Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun snúa að því að búa til betri heim fyrir alla. Allir þurfa að taka þátt og stjórnvöld og sveitarfélög skipta þar gríðarlega miklu máli. Ríkisstjórnin samþykkti nýverið þau undirmarkmið sem sett verða í forgang á Íslandi og gaf út stöðuskýrslu um stöðu Íslands gagnvart markmiðunum. Á málstofunni Betri heimur fyrir alla, sem haldin verður sem hluti af Lýsu 2018, gefst tækifæri til þess að kynnast áætlunum ríkisstjórnarinnar við innleiðingu Heimsmarkmiðanna sem og hvernig markviss innleiðing þeirra á vettvangi ríkis og sveitarfélaga getur stuðlað að betri heilsu og vellíðan íbúa á öllum æviskeiðum.
Fanney Karlsdóttir, forsætisráðuneyti mun kynna áætlun ríkisstjórnarinnar, Áslaug Karen Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Heimsmarkmiðana kynnir verkefni og aðgerðir utanríkisráðuneytisins, Páll Magnússon mun kynna hugmyndir Kópavogs og Gígja Gunnarsdóttir hjá Embætti landlæknis mun fjalla um Heilsueflandi samfélag og tengingu nálgunarinnar við Heimsmarkmiðin.
Fundarstjóri verður Harpa Júlíusdóttir frá Félagi Sameinuðu þjóðanna.
Málstofan fer fram í Hömrum, Menningarhúsinu Hofi, laugardaginn 8.september 2018 frá kl: 15:00-16:15 (vekjum athygli á breyttum tíma, áður auglýst kl: 13:15). Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.