Alþjóðaár jökla: Menntaskólanemar heimsóttu Sólheimajökul

Nemendur úr Menntaskólanum við Sund (MS) og Fjölbrautaskólanum við Ármúla (FÁ) heimsóttu nýverið Sólheimajökul í fylgd leiðsögumanns frá Asgard Beyond. Ferðin var liður í verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarf skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tileinkað alþjóðlegu ári jökla.

Þrátt fyrir að um 10% af Íslandi séu þakin jöklum eru fáir menntaskólanemendur á Íslandi sem þekkja eða hafa heimsótt jökla. Sem hluti af undirbúningi ferðarinnar hittu nemendurnir Hrafnhildi Hannesdóttir, fagstjóra jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, sem sagði nemendunum frá jöklum og jöklarannsóknum á Íslandi. Nemendurnir undirbjuggu einnig handrit og skipulögðu tökur til framleiða efni, myndbönd og ljósmyndir, með það að markmiði að vekja athygli á áhrif loftlagsbreytinga.

Við Sólheimajökul fengu nemendurnir jöklabúnað, brodda, belti, axir og hjálm, áður en þau gengu að jökulsporðinum. Jöklaleiðsögumaðurinn Róbert, sagði nemendunum frá hvernig jöklar verða til og af hverju þeir eru helst á suðaustur hluta landsins. Hann sagði þeim einnig frá þeim miklu breytingum sem orðið hafa á jöklum landsins vegna hlýnunar loftslags.

Verkefnið Draumur um jökul felur ekki aðeins í sér ferð á jökulinn heldur einnig skapandi miðlun. Þrátt fyrir skyn og skúrir á Sólheimajökli, þar sem rignir flesta daga ársins, þá tókst nemendahópnum að safna myndefni á jöklinum, tóku viðtöl við hvort annað en einnig jöklaleiðsögumanninn. Markmiðið er að deila þekkingu um jökla, vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga og hvetja fleiri til að heimsækja þessar einstöku náttúruperlur – áður en þær hverfa.

Verkefnið hlaut styrk úr Loftslagssjóði ungs fólks.