Fánadagur heimsmarkmiðanna 25. september

Heimsmarkmiðin kalla á okkur öll – 25. september 2025

Árið 2025 stöndum við á krossgötum þar sem aðeins fimm ár eru eftir til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Staðan í heiminum er krefjandi með yfirvofandi loftslagsvanda, ójöfnuði og átakalínum milli þjóða sem draga úr framförum. Þrátt fyrir það sýna nýjustu skýrslur að árangur hefur náðst þegar við stöndum saman. Samkvæmt nýjustu framvinduskýrslu Sameinuðu þjóðanna eru aðeins um 35% markmiða á réttri leið. Þó hefur á þessum tíma tekist að ná verulegum framförum í mikilvægum málaflokkum þar sem tíðni ungbarnadauða hefur lækkað, fleiri börn hafa aðgang að skóla og yfir 90% jarðarbúa hafa nú rafmagn
(UN SDG Report 2025).

Flöggum 25. september 2025
Fánadagur Heimsmarkmiðanna er tækifæri til að minna okkur á að hvert einasta framtak skiptir máli. Með því að flagga fánanum sýnum við vilja til að vera hluti af lausninni, hvort sem við erum fyrirtæki, skóli eða stofnun. Með því að flagga fána Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna erum við að sýna samstöðu, vekja umræðu og hvetja til nýrra hugmynda sem styrkja vegferðina að betri heimi fyrir öll.
Hverjir geta tekið þátt?
Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru þátttakendur í UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Skólar, samtök og stofnanir geta skráð sig og pantað fána í gegnum felag@un.is. Athugið einnig er hægt að taka þátt rafrænt (á samfélagsmiðlum).
Leiðbeiningar fyrir þátttöku
Þegar þátttaka hefur verið skráð fær tengiliður sendar leiðbeiningar fyrir fánadaginn, merkingar fyrir samfélagsmiðla og tillögur að færslum fyrir heimasíður/samfélagsmiðla sem hægt er að útfæra með eigin sniði.
Þar sem fánadagurinn er samstillt framtak, þá biðjum við ykkur um að fylgja sérstaklega leiðarvísinum þegar kemur að merkingum fyrir samfélagsmiðla. Endilega takið myndir og myndbönd af fánanum með starfsfólki og nemendum og deilið á ykkar miðlum.
Panta fána
Til að lágmarka kolefnisfótspor eru fánarnir prentaðir á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu. ATH. Skólar fá sérstakan afslátt í gegnum felag@un.is.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan. Texti er á íslensku.
Deildu þátttökunni
Þann 25. september n.k. eru þátttakendur hvattir til að deila þátttöku sinni í fánadeginum á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingum, myndefni o.fl. verða sendar þegar þátttaka hefur verið staðfest.
Um framtakið
United Nations Global Compact hefur frá árinu 2019 staðið fyrir fánadegi heimsmarkmiðanna. Vinsældir þessa framtaks hafa farið ört vaxandi um allan heim og sífellt fleiri flagga fána fánanum árlega. UN Global Compact á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa nú í þriðja sinn, saman að deginum hér á landi.
Fánadagur heimsmarkmiðanna er frábært tækifæri til að vekja athygli og skapa umræðu um það sem þátttakendur eru að gera til að vinna markvisst að markmiðunum.