Morgunfundur um Sameinuðu þjóðirnar vel sóttur

Í gær stóð Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, fyrir umræðufundi í tilefni 80 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna.

Viðburðurinn var vel sóttur og einkenndist af breiðum umræðum um áskoranir, möguleika og fyrirséðar breytingar stofnunarinnar í samhengi fortíðar, samtíðar og framtíðar.

Bogi Ágústsson, heiðursfélagi Félags Sameinuðu þjóðanna, stýrði fundinum og setti tóninn með hugleiðingu um mikilvægi SÞ í samtímanum. Að honum loknum tók Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor í sagnfræði, til máls. Hann fjallaði um viðhorf Íslendinga til Alþjóðadómstólsins í sögulegu samhengi og dró fram þá togstreitu sem oft myndast á milli þjóðlegra og alþjóðlegra hagsmuna, togstreitu sem enn hefur mikið vægi í starfi Sameinuðu þjóðanna.

Helen María Ólafsdóttir, ráðgjafi í öryggis- og þróunarmálum, talaði út frá áratuga reynslu á átakasvæðum og minnti á mikilvægi mannúðar- og öryggisstarfs SÞ, einkum til að vernda borgara við krefjandi aðstæður.

Árni M. Mathiesen fjallaði um áhrif Íslands á vettvangi SÞ og benti á að smæð landsins fylgi ekki aðeins takmarkanir heldur einnig sérstök tækifæri. Hann lagði áherslu á að ef Sameinuðu þjóðirnar væru ekki til þyrfti einfaldlega að finna þær upp.

Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar, beindi sjónum að umhverfis- og loftslagsmálum og hvatti til hugrakkra skrefa í alþjóðlegri samvinnu. Hún lagði áherslu á að samvinna þvert á sérsvið væri lykilatriði til að ná sjálfbærum árangri til lengri tíma.

Viðburðurinn markaði upphaf afmælisárs SÞ og undirstrikaði mikilvægi stofnunarinnar sem lykilvettvangs í alþjóðlegu samstarfi smáríkja á borð við Ísland. Hauststarf Félags Sameinuðu þjóðanna mun einkennast af viðburðum, útgáfu og öðru efni sem liður í því að fagna þessum tímamótum.

Félagið þakkar öllum sérfræðingunum kærlega fyrir þátttökuna og gestum fyrir að fjölmenna á viðburðinn.