Alþjóða útvarpsdagurinn

13.febrúar 2021. Útvarpið er enn þann dag í dag einn þeirra fjömiðla sem hefur hvað mesta útbreiðslu.

13.febrúar fagnar UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, og við öll Alþjóða útvarpsdeginum. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 2011 og við fögnum deginum því í 10. skipti nú í ár. Dagurinn var valinn í ljósi þess að þann 13. febrúar 1946 hófu Sameinuðu þjóðirnar starfrækslu útvarps. Fyrsta útvarpsútsending Sameinuðu þjóðanna um heimsbyggðina hófst með þessum orðum:  „Þetta eru hinar Sameinuðu þjóðir sem kalla til íbúa heimsins“. Enn er sent út en starfsemin hefur breyst og er UN Radio nú fyrst og fremst efnisveita fyrir starfandi útvarpsstöðvar og dreifir efni sínu meðal annars um netið.

Útvarpið er öflugur miðill til að fagna mannkyninu í allri sinni fjölbreytni og er mikilvægur vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Enginn annar miðill nær jafn vel til fólks, hvar sem það er statt. Útvarpið gefur öllum tækifæri til að taka þátt í opinberri umræðu óháð lestrarkunnáttu, kyni, aldri eða félagslegri stöðu. Það kostar lítið að eiga útvarp og það gegnir mikilvægu hlutverki í boðmiðlun þegar neyðarástand ríkir. Sá einstaki kostur útvarpsins að ná til þessa víðtæka áhorfendahóps þýðir að sama skapi að útvarpið hefur tækifæri til að móta upplifun samfélagsins af fjölbreytileika, verið vettvangur fyrir raddir ólíkra hópa, til að á þá sé hlustað. Útvarpsstöðvar ættu að þjóna fjölbreyttum samfélögum og bjóða upp á fjölbreytt úrval dagskrár, sjónarmiða og efnis. Þær ættu að endurspegla fjölbreytni hlustenda í öllum sínum rekstri.

Í tilefni Alþjóða útvarpsdagsins 2021 hvetur UNESCO útvarpsstöðvar til að fagna 10 ára afmæli hans og yfir 110 árum af útvarpi.

Á alþjóðlega útvarpsdeginum er sjónum að þessu sinni beint að þremur meginþemum:

  • ÞRÓUN. Heimurinn breytist, útvarpið þróast.
    Þetta þema vísar til seiglu útvarpsins og sjálfbærni þess;
  • NÝSKÖPUN. Heimurinn breytist, útvarpið aðlagast.
    Útvarpið hefur þurft að laga sig að nýrri tækni til að halda sér í sessi sem helsti miðill upplýsinga, aðgengilegur öllum alls staðar;
  • TENGSL. Heimurinn breytist, útvarpið tengir.
    Þetta þema varpar ljósi á mikilvægi þjónustu útvarpsins fyrir samfélag okkar allra – t.d. þegar kemur að náttúruhamförum, félags-efnahagslegum kreppum, farsóttum o.s.frv.

Karneval der Kulturen – litið við á hátíð Berlínarbúa til handa menningarlegri fjölbreytni

Þessar konur hlutu viðurkenningu fyrir
„fallegasta handverksbásinn“ í ár

Í tilefni alþjóðadags menningarlegrar fjölbreytni þann 21. maí síðastliðinn fór undirrituð á hátíð í höfuðborg Þýskalands þar sem fjölmenningunni var fagnað. Karneval der Kulturen eða Karnival menninganna er haldin ár hvert og hittist einfaldlega þannig á þetta árið að dagskrá hátíðarinnar lauk á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna fyrir menningarlegum fjölbreytileika en dagurinn var ekki kunngerður fyrr en árið 2013, 17 árum eftir að skipulögð dagskrá hátíðarinnar leit ljós.

Upphaf og uppruni hátíðarinnar

Árið 1995 kom fram hugmyndin um að halda Karnival í Berlínarhverfinu Kreuzberg og það til að fagna fjölmenningunni sem þar var til staðar og sýna fram á að menningarlega margbreytilegt samfélag sé sterkara samfélag. Frá árinu 1996 hefur hátíðin verið skipulögð og haldin árlega á hvítasunnuhelginni en hún samanstendur af götuhátíð þar sem matur, handverk, ýmiss annar varningur og uppákomur eru á boðstólum, tónlistaratriðum og dansi á sviði og síðast en ekki síst skrúðgöngu sem er, venju samkvæmt, rúsínan í pylsuendanum.

Hugmyndin kom frá hópi fólks í Berlín sem vildi rísa upp gegn nýnasistum og útlendingahatri þeirra en nýnasistar gerðu, í ágúst árið 1992, árás á húsnæði hæslisleitenda í borginni Rostock sem er í nágrannahéraði Berlínar. Í kringum 2000 öfgahægrisinnaðir einstaklingar höfðu komið víðsvegar af landinu og stofnuðu lífi um það bil 120 hælisleitenda í hættu þá tvo daga sem árásin stóð yfir en hælisleitendurnir komust allir, með ótrúlegum hætti, lífs af.

