu Þorkelsdóttur, sem leiddu nemendur sína í gegnum viðburðinn af mikilli fagmennsku og áhuga.

Viðburðurinn markaði mikilvægt skref í að tengja heimsmarkmiðin við daglegt líf nemenda, vekja þau til umhugsunar um sameiginlega framtíð og styrkja rödd barna í umræðum um sjálfbærni og mannréttindi á heimsvísu.