Neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Jemen

Mannúðarástandið í Jemen er gríðarlega slæmt. Þúsundir hafa verið drepnir og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín. Átökin hafa staðið í yfir þrjú ár en þau hófust í mars 2015 eftir að Hútar tóku yfir ríkisstjórn Jemen að Sádí-Arabar blönduðu sér inn í átökin. Núna hefur ein fátækasta þjóð í Miðausturlöndunum orðið að blóðugum vettvangi fyrir innanlandsátök og átök á milli stórveldanna í Miðausturlöndum.

Hvernig byrjaði þetta allt saman? Eftir að einræðisherrum í öðrum ríkjum Miðausturlanda var steypt af stóli í Arabíska vorinu 2011 Jemenar það líka. Forseti Jemen, Ali Abdullah Saleh var neyddur til þess að láta af völdum til Abdrabbuh Mansour Hadi í nóvember 2011, en valdaumskiptin mistókust. Í kjölfarið varð  mikið atvinnuleysi, fæðuóöryggi, sjálfsmorðsárásir og  aðskilnaðarhreyfing í suður-Jemen varð til. Þá byrjaði borgarastyrjöldin.

Stríðandi fylkingar eru annars vegar Hútar, pólitískur Sjía uppreisnarhópur sem eru hliðhollir fyrrum forseta Jemen, Ali Abdullah Saleh. Og þeir sem hliðhollir eru nýju ríkisstjórninni hans Abdrabbuh Mansour Hadi hins vegar. Árið 2014 náðu Hútar að taka yfir Sanaa höfuðborg Jemen og í byrjun 2015 reyndu þeir að taka yfir allt Jemen og neyddist þá Hadi til að flýja til Sádi-Arabíu. Það var þá sem Sádar litu á Húta sem yfirvofandi ógn og höfðu áhyggjur að þetta gæti verið tækifæri fyrir Íran að ná yfirráðssvæði við landamæri sín. Sádar kenna Írönum um að styðja við Húti uppreisnarmennina en Tehran neitar allri sök, svo Sádar stofnuðu Bandalag með Sameinuðu Furstadæmunum, Senegal, Súdan, Katar og Barein og byrjuðu loftárásir á Jemen.

Ástandinu í Jemen hefur hrakað verulega síðan þá, en yfir tíu þúsund manns hafa látið lífið og þrjár milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Bandalag Sáda vilja endurheimta ríkisstjórn Hadi en ekki hefur tekist að ná aftur yfirráðssvæði Húta í norður-Jemen né höfuðborginni Sanaa. Á meðan að styrjöldin hefur geisað hafa liðsmenn Al-Qaeda og Isis nýtt sér tækifærið og náðu svæði undir sinni stjórn í suður-Jemen, en hafa tapað nánast öllum yfirráðum yfir þeim svæðum.

Eins og í öllum stríðum þá eru helstu fórnarlömb átakanna óbreyttir borgarar og þá sérstaklega börn. Eyðileggingin hefur orsakað mikin skort á matvælum og eldsneyti  og hefur það ýtt yfir 16 milljón manna í hungursneyð, af þeim eru 2 milljónir börn og stór hluti þeirra er í lífshættu. Einnig hefur meirihluti landsmanna engan aðgang að hreinu vatni og sorp og skólp mengun veldur sjúkdómafaraldri.

Stríðið í Jemen er stríð gegn börnum. UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen undir yfirskriftinni „má ég segja þér svolítið?“ Með þessu átaki vill UNICEF beina sjónum almennings að neyð barna í Jemen og leyfa börnum í landinu að segja sögu sína. Neyðarátakið er byggt á raunverulegum sögum barna sem hafa upplifað hörmungar sem heimurinn horfir framhjá, á hverjum einasta degi. Það sem hefur verið ómetanleg hjálp í Jemen er UNICEF, sem hefur veitt milljónum barna neyðarhjálp síðustu ár við gífurlega erfiðar aðstæður. Framlögin úr neyðarsöfnuninni munu fara í að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í Jemen, m.a að meðhöndla börn gegn vannæringu, tryggja vatns- og hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, bólusetja börn gegn mænusótt, dreifa skólagögnum og setja upp barnvæn svæði þar sem kennsla getur farið fram og hægt er að veita börnum sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum sínum.

Stríðandi fylkingar hafa ekki sýnt merki um að gefast upp og er engin lausn í sjónmáli.  UNICEF hefur kallað eftir því að allir aðilar að átökunum sem og alþjóðasamfélagið vinni tafarlaust að friðsamlegri lausn og bindi enda á ofbeldið gegn börnum í Jemen. Hægt er að hjálpa með því að senda SMS-ið JEMEN í nr. 1900 og gefa þannig 1900 krónur í neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen.  Sú upphæð samsvarar t.d rúmlega tveggja vikna meðferð gegn vannæringu fyrir eitt barn.