Málstofa um Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindaráðið á friðarráðstefnu

Málstofan „Protecting Rights Together: The Role of the United Nations in Today’s Human Rights Struggles“, sem fer fram kl. 14:20–15:20 þann 10. október, skoðar mikilvægi sameiginlegrar ábyrgðar ríkja til að viðhalda alþjóðlegum mannréttindum. Þar verður rætt um um hvernig Sameinuðu þjóðirnar og aðrar fjölþjóðlegar stofnanir geta varið og eflt mannréttindi á heimsvísu.

Katja Creutz, frá Finnsku alþjóðamálastofnuninni, flytur inngangserindi en að því loknu munu alþjóðlegir og íslenskir sérfræðingar velta upp spurningum meðal annars um áhrif smærri ríkja innan kerfis Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til að vernda mannréttindi.

Í pallborðinu taka þátt:

  • Katja Creutz, frá Finnsku alþjóðamálastofnuninni (Finnish Institute of International Affairs)
  • Jessica Stern, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna fyrir réttindi LGBTQI+ fólks og fræðimaður við Carr-Ryan Center for Human Rights við Harvard Kennedy School
  • Einar Gunnarsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, lögmaður og formaður Siðmenntar

Umræðurnar verða í umsjón Kristjáns Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðings.

Málstofan, sem setur hlutverk Sameinuðu þjóðanna og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í brennidepil, er hluti af Imagine Forum ráðstefnunni.

Imagine Forum er árleg friðarráðstefna Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins. Þema ráðstefnunnar í ár eru mannréttindi sem grundvöllur varanlegs friðar. Í ár tekur Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þátt í skipulagningu ráðstefnunnar.

Fjöldi áhrifafólks og sérfræðinga munu taka þátt í dagskrá ráðstefnunnar en þar má nefna Varsen Aghabekian Shaheen utanríkisráðherra Palestínu, Nazanin Boniadi, leikkonu og mannréttindafrömuð og Vladimir Kara-Murza, sagnfræðing og blaðamann.

Ráðstefnan er vettvangur fyrir opna umræðu um mannréttindi, frið og alþjóðlegt samstarf í samtímanum og tengir saman fræðimenn, stjórnmálafólk og starfandi sérfræðinga á sviði mannréttindamála.

Nánari upplýsingar og dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu hennar:
👉 https://ams.hi.is/en/projects/fridar-radstefnan/