Hópurinn í Berlín ákvað að gera eitthvað til þess að sýna fram á jákvæðan mátt menningarlegrar fjölbreytni og auka vitundarvakningu til þess að berjast gegn útlendingahatrinu.  Vildu þau sýna með táknrænum hætti hversu ríkt samfélag þeirra var vegna þeirrar menningarlegu fjölbreytni sem það bjó og býr enn yfir.

Menningarleg fjölbreytni

Bengalskt menningarfélag í skrúðgöngunni

Flest þau sem koma fram á hátíðinni eru Berlínarbúar og sýnir þannig hátíðin alþjóðlegan og fjölbreyttan svip borgarinnar. Um er að ræða mjög fjölbreytilegan hóp, allt frá litlum hópum til stærri og sýnilegri, þvert á heimsálfur og landamæri og hafa því margir þeir menningarlegu minnihlutahópar nokkurskonar málsvara á hátíðinni þó þar vanti auðvitað upp á. Hefur fólk þá einnig tækifæri á að fá eilitla innsýn í menningarheima sem það ekki þekkir en frítt er inn á hátíðina og fer hún, að langmestu leyti, fram utandyra undir berum himni.

Hátíðin stækkaði ört strax í upphafi en á fyrstu hátíðinni voru saman komin um fimmtíu þúsund manns en er skrúðgangan talin hafa vakið það mikla athygli og aðdáun að árið eftir mættu um 340 þúsund manns. Árið 2000 fór manntalan yfir milljón og 2004 komu 1,8 milljón gestir en síðan þá er talið að hvert ár komi á hátíðina í kringum 1,3 milljón manns.  Hátíðin Karneval der Kulturen eða Karnival menninganna er því orðin aðeins stærri í sniðum en hún upprunalega var. Orðið fer víða og breytist stemningin á hátíðinni samtímis en hún hefur undanfarin ár hlotið gagnrýni fyrir einmitt það.

Auknar vinsældir og aðrar áherslur?

Risi frá Venesúela sem faðmaði
áhorfendur skrúðgöngunnar

Enn er flest sú skipulagða dagskrá sem á sér stað vönduð og vel að henni staðið en mikið af því fólki sem kemur til að sækja hátíðina heim í dag kemur jafnvel frá fjarlægum löndum og oft ekki í öðrum tilgangi en að „skemmta sér“. Mikið er um áfengisneyslu og eitthvað um neyslu annarra vímuefna. Blaðamaður Berlínarblaðsins Der Tagesspiegel gekk svo langt í pistli frá Karnivalhelginni árið 2013 að segja að á hátíðinni sé það ekki lengur menningu sem sé fagnað heldur ómenningu. Ferðamenn komi í þeim tilgangi að skemmta  sér vegna þess orðs sem farið hafi af hátíðinni. Að auki sé nú að finna atriði í skrúðgöngunni sem virðast hafa lítið menningarlegt gildi eða umburðarlyndi vegna áfengisdrykkju þátttakenda. Skrúðgangan, sem ávalt er á hvítasunnudegi, hófst þetta árið klukkan hálf eitt á hádegi og lauk klukkan níu að kvöldi til og var stór hluti áhorfenda orðinn sterklega undir áhrifum áfengis þegar ekki var langt liðið á eftirmiðdaginn.

Þrátt fyrir þetta eru flest atriði og framkoma á hátíðinni trú boðskapi hennar og því sem hún á að standa fyrir þar sem menningarlegu fjölbreytninni er fagnað í gleði, á friðsömum og pólitískum nótum á sómasamlegan máta gegn kynþátta -og útlendingahatri, fyrir réttlátara og betra samfélagi. Gagnrýni sem fram hefur komið úr ýmsum áttum hefur þó rétt á sér þar sem fjölmargir gesta hátíðarinnar, auk einstaka þátttakenda, virðast hafa gleymt því hvað hún á að standa fyrir sem sést á stemningunni, einkum þegar liðið er á daginn.

Málþing á hamingjudeginum um Heimsmarkmiðin og Heilsueflandi samfélag

Eliza Reid

„Veittu því athygli sem er jákvætt” sagði Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í einlægu ávarpi á málþingi um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Heilsueflandi samfélagi þar sem hún deildi sinni sýn á hamingjunni.

Málþingið var haldið 20. mars sl. í tilefni alþjóðlega hamingjudagins og kynnti Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félag Sameinuðu þjóðanna, störf félagins en það leggur áherslu á margvísleg verkefni til aukinnar almannavitundar, fræðslu- og samfélagsumræðu um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.

„Ábyrgðin er ekki einungis á höndum stjórnvalda heldur berum við líka ábyrgð sem einstaklingar á Heimsmarkmiðunum og í dag eru þið að taka þetta skref í þágu Heimsmarkmiðanna” sagði Vera áður en hún taldi upp ýmis atriði sem ber að hafa í huga þegar kemur að sjálfbærni til að mynda að draga úr matarsóun, flokkun plasts, val á vistvænum ferðamáta, mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn og taka þannig þátt í stefnumótun samfélagins. „Ég trúi því að með því að uppfylla heimsmarkmiðin þá verða lífsgæði okkar allra mun betri en þau eru í dag, kjarni þeirra er nefnilega að búa til samfélag þar sem allir fá að njóta sín og nýta hæfileika sína, samfélag sem ber virðingu fyrir náttúrunni svo við fáum að njóta fegurðarinnar og þeirra afurða sem hún hefur að gefa. Ég tel að í raun eru Heimsmarkmiðin uppskriftin að hamingjunni” bætti Vera við.

Megin áhersla málþingins var hvernig ríkið og sveitarfélög geta unnið markvisst að Heimsmarkmiðunum en Ásta Bjarnadóttir, frá verkefnisstjórn Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin, kynnti vinnu stjórnvalda og hvernig þau tengja sína starfsemi við Heimsmarkmiðin. Helsta hlutverk verkefnastjórnarinnar er að greina, innleiða og kynna markmiðin. Þau hafa nú þegar tekið stöðu á öllum undirmarkmiðunum og mun stöðuskýrsla sem inniheldur niðurstöður þeirrar vinnu verða birt fljótlega ásamt tillögum að forgangsmarkmiðum. Stór hluti af vinnunni er alþjóðasamstarf en Ísland mun kynna sína vinnu að Heimsmarkmiðunum á næsta ári á árlegi ráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

„Alþjóðlegar stefnumótanir ásamt Heimsmarkmiðunum geta verið frábær, en þegar uppi er staðið skiptir það mestu máli hvað er að gerast í daglega lífi fólks“ sagði Dr. Kai Ruggeri, lektor við Columbia University Mailman School of Public Health og yfirmaður stefnumótandi rannsókna við University of Cambridge. Í rannsóknum sínum hefur hann fjallað um hversu mikilvæg vellíðan er í stefnumótun ásamt áhrifum markmiðasetningu á komandi áhrif og framfarir. Dr. Ruggeri hefur mikið skoðað hvaða mælikvarða er hægt að nota við mælingu á vellíðan einstaklinga. Áður fyrr var talið að verg þjóðarframleiðsla og vellíðan haldist í hendur en önnur var raunin. Hann lagði áherslu á að skoða hvað aukin vellíðan gefur okkur í stað þess að einblína einungis á hvaða þættir hafa áhrif á vellíðan. Líður okkur betur ef við stöndum okkur betur í vinnu eða námi eða gerir aukin vellíðan það að verkum að við stöndum okkur vel?

Embætti landlæknis ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Birgir Jakobsson, landlæknir, fjallaði um Heilsueflandi samfélag (HSAM) og lærdóm þess verkefnis sem landlæknir. Birgir vitnaði í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina þegar hann minnti á að heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku. Embætti landlæknis leggur ýmislegt til við vinnu Heilsueflandi samfélaga til dæmis ráðgjöf, stuðning, fræðslusefni ásamt því að standa fyrir vinnustofum og námskeiðum. Þá gefur embættið gefur út lýðheilsuvísi eftir heilbrigiðsumdæmum til þess að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu svæðis, finna styrkleika og veikleika hvers svæðis og skilja þannig betur þarfir íbúa. Birgir sagði mikilvægt að átta sig á að ávinningur Heilsueflandi samfélags væri bæði fyrir almenning og þá sem stýra sveitarfélögunum. Í dag er um 75% landsmanna hluti af HSAM og er hlutverk embættisins að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun HÍ, kynnti niðurstöður rannsókna Embættis landlæknis um hamingju og vellíðan í íslenskum sveitarfélögum. Dóra gerði grein fyrir því hvernig þau gátu greint niðurstöður á sveitarfélög og munu heilsueflandi sveitarfélög geta fengið upplýsingar m.a. um stöðu hamingju og vellíðan í þeirra samfélagi á heilsueflandi.is. Þegar skoðuð voru tengsl milli hamingju unglinga og hagvaxtar kom í ljós að þegar hagvöxtur minnkaði þá fór hamingja unglinga upp. Þetta munstur má finna á öllum Norðurlöndum nema í Finnlandi en ekki er einfalt svar við þeim niðurstöðum. Þá leiddu niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að tekjur skýra minna en 1% af hamingju íslendinga.

„Þetta er lykilatriði, við verðum að hætta að horfa á geðheilsu sem heilbrigðisvandamál og horfa í stað þess á þetta sem samfélagsáskorun” sagði Dr. Fredrik Lindencrona sem kemur frá Sambandi sænskra sveitarfélaga þar sem hann er yfirmaður stefnumótandi umbóta og alþjóðlegs samstarfs í geðheilbrigðