Fundur Félags Sameinuðu þjóðanna með Flóttamannastofnun SÞ og íslenskum félagasamtökum

Í morgun skipulagði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fund með Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (UN High Commissioner for Refugees), og Annika Sandlund, svæðisstjóra Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin.

Á fundinum komu saman fulltrúar íslenskra félagasamtaka og sérfræðingar sem starfa að málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Rætt var um stöðu mála á Íslandi, löggjöf og kerfisbundnar áskoranir, aðstæður viðkvæmra hópa, aðgengi að þjónustu og samþættingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag.

Filippo Grandi lagði áherslu á að grunnurinn að góðri löggjöf og árangursríkri aðlögun felist í opnu samtali og nánu samstarfi við félagasamtök og grasrótina. Hann undirstrikaði að stjórnvöld geti ekki tekist á við þessi verkefni ein, heldur þurfi að nýta þá þekkingu og reynslu sem býr meðal þeirra sem vinna daglega að málefnum flóttafólks og mannréttinda.

Grandi hefur gegnt embætti flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna síðan árið 2016, þegar hann tók við af António Guterres, núverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann lýkur störfum sínum nú um áramótin, en þetta var fyrsta heimsókn hans til Íslands, sem hann sagði hafa lengi verið á áætlun.

Fundurinn var hluti af opinberri Íslandsheimsókn Grandi, þar sem hann átti jafnframt fund með forsætisráðherra Íslands, utanríkisráðherra og forseta Íslands.

FSÞ / Níu félagasamtök tóku þátt á fundinum með Filippo Grandi.