Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna fundaði með ríkisstjórninni

Mynd / FOR, MRN

Þann 22. ágúst sl. sat barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fund með ríkisstjórn Íslands þar sem það kynnti sínar hugmyndir og áherslur um hvernig vinna mætti markvisst að heimsmarkmiðunum hér á landi.

Ráðið lagði fram tíu tillögur sem snúa meðal annars að skólamálum, heilbrigðisþjónustu, lýðræðislegri þátttöku, fjölbreytileika og þörf fyrir samræmda ungmennastefnu. Í kjölfar kynningarinnar áttu ráðherrar og fulltrúar ráðsins samtal um hugmyndirnar og sýn unga fólksins á næstu skref í þessum málaflokki.

Fundir sem þessir eru mikilvægur vettvangur þar sem ungt fólk getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri beint við þá sem móta stefnu í samfélaginu. Í ráðinu sitja tólf fulltrúar á aldrinum 13–18 ára víðs vegar af landinu. Ráðið hefur verið starfandi allt frá árinu 2018.

Meira um barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna má finna hér: Heimsmarkmið | Barna- og ungmennaráð og Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi