Þann 24. október fagna Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) 80 ára afmæli sínu. Þegar stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna tók gildi árið 1945 var markmiðið skýrt: að tryggja frið, mannréttindi og alþjóðlega samvinnu. Á áttatíu árum hafa SÞ gegnt lykilhlutverki í að efla lýðræði, mannréttindi, menntun og sjálfbæra þróun.
Nú standa Sameinuðu þjóðirnar á nýjum tímamótum. Á afmælisárinu fer stofnunin í gegnum umfangsmikið umbótaferli, þar sem áhersla er lögð á að færa starf hennar nær fólki, efla traust og gagnsæi, og gera alþjóðlegt samstarf skilvirkara og sanngjarnara. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur kallað eftir „sterkara, nánara og virkara fjölþjóðakerfi“ sem byggir á raunverulegri þátttöku borgara og aukinni rödd ungs fólks og samfélagsins alls.
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa haft víðtæk áhrif á daglegt líf fólks, meðal annars í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO), Barnahjálp SÞ (UNICEF), Menningarmálastofnun SÞ (UNESCO) og Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR). Verkefni þeirra snerta öryggi, menntun, jafnrétti, loftslagsmál og mannúð, og mynda grunn að alþjóðlegu samstarfi um lausnir á sameiginlegum áskorunum.
Á Íslandi hefur Félag Sameinuðu þjóðanna í tæpa átta áratugi unnið að því að efla vitund, fræðslu og þátttöku almennings í alþjóðlegum málum. Félagið vinnur sérstaklega með ungu fólki og borgarasamfélaginu meðal annars með því að kynna heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og skapa vettvang fyrir samræðu um málefni SÞ, frið og mannréttindi.
Afmælisdagur Sameinuðu þjóðanna ber með sér sterka íslenska tengingu. Kvennafrídagurinn 1975 var haldinn á degi Sameinuðu þjóðanna á ári útnefndu af SÞ sem kvennaár SÞ. Þann dag tengdu íslenskar konur baráttu sína fyrir jafnrétti beint við alþjóðlega baráttu Sameinuðu þjóðanna um réttlæti, frið og samstöðu.
„Barátta íslenskra kvenna hefur frá upphafi verið í takt við þau gildi sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir. Að jafna tækifæri kynjanna er forsenda friðar, lýðræðis og sjálfbærrar framtíðar. Íslenskar konur sýndu með Kvennafrídeginum að barátta fyrir jafnrétti er hluti af stærra verkefni heimsins, því sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til að tryggja og verja,“ segir Vala Karen.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hvetur almenning, skólasamfélög til að nýta afmælið til að íhuga mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu, samstarfs og samtals, sérstaklega á tímum aukins vantrausts og spennu í alþjóðamálum.
„Framtíð Sameinuðu þjóðanna ræðst ekki einungis í höfuðstöðvunum í New York, hún ræðst af vilja okkar allra til að standa vörð um gildi friðar, jafnréttis og lýðræðis,“ segir Vala Karen.