Heimsmarkmiðin nú til á auðlesnu máli

 

Í tilefni fánadags heimsmarkmiðanna gefa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Miðstöð um auðlesið mál út bækling sem kynnir heimsmarkmiðin á auðlesnu máli. Markmið útgáfunnar er að gera heimsmarkmiðin aðgengilegri og hvetja alla til að leggja sitt af mörkum til að ná árangri í þeim, og hvetja jafnframt aðra til að gera slíkt hið sama.


Auðlesið mál byggir á einfaldri setningagerð, skýrum orðum og stuttum texta, sem auðveldar lesendum að skilja efnið. Með því að kynna heimsmarkmiðin á þennan hátt er tryggt að fleiri geti tekið þátt í því mikilvæga verkefni að skapa sjálfbæra framtíð fyrir öll.
Verkefnið var unnið með styrk frá ÖBÍ réttindasamtökum og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Einnig er Miðstöð um auðlesið mál þakkað fyrir gott samstarf.


„Það er okkur afar mikilvægt að heimsmarkmiðin séu skýr og aðgengileg fyrir öll, því þau snerta alla íbúa jarðar – ekki síst í ljósi þess bakslags sem við stöndum frammi fyrir. Samvinna og samstarf um að gefa í þegar kemur að heimsmarkmiðunum hefur aldrei verið mikilvægara“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdarstjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Bæklingurinn er aðgengilegur á hérna að neðan, en félagið vinnur áfram að enn frekara efni um heimsmarkmiðin á auðlesnu máli. Sérstakt vefsvæði tileinkað þessu efni verður sett upp á næstunni.

Sækja bækling: Heimsmarkmiðin auðlesin