Þann 28. maí s.l. fór fram ársfundur félagsins og var fráfarandi stjórn formlega leyst af störfum og ný stjórn kosin í hennar stað. Fundurinn var haldinn í Mannréttindahúsinu þar sem félagið er með skrifstofu. Það dró til tíðinda á fundinum, því fréttamaðurinn ástsæli Bogi Ágústson, var viðurkenndur sem fyrsti heiðursfélagi félags Sþ. Á fundinum tíunduðu Vala Karen, framkvæmdarstjóri og Eva Harðardóttir, stjórnarformaður, starf félagsins á liðnu ári.
Ný stjórn

Fráfarandi stjórn fékk miklar þakkir fyrir störf sín og óskar starfsfólk Félagsins sérstaklega Unni Lárusdóttur, Susan Christianen og Védísi Sigrúnar Ólafsdóttur lukku í nýjum verkefnum, en þær gáfu ekki kost á sér að nýju. Eftir sitja Eva Harðardóttir, Þórður Kristinsson, Páll Ásgeir Davíðsson og Viktoría Valdimarsdóttir en ný inn í stjórn koma Erlingur Erlingsson, Rakel Anna Boulter og Helen María Ólafsdóttir. Það er mikill fengur fyrir félagið að fá jafn öflugt fólk og þau ný inn og það sama má segja um þau sem buðu sig áfram til setu í stjórn.


Bogi Ágústsson heiðursfélagi
Bogi hefur verið félaginu ómetanlegur styrkur í gegnum árin. Hann gegndi starfi framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 1977 til 1981 og síðar sat hann í stjórn félagsins á árunum 2012–2015. Á báðum tímabilum lagði hann sitt af mörkum með eldmóði og dýpt.
Bogi hefur í gegnum tíðina verið einn virtasti fréttamaður landsins. Með skýrleika og ábyrgð hefur hann miðlað alþjóðamálum og starfsemi Sameinuðu þjóðanna til íslensks almennings og þannig stuðlað að upplýstri og yfirvegaðri umræðu um frið, mannréttindi og alþjóðlega samvinnu – verðmæti sem nú skipta meira máli en nokkru sinni fyrr.
Útnefning Boga sem heiðursfélaga er því ekki aðeins viðurkenning á hans persónulega framlagi, heldur einnig áminning um mikilvægi hlutverks fjölmiðla við að fjalla um alþjóðamál af réttsýni og ábyrgð.
Fréttir af starfi ársins
Það var af nógu að taka þegar Vala Karen, framkvæmdarstjóri og Eva Harðardóttir, Formaður stjórnar, fóru yfir verkefni ársins. Samstarfsverkefni, kynning á starfi Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, UNESCO-skólar, og margt fleira.
Félagið er afar öflugur vettvangur fyrir fræðslu, miðlun og borgaralegt samtal í anda þeirra gilda sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir um frið, mannréttindi, og alþjóðasamtarfs. Og mögulega hefur hlutverk félagsins aldrei verið mikilvægara en nú þegar litið er til flókinnar stöðu á alþjóðlegum vettvangi, vaxandi ójöfnuð og átök.
Sagði Eva Harðardóttir, formaður stjórnar.