10. nóvember 17:00-19:00
Hátíðarsalur Háskóla Íslands, aðalbygging
Mánudaginn 10. nóvember, munu utanríkisráðuneytið, Íslandsdeild Norræns tengslanets kvenna í sáttamiðlun (Nordic Women Mediators Network), Jafnréttisskóli GRÓ og Alþjóðamálastofnun við Háskóla Íslands, UN Women Ísland og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að alþjóðlegu málþingi um konur, frið og öryggi. Málþingið er haldið í samvinnu við Heimsþing kvenleiðtoga sem fram fer í Hörpu dagana 10.–12. nóvember.
Málþingið er haldið í tilefni 25 ára afmælis ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur frið og öryggi sem samþykkt var árið 2000. Ályktunin markaði tímamót með því að viðurkenna mikilvægi þátttöku kvenna í friðarferlum, vernd þeirra í átökum og samþættingu kynjasjónarmiða í öryggismálum. Því er ætlað að skapa vettvang fyrir alþjóðlegt samtal milli stjórnvalda, fræðasamfélagsins, alþjóðastofnana og grasrótar og staðfestir áframhaldandi forystu Íslands á sviði jafnréttis, friðar og mannréttinda, og sem málsvari ályktunar 1325 undanfarna tvo áratugi. Rúmlega helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hafa mótað landsáætlun til að framfylgja ályktun 1325 um konur, frið og öryggi. Ísland hefur mótað sína fjórðu landsáætlun og er málþingið liður í framfylgd hennar.
Á málþinginu munu leiðtogar frá átakasvæðum, alþjóðastofnunum, frjálsum félagsamtökum og fræðasamfélagi taka þátt í samræðum um ólíka reynslu af aðkomu kvenna að öryggismálum. Þær munu jafnframt ræða stöðu kvenna innan alþjóðakerfisins út frá ályktuninni sem og þær skuldbindingar sem stuðla að aukinni þátttöku kvenna í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn vopnuðum átökum, friðarferlum og friðaruppbyggingu að loknum átökum.
Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að smella á meðfylgjandi hlekk: 25 Years of Women, Peace and Security: Renewed commitments to gender responsive solutions
Góðfúslega mætið vel tímanlega því skrá þarf gesti inn í salinn þar sem málþingið fer fram. Viðburður hefst tímanlega kl. 17:00.
Dagskrá
17:00 – Opnunarávarp, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ við Háskóla Íslands og þátttakandi í tengslaneti norrænna kvenna í sáttamiðlun (Nordic Women Mediators).
17:10 – Setningarræða, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands
17:20 – Pallborðsumræður um reynslu af aðkomu kvenna að öryggismálum, stöðu þeirra innan alþjóðakerfisins og sem virkir þátttakendur í friðarferlum og ákvarðanatöku.
Stjórnandi: Melanne Verveer, forstöðukona fræðaseturs um konur, frið og öryggi við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum.
Þátttakendur
-
Mariana Betsa, aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu
-
Dr Isata Mahoi, ráðherra jafnréttismála og málefna barna í Síerra Leóne
-
Sofia Calltorp, framkvæmdastýra skrifstofu UN Women í Genf og yfirmaður mannúðarmála stofnunarinnar
- Summer Abu Mughli, sérfræðingur í alþjóðamálum frá An-Najah háskólanum í Palestínu
18:20 – Lokaorð Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands
18:30–19:00 Móttaka þar sem boðið verður upp á léttar veitingar.
Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að smella á meðfylgjandi hlekk: 25 Years of Women, Peace and Security: Renewed commitments to gender responsive solutions
Hægt verður að fylgjast með málþinginu í streymi hér: https://vimeo.com/event/5488701