Ungt fólk leiðir loftslagsumræðuna í Model UN
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og UNESCO-skólinn Kvennaskólinn í Reykjavík hefja samstarfsverkefni þar sem framhaldsskólanemar fá tækifæri til að kynnast heimi alþjóðlegrar diplómasíu – og takast á við eina af stærstu áskorunum samtímans: loftslagsbreytingar.
Verkefnið byggir á aðferðafræði Model UN, þar sem nemendur setja sig í spor fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og ræða lausnir á loftslagsmálum út frá sjónarhorni samvinnu, réttlætis og sjálfbærni. Þannig öðlast þátttakendur innsýn í ákvarðanatökur á alþjóðavettvangi – og upplifa jafnframt hvernig rödd ungs fólks getur haft áhrif.
Hver getur tekið þátt?
Þátttakendur þurfa enga sérstaka reynslu og er þess einungis krafist að nemendur vilji læra meira um starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
Viðburðurinn er opinn öllum framhaldsskólanemendum en nemendum í UNESCO-skólum er veittur forgangur.
Skráðu þig til þátttöku hérna: https://forms.office.com/e/ekNb2pjfCm
Af hverju ættir þú að taka þátt?
- Skemmtilegt tækifæri: Þú færð að prófa þig áfram í ræðuhaldi, samningaviðræðum og samvinnu.
- Skildu heiminn betur: Þú lærir hvernig Sameinuðu þjóðirnar starfa og hvernig ákvarðanir um stærstu mál samtímans eru teknar.
- Vertu hluti af lausninni: Þú tekur þátt í að móta hugmyndir og lausnir sem skipta raunverulegu máli.
- Byggðu tengslanet: Þú hittir jafnaldra úr öðrum skólum, myndar ný vinatengsl og kynnist fólki með svipuð áhugamál.
- Einstök reynsla fyrir framtíðina: Þessi þátttaka styrkir þig sem borgara og framtíðarleiðtoga – og getur líka verið dýrmæt reynsla í námi og starfi.
Nemendur í Kvennaskólanum mynda sérstakan stýrihóp sem skipuleggur viðburðinn, en nemendum úr öðrum UNESCO-skólum um land allt er boðið að taka þátt. Verkefnið sameinar fræðslu, skapandi vinnu og valdeflingu og leggur áherslu á að gera ungt fólk að virkum þátttakendum og framtíðarleiðtogum í loftslagsumræðu.
Hægt er að kynna sér meira um Model UN hér: IceMUN | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Áhugasömum er bent á að hafa samband við Pétur Hjörvar, verkefnastjóra hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á petur@un.is eða í gegnum samfélagsmiðla félagsins: Facebook / Instagram
Verkefnið hlaut styrk frá Loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík.