Vel heppnað kennaranámskeið á Reykjanesi

Kennaranámskeið um heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar heppnaðist afar vel

13. ágúst s.l. hélt Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi námskeiðið Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: Heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar fyrir kennara og stjórnendur á öllum skólastigum. Námskeiðið fór fram í húsnæði Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og tóku þátt yfir 20 kennarar úr UNESCO-skólum á svæðinu.

Á námskeiðinu var lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem styðja við þekkingu og þátttöku nemenda í málefnum Sameinuðu þjóðanna, mannréttindum, friðarmenningu og sjálfbærri þróun. Þátttakendur fengu að prófa nýjar leiðir til að virkja nemendur og deila reynslu sinni sín á milli.

Kennarar námskeiðsins voru Eva Harðardóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá félaginu.

Þorvarður Atli Þórsson, stjórnarformaður í félagi SÞ bauð þátttakendum í hermilíkan SÞ – Model UN. Þátttakendur settu sig í spor fulltrúa fimm aðilarrríkja á vettvangi Mannréttindaráðs SÞ og gerðu, eftir samninga, erindi og almennt sterka diplómatíska takta, atlögu að ályktun um réttláta vernd flóttafólks.

Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með námskeiðið og sögðu það veita bæði hagnýtar hugmyndir til kennslu og innblástur í starfinu. Félagið hyggst halda áfram að þróa námskeiðið á komandi árum í nánu samtali við kennara.

Við hyggjumst halda fleiri námskeið á næstunni og verða þau auglýst innan UNESCO-skóla netsins og á samfélagsmiðlum.

Við þökkum þátttakendum fyrir þeirra framlag og SSS fyrir húsnæðið.