Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fagnar því að Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) hafi formlega hlotið viðurkenningu sem UNESCO-skóli stuttu fyrir jól. Þetta eru tímamót fyrir skólann og mikilvægt framfaraskref í því að efla menntun í anda sjálfbærni, mannréttinda og alþjóðlegrar samvinnu.
Við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi erum sérstaklega stolt af þeirri öflugu vinnu sem á sér nú stað á Suðurnesjum, þar sem allir skólar á Reykjanesi eru nú í umsóknarferli um að verða UNESCO-skólar. Verkefnið er hluti af stærra samstarfi sem miðar að því að styðja við leik-, grunn- og framhaldsskóla á Suðurnesjum til að taka þátt í UNESCO-skólanetinu og styrkja þannig alþjóðlegt sjónarhorn í skólastarfi.
Umsóknarferlið hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja var unnið í nánu samstarfi við Suðurnesjavettvang og Reykjanes Jarðvang, sem hafa hrint af stað þessu metnaðarfulla verkefni í samvinnu við Félag SÞ sem sér um UNESCO-skólaverkefnið á Íslandi.
Heimsókn og gjafir í tilefni tímamótanna
Í tilefni þessara tímamóta heimsótti Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes Jarðvangi og GeoCamp Iceland, skólann og afhenti meðal annars bækur og fræðsluefni frá Reykjanes Geopark, sem skólinn mun nýta í starfi sínu.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi óskar Fjölbrautaskóla Suðurnesja innilega til hamingju og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við skólasamfélagið á Suðurnesjum í þessu mikilvæga verkefni.

Fréttin er unnin upp úr frétt sem birtist á vefsíðu Fjölbrautarskóla Suðurnesja.