Fjölbrautaskóli Suðurnesja fjórði UNESCO-skólinn á Suðurnesjum

Mynd / FS Guðmann Kristþórsson

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fagnar því að Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) hafi formlega hlotið viðurkenningu sem UNESCO-skóli stuttu fyrir jól. Þetta eru tímamót fyrir skólann og mikilvægt framfaraskref í því að efla menntun í anda sjálfbærni, mannréttinda og alþjóðlegrar samvinnu.

Við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi erum sérstaklega stolt af þeirri öflugu vinnu sem á sér nú stað á Suðurnesjum, þar sem allir skólar á Reykjanesi eru nú í umsóknarferli um að verða UNESCO-skólar. Verkefnið er hluti af stærra samstarfi sem miðar að því að styðja við leik-, grunn- og framhaldsskóla á Suðurnesjum til að taka þátt í UNESCO-skólanetinu og styrkja þannig alþjóðlegt sjónarhorn í skólastarfi.

Umsóknarferlið hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja var unnið í nánu samstarfi við Suðurnesjavettvang og Reykjanes Jarðvang, sem hafa hrint af stað þessu metnaðarfulla verkefni í samvinnu við Félag SÞ sem sér um UNESCO-skólaverkefnið á Íslandi.

FS bætist í hóp Stóru-Vogaskóla, Háaleitisskóla og Leikskólans Gimli, sem nú þegar eru orðnir UNESCO Skólar.

Heimsókn og gjafir í tilefni tímamótanna

Í tilefni þessara tímamóta heimsótti Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes Jarðvangi og GeoCamp Iceland, skólann og afhenti meðal annars bækur og fræðsluefni frá Reykjanes Geopark, sem skólinn mun nýta í starfi sínu.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi óskar Fjölbrautaskóla Suðurnesja innilega til hamingju og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við skólasamfélagið á Suðurnesjum í þessu mikilvæga verkefni.

Mynd / FS Guðmann Kristþórsson

 

Fréttin er unnin upp úr frétt sem birtist á vefsíðu Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Alþjóðaár jökla: Menntaskólanemar heimsóttu Sólheimajökul

Nemendur úr Menntaskólanum við Sund (MS) og Fjölbrautaskólanum við Ármúla (FÁ) heimsóttu nýverið Sólheimajökul í fylgd leiðsögumanns frá Asgard Beyond. Ferðin var liður í verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarf skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tileinkað alþjóðlegu ári jökla.

Þrátt fyrir að um 10% af Íslandi séu þakin jöklum eru fáir menntaskólanemendur á Íslandi sem þekkja eða hafa heimsótt jökla. Sem hluti af undirbúningi ferðarinnar hittu nemendurnir Hrafnhildi Hannesdóttir, fagstjóra jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, sem sagði nemendunum frá jöklum og jöklarannsóknum á Íslandi. Nemendurnir undirbjuggu einnig handrit og skipulögðu tökur til framleiða efni, myndbönd og ljósmyndir, með það að markmiði að vekja athygli á áhrif loftlagsbreytinga.

Við Sólheimajökul fengu nemendurnir jöklabúnað, brodda, belti, axir og hjálm, áður en þau gengu að jökulsporðinum. Jöklaleiðsögumaðurinn Róbert, sagði nemendunum frá hvernig jöklar verða til og af hverju þeir eru helst á suðaustur hluta landsins. Hann sagði þeim einnig frá þeim miklu breytingum sem orðið hafa á jöklum landsins vegna hlýnunar loftslags.

Verkefnið Draumur um jökul felur ekki aðeins í sér ferð á jökulinn heldur einnig skapandi miðlun. Þrátt fyrir skyn og skúrir á Sólheimajökli, þar sem rignir flesta daga ársins, þá tókst nemendahópnum að safna myndefni á jöklinum, tóku viðtöl við hvort annað en einnig jöklaleiðsögumanninn. Markmiðið er að deila þekkingu um jökla, vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga og hvetja fleiri til að heimsækja þessar einstöku náttúruperlur – áður en þær hverfa.

Verkefnið hlaut styrk úr Loftslagssjóði ungs fólks.

Model UN ráðstefna fyrir framhaldsskólanemendur

Ungt fólk leiðir loftslagsumræðuna í Model UN

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og UNESCO-skólinn Kvennaskólinn í Reykjavík hefja samstarfsverkefni þar sem framhaldsskólanemar fá tækifæri til að kynnast heimi alþjóðlegrar diplómasíu – og takast á við eina af stærstu áskorunum samtímans: loftslagsbreytingar.

Verkefnið byggir á aðferðafræði Model UN, þar sem nemendur setja sig í spor fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og ræða lausnir á loftslagsmálum út frá sjónarhorni samvinnu, réttlætis og sjálfbærni. Þannig öðlast þátttakendur innsýn í ákvarðanatökur á alþjóðavettvangi – og upplifa jafnframt hvernig rödd ungs fólks getur haft áhrif.

Hver getur tekið þátt?

Þátttakendur þurfa enga sérstaka reynslu og er þess einungis krafist að nemendur vilji læra meira um starfsemi Sameinuðu þjóðanna.

Viðburðurinn er opinn öllum framhaldsskólanemendum en nemendum í UNESCO-skólum er veittur forgangur.

Skráðu þig til þátttöku hérna: https://forms.office.com/e/ekNb2pjfCm

Af hverju ættir þú að taka þátt?

  • Skemmtilegt tækifæri: Þú færð að prófa þig áfram í ræðuhaldi, samningaviðræðum og samvinnu.
  • Skildu heiminn betur: Þú lærir hvernig Sameinuðu þjóðirnar starfa og hvernig ákvarðanir um stærstu mál samtímans eru teknar.
  • Vertu hluti af lausninni: Þú tekur þátt í að móta hugmyndir og lausnir sem skipta raunverulegu máli.
  • Byggðu tengslanet: Þú hittir jafnaldra úr öðrum skólum, myndar ný vinatengsl og kynnist fólki með svipuð áhugamál.
  • Einstök reynsla fyrir framtíðina: Þessi þátttaka styrkir þig sem borgara og framtíðarleiðtoga – og getur líka verið dýrmæt reynsla í námi og starfi.

Nemendur í Kvennaskólanum mynda sérstakan stýrihóp sem skipuleggur viðburðinn, en nemendum úr öðrum UNESCO-skólum um land allt er boðið að taka þátt. Verkefnið sameinar fræðslu, skapandi vinnu og valdeflingu og leggur áherslu á að gera ungt fólk að virkum þátttakendum og framtíðarleiðtogum í loftslagsumræðu.

Hægt er að kynna sér meira um Model UN hér: IceMUN | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Pétur Hjörvar, verkefnastjóra hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á petur@un.is eða í gegnum samfélagsmiðla félagsins: Facebook / Instagram

Verkefnið hlaut styrk frá Loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík.

Vel heppnað kennaranámskeið á Reykjanesi

Kennaranámskeið um heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar heppnaðist afar vel

13. ágúst s.l. hélt Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi námskeiðið Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: Heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar fyrir kennara og stjórnendur á öllum skólastigum. Námskeiðið fór fram í húsnæði Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og tóku þátt yfir 20 kennarar úr UNESCO-skólum á svæðinu.

Á námskeiðinu var lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem styðja við þekkingu og þátttöku nemenda í málefnum Sameinuðu þjóðanna, mannréttindum, friðarmenningu og sjálfbærri þróun. Þátttakendur fengu að prófa nýjar leiðir til að virkja nemendur og deila reynslu sinni sín á milli.

Kennarar námskeiðsins voru Eva Harðardóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá félaginu.

Þorvarður Atli Þórsson, stjórnarformaður í félagi SÞ bauð þátttakendum í hermilíkan SÞ – Model UN. Þátttakendur settu sig í spor fulltrúa fimm aðilarrríkja á vettvangi Mannréttindaráðs SÞ og gerðu, eftir samninga, erindi og almennt sterka diplómatíska takta, atlögu að ályktun um réttláta vernd flóttafólks.

Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með námskeiðið og sögðu það veita bæði hagnýtar hugmyndir til kennslu og innblástur í starfinu. Félagið hyggst halda áfram að þróa námskeiðið á komandi árum í nánu samtali við kennara.

Við hyggjumst halda fleiri námskeið á næstunni og verða þau auglýst innan UNESCO-skóla netsins og á samfélagsmiðlum.

Við þökkum þátttakendum fyrir þeirra framlag og SSS fyrir húsnæðið.

 

Spennandi námskeið fyrir kennara

Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: Heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar er námskeið fyrir kennara á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Námskeiðið er opið öllum en kennarar í UNESCO-skólum hljóta forgang, ef aðsókn er mikil.

Námskeiðið verður haldið föstudaginn 13. ágúst, á milli 13-16, í Laugarnesskóla.

Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, verður unnið með námsefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að styðja við þekkingu nemenda á starfsemi Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda, friðar og sjálfbærrar þróunar. Námskeiðið er haldið árlega og er í stöðugri þróun. Eftir athugasemdir frá seinustu námskeiðum verður áfram unnið með kennsluaðferðir sem byggja á virkri þátttöku nemenda.

Kennarar á námskeiðinu eru Eva Harðardóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og heimsmarkmiðanælu.

Námskeiðsgjald: 8.000 kr.

Skráðu þig hér –> https://forms.office.com/e/bhkw1DB5rA

Þú færð staðfestingarpóst með greiðslu upplýsingum. Greiðsla staðfestir skráningu.

Pétur Hjörvar, verkefnastjóri hjá Félagi Sþ, tekur glaður við fyrirspurnum á netfanginu petur@un.is eða í síma 846-5476.

UNESCO-skóla vinnustofa á Suðurnesjum

Þann 13. maí 2025 var haldin vinnustofa um UNESCO-skóla í samstarfi við Suðurnesjavettvanginn og Reykjanes Jarðvang. Markmið vinnustofunnar var efla samvinnu, þekkingu og sýn á UNESCO-skólastarf, með það leiðarljósi undirbúa skóla á Suðurnesjum fyrir umsóknarferli og þátttöku í skólanetinu.

Vinnustofan var haldin í tengslum við  metnaðarfullt verkefni þar sem Suðurnesjavettvangur ásamt Reykjanes Jarðvangi (UNESCO Global Geopark) vinna því styðja leik-, grunn- og framhaldsskóla á svæðinu í átt því verða formlegir aðilar UNESCO-skólanetinu. Síðastliðið haust skrifuðu fjöldi skóla á svæðinu á öllum skólastigum undir viljayfirlýsingu að sækja um þátttöku í verkefninu á næstu tveimur árum.

FSÞ / Pétur Hjörvar verkefnastjóri UNESCO-skólanetinu ávarpar þátttakendur vinnustofunnar.

Í opnunarerindi sínu lagði Vala, framkvæmdastjóri áherslu á mikilvægi þessarar þróunar og þann kraft sem býr í skólasamfélögum Suðurnesja. „Þetta samstarf sameinar fólk, samfélög og stofnanir í því markmiði efla menntun til hnattrænnar borgaravitundar og sjálfbærrar framtíðar,“ sagði hún og hvatti þátttakendur til nýta vinnustofuna til læra hvert af öðru, byggja tengsl og finna innblástur til frekari verkefna.

Dagskráin var fjölbreytt og hagnýt fyrir skólana en alls tóku 40 fulltrúar frá 17 skólum þátt í vinnustofunni. Fjallað var um lykilhugtök UNESCO-skóla, þar á meðal mannréttindi, sjálfbærni, inngildingu, borgaravitund og hnattræna ábyrgð. Þátttakendur tóku meðal annars þátt í  hópavinnu og umræðum um hvernig hugtökin birtast í þeirra skólastarfi. Einnig deildu fulltrúar frá Stóru-Vogaskóla, Fjölbrautarskóla Suðurneska og Stapaskóla reynslu sinni af verkefnum tengdum UNESCO. Þá var Stóru-Vogaskóla veitt formleg viðurkenning um aðild að skólaneti UNESCO, en skólinn er sá fyrsti á svæðinu til þess að fá inngöngu í skólanetið. Í dag eru því um 23 UNESCO-skólar á Íslandi en alls eru um 10.000 skólar á heimsvísu.

Í lok vinnustofunnar ríkti mikil bjartsýni og samhugur meðal þátttakenda. Þau skref sem eru stigin á Suðurnesjum fela í sér raunverulega framtíðarsýn – skapa skólasamfélög sem byggja á virðingu, fjölbreytileika og alþjóðlegri samábyrgð.

FSÞ / Guðrún Kristín Ragnarsdóttir tók við viðurkenningu UNESCO fyrir hönd Stóru-Vogaskóla.

Fleiri myndir frá deginum:

  

Heimsins stærsta kennslustund í Laugarnesskóla

Þann 25. apríl síðastliðinn fór Heimsins stærsta kennslustund fram í Laugarnesskóla við góðar undirtektir. Um það bil 100 börn úr 6. bekk tóku þátt í viðburðinum sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóð fyrir í samstarfi við skólann og barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Heimsins Stærsta kennslustund (Worlds Largest Lesson) er samstarfsverkefni UNESCO og UNICEF og miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auka vitund barna og ungmenna um alþjóðamál og sjálfbæra þróun,  og hvetja þau til aðgerða. Verkefnið er framkvæmt á vegum UNESCO-skóla hér á landi, undir umsjón Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Aldís Ögmundsdóttir og Baldur Ari Hjörvarsson, fulltrúar barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða

Fulltrúar barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða, Aldís Ögmundsdóttir og Baldur Ari Hjörvarsson, komu í heimsókn og leiddu líflegar umræður við nemendur um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra. Við viljum færa þeim sérstakar þakkir, ásamt kennurunum í Laugarnesskóla fyrir frábært samstarf: Rúnu Björgu, Bryndísi Ósk, Dagnýju Björk, Ingu Rut og Guðrúnu Þorkelsdóttur, sem leiddu nemendur sína í gegnum viðburðinn af mikilli fagmennsku og áhuga.

Aldís Ögmundsdóttir, Baldur Ari Hjörvarsson og Pétur Hjörvar, verkefnastjóri kynningar og fræðslu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Viðburðurinn markaði mikilvægt skref í að tengja heimsmarkmiðin við daglegt líf nemenda, vekja þau til umhugsunar um sameiginlega framtíð og styrkja rödd barna í umræðum um sjálfbærni og mannréttindi á heimsvísu.

 

Málþing UNESCO um menningar – og listmenntun

Málþing UNESCO um menningar – og listmenntun er haldin fimmtudaginn 23. janúar 2025 í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 13.00 -16.00

Aðalfyrirlesari er Ron Davies Alvarez, stjórnandi The Dream Orchestra sem byggir á El Sistema aðferðafræðinni.
Viðburðurinn er haldinn af íslensku UNESCO-nefndinni í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, listkennsludeild Listaháskóla Íslands og List fyrir alla.
Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri fræðslu og kynningar verður með erindi um gott starf UNESCO-skóla í menningar- og listmenntun fyrir frið og sjálfbærni.

Dagskrá

13.00 – Opnunarávarp
Logi Már Einarsson, menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra
13.10 – Af hverju listkennsla?
Maríanna Eva Dúfa Sævarsdóttir meistaranemi í listkennsludeild Listaháskóla Íslands
13.20 – Kynning á nýjum ramma UNESCO um menningar- og listmenntun
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti, aðalritari Íslensku UNESCO-nefndarinnar og Guðni Olgeirsson, mennta- og barnamálaráðuneyti, menntafulltrúi í íslensku UNESCO- nefndinni
13:35 – Global Framework to Strengthen Culture and Arts Education
ADG Ernesto Ottone, aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO á sviði menningarmála
13.45 – Music as a Tool for Social Transformation and Inclusive Education
Aðalfyrirlesari Ron Davis Alvarez, hljómsveitarstjóri og tónlistarkennari sem starfar í Svíþjóð og rekur The Dream Orchestra sem byggir á El Sistema aðferðafræðinni.
14.20 – Léttar veitingar í hléi
14.50 Erindi um listmenntun
Fulltrúi Kennarasambands Íslands
15.00 Listalestin
Kristín Valsdóttir, dósent listkennsludeild LHÍ, Vigdís Gunnarsdóttir, lektor listkennsludeild LHÍ og Elfa Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri List fyrir alla
15.20 UNESCO-skólar: Menntun, sjálfbærni og friður Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna
15.30 Lokaorð
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs
Háskóla Íslands
15.40 Taktur og tengsl í Conakry
Nemendur og kennarar í LHÍ segja frá nýafstaðinni heimsókn sinni til Guineu. Sandra Sano Erlingsdóttir og nemendur

Alþjóðamannréttindadagurinn 2024 – Mannréttindakennsla í FÁ – Viðtal

Samband menntunnar og mannréttinda er nánara en margan grunar. Flest eru meðvituð um réttinn til menntunnar, þ.e. að aðgangur að menntun sé mannréttindi, en færri vita að mannréttindi þeirra hafa töluverð áhrif á nám og námsaðsæður þeirra. Skólar spila þannig mikilvægt hlutverk í því að gera réttindi nemenda sinna að raunveruleika með því að skapa umhverfi og innleiða starfshætti sem gera öllum kleift að blómstra í námi, óháð bakgrunni. T.a.m. stendur í Mannréttindayfirlýsingu Sameinðuðu þjóðanna:

„Allir hafa rétt til menntunar… Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.“

Innihald námsins er líka undir og kemur það ágætlega fram í 29. Grein Barnasáttmálans:

„…menntun barns skuli beinast að því að: Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess… Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða…

Þó eru ein réttindi sem oft gleymist að vinna að, en það eru réttindin til þess að læra um mannréttindi. Svokölluð mannréttindamenntun, en hugmyndin er í stuttu máli sú að án almennrar þekkingar á mannréttindum geti enginn staðið vörð um réttindi sín né annara. Þetta er kjarnað ágætlega í auðlesinni útgáfu af Barnasáttmálanum: Allir verða að þekkja réttindi barna. Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna. Mannréttindayfirlýsingin gerir sambærilegar kröfur. Mannréttindamenntun er því alger grundvöllur þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum, og að sáttmalarnir geti þjónað sínu hlutverki.

Fjölbraut við Ármúla hefur um árabil boðið nemendum sínum upp á sérstakan mannréttindaáfanga. Pétur Hjörvar, Verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hitti þær Dana Zaher El Deen, Weroniku Zarzycka og Bryndísi Valsdóttur til þess að kynna sér áfangan. Þær sitja í Kósýstofunni, afar afslappaðri kennslustofu á annari hæð skólans, sem við fáum lánaða næstu þrjú korterin. Þar hittast þær ásamt hópi nemenda þrisvar í viku, en Bryndís kennir áfangann og Dana og Weronika nema hann. Áfanginn er áhugaverður og rímar vel við áherslur UNESCO-skóla því nemendur læra ekki bara í kennslustofunni, heldur sinna þeir 20 tímum af sjálfboðavinnu fyrir góðgerðarfélög. Í UNESCO-skólunum fer margt einstakt fram og Félagi Sþ langar að miðla þessu góða starfi meðal áhugsamra. Bryndís tók vel í viðtalsbeiðnina og stakk upp á að Dana og Weronika yrðu með. Það reyndist mikill fengur, enda sjónarhóll þeirra allt annars en kennarans.

Weronika er á öðru ári í FÁ og valdi mannréttindaáfangann því henni fannst hann hljóma áhugaverður:

„Ég vissi ekki alvg hvað ég myndi læra í honum en mér fannst hann spennandi … Ég er sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp. Ég hjálpa til við skipulag, við að þrífa og fleira … Ég hef leitað til þeirra þegar ég vildi fá mér kisu og ég hef bara mikinn áhuga á dýrum.“

Dana er sömuleiðis á öðru ári í FÁ. Dana valdi mannréttindaáfangann því hún vildi læra um mannréttindi og hvernig samtök vinna að því að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.

 

„Ég er sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og er þar að vinna með ungu fólki. Ég vildi gera það því þegar ég kom til Íslands tók ég þátt í þessu sama starfi, ekki sem sjálfboðaliði eins og núna, heldur bara til þess að skemmta mér. Ég valdi þetta verkefni því ég hef áhuga á verkefnum sem færa ungu fólki skemmtun og jákvæðar upplifanir.“

Bryndís Valsdóttir er búin að kenna við FÁ í 22 ár. Geri aðrir betur. Hún hefur lengst af kennt siðfræði og heimspeki og er annt um um að nemendur sínir læri þau fög til gagns, enda hefur hún brennandi áhuga og trú nytsemi þekkingarinnar.

Svo erum við einhverntíman að spjalla (um kennsluna), ég og Margrét (Súsanna Margrét Gestsdóttir) samkennari minn, sögukennari og sko þetta tengist allt þessi réttindaumræða og siðferði.

 

Í heimspekinni hafa verið vangaveltur um það alla tíð hvaðan mannréttindi koma. Heimspekilegi vinkillinn er: Hvað eru mannréttindi? Er þetta náttúruréttur, svona eins og forn-grikkirnir hugsuðu, við erum öll bræður og systur og börn guðs og erum öll jöfn, eða er þetta samfélagssáttmáli og á hverju byggir svona samfélagssáttmáli? Það hljóta að vera umræður um verðmæti og gildi? Og allt er þetta kjarni í siðfræði. Hvernig við breytum byggir á hvað við teljum vera rétt og rangt sem verður síðan forsendan fyrir mannréttindum. Þau eru skrifuð til til þess að standa vörð um ákveðin gildi.“

Bryndís hefur notað fjölda verkfæra í kennslunni, m.a. hlutverkaleik Rauða Krossins: Á flótta, heimsóknir frá Amnesty og öðrum samtökum, heimildamyndir, spil og fleira  „Þetta er auðvitað málið. Að vera ekki alltaf inni í þessu boxi að troða einhverjum fróðleik, eða þannig, ekki að við notum þær aðferðir! En þannig lagað, hvort það séu ekki forsendur fyrir því að upplifa á eigin skinni. Bara að fara út í samfélagið! Af fjórum kennslustundum í viku, þá fellur ein niður. Nemendur klára þannig 20 klukkutíma af sjálfboðaliðavinnu“

Spurð hvort hún hafi lært eitthvað í áfanganum, svarar Weronika: „Ég held að þetta hafi hjálpað mér að vera bara með meiri svona … góðvild, og ég þarf ekki alltaf að gera eitthvað fyrir pening, þú veist ég er bara að gefa af því ég vil það“. Bryndís bætir við að þau séu að hefja nægjusaman nóvember og ætli að kafa á dýptina í neysluhyggju og þar verði Heimsmarkmið 12, ábyrg neysla, haft í fyrirrúmi.

„Ég sé fyrir mér þessa tengingu við UNESCO-skólann – ég er ekki bara að kenna mannréttindi, og umhverfismálin eru mér ofarlega í huga, þannig allt þetta tengist. Ég er alltaf að reyna að þjálfa nemendur í að sjá að allt þetta tengist, hegðun okkar á vesturlöndum, hugsanlega bitnar á umhverfi og mannréttindum fólks annarsstaðar í heiminum. Þessar tengingar, bæði við UNESCO og Heimsmarkmiðin er mjög auðvelt að sjá.“ Segir Bryndís.

Nemendur fylgja þeim ramma í sjálfboðaliðastörfum sínum að þau þurfa að vinna með góðgerðarsamtökum eða að málefni sem tengist á einn eða annan hátt mannréttindum og Bryndís leiðbeinir þeim og miðlar til þeirra tækifærum. Nemendur taka að sér fjölbreytt verkefni en algengt er að nemendur sæki í fatabúðir Rauða Krossins og manni þar vaktir. „Aðstoð við heimanám, það eru t.d. tveir sem eru sjálfboðaliðar hérna í skólanum. Við erum með stærstu deild fjölfatlaðra á landinu …“ Aldurstakmörk og skuldbinding til lengri tíma eru þrándur í götu nemenda Bryndísar en algengt er að sjálfboðaliðar þurfi að skuldbinda sig í hálft ár og verða orðnir 23 ára. Það kemur þó ekki að sök og hafa nemendur alltaf fundið eitthvað við hæfi, sumir jafnvel skuldbundið sig í hálft ár, og unnið langt yfir þær tuttugu klukkustundir sem námskeiðið krefst.

Í lok viðtals eru Dana og Wiktoria spurðar hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart þegar þau voru að læra um réttindi sín og mannréttindi almennt og þá kom ýmislegt í ljós.

„Ég vissi ekki að mannréttindi og umhverfsmál væru svona tengd. Ég vissi að það sem við kaupum og svona hefur áhrif á umhverfið, en ég vissi ekki að mannréttindi spili inn í það“

segir Wiktoria. Þetta er eitt af mörgum skiptum í viðtalinu sem hún lýsir því hvernig nemendurnir glíma við og læra um helstu áskorannir nútímans. Þetta eru ekki einföld mál og ekki annað hægt en að hrósa Wiktoriu og Dönu fyrir því hversu vel þær tjá sig og tengja þessar stóru hugmyndir við eigið líf.

Í lokin ítrekar Bryndís hversu mikilvægt er að allir skilji hvernig mannréttindi virka. Réttindi verða alltaf að vera gagnvart einhverjum. Ef einhver á réttindi, þá ber einhver skyldu. Þetta er ekki sjálfgefin þekking, hvað þá fyrir börn og ungmenni og því mikilvægt að regluleg og markviss mannréttindafræðsla standi öllum til boða. Raunar er það svo að mannréttindafræðsla býr til verkfæri sem gerir fólki kleift að standa vörð um eigin réttindi, velferð og vellíðan, fjölskydu sína, samfélagið og þau gildi sem leiða til friðar og betra samfélags.

 

25. Nóvember Alþjóðlegur dagur gegn kynbundnu ofbeldi – Samstarf UNESCO-skóla

Þann 25. Nóvember næstkomandi er Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi grasserar þegar enginn talar um það og þótt mörg hafi unnið gott starf, er töluvert langt á land.

Fjölmargir UNESCO-skólar halda uppi metnaðarfullu kynjafræðinámi fyrir nemendur sína og er mikilvægur liður í náminu að læra um kynbundið ofbeldi. Í raun svo mikilvægur að fjöldi nemenda hefur mikið um það að segja!

Félag Sameinuðu þjóðanna og Félag kynjafræðikennara tóku saman höndum í tilefni dagsins. Við hvetjum (og styðjum) skóla til þess að skoða hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar í samfélaginu. Með þessu samstarfi leggjum við Heimsmarkmiði 5 lið og könnum um leið hvernig UNESCO-skólar geta unnið saman að Alþjóðadögum.

–> https://stoppofbeldi.namsefni.is/framhaldsskoli/vefefni/ <– 

Skólum er bent á að nýta sér það góða efni sem má finna á Stoppofbeldi. Efnið er praktískt og styður við heildrænt sem og stakar kennslustundir um kynbundið ofeldi. Það er tilvalið fyrir daginn! Og reyndar alla aðra daga! Auk þes settum við saman nokkur ‘stafræn veggspjöld’ Veggspjöldin geta farið á samfélagsmiðla, upplýsingaskjái, innri vefi og fleiri staði. Barnaheill heldur líka uppi gagnvirkum vef fyrir unglinga og væri ráð að senda hlekk á vefinn beint á nemendur á unglingastigi grunnskóla og framhaldsskólanemendur.

—> https://barnaheill.is/kynheilbrigdi/ <—

En hvað er það sem Framhaldsskólanemendur höfðu að segja um kynjafræði og kynbundið ofbeldi? Margt og mikið, en við tókum saman fimm tilvitnanir nemenda sem undirstrika mikilvægi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum sem afl gegn kynbundnu ofbeldi, og settum upp sem veggspjöld. Það má varpa þem á upplýsingaskjái, setja á samfélagfsmiðla, deila með nemendum og aðstandendum eða vinna með þau á annan hátt.

Náðu í veggspjöldin hér –>  https://we.tl/t-lh3oFKtfcG

Veggspjöldin eru hugsuð sem hugvekja og þægileg leið til þess að minna á eða hefja samtalið um ofbeldisforvarnir, en við hvetjum kennara og nemendur til þess að fræðast, og hugsa hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar.