Alþingi samþykkti þann 12. nóvember 2025 frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Lögfestingin markar tímamót í íslenskri mannréttindavernd og styrkir réttarstöðu fatlaðs fólks með skýrum og beinum lagalegum hætti.
Samningurinn tryggir fötluðu fólki víðtæk mannréttindi, þar á meðal rétt til að lifa sjálfstæðu lífi, njóta fulls aðgengis, fá þjónustu án mismununar og taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006.
Lengi hefur verið kallað eftir lögfestingu SRFF hér á landi en Ísland fullgilti samninginn árið 2013. Með stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, hefur nú verið uppfyllt eitt af lykilskilyrðum um eftirlit og innleiðingu samningsins. Lögfestingin byggir jafnframt á umfangsmikilli vinnu við landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem mótar fyrstu heildstæðu stefnu Íslands á þessu sviði.
Með lögfestingunni verður samningurinn fullgild réttarheimild sem dómstólar, stjórnsýsla og sveitarfélög geta vísað beint til. Réttindi fatlaðs fólks verða þannig skýrari í íslenskum lögum og innleiðing samningsins fær aukið vægi.
Lögfestingin er mikilvægur áfangi, en áfram stendur yfir vinna við að tryggja að framkvæmd og þjónusta endurspegli réttindi samningsins í daglegu lífi fatlaðs fólks.
Einnig má hér nálgast auðlesið efni um SRFF, sem gefið var út af Þroskahjálp.
Til hamingju Ísland! Áfram mannréttindi fyrir öll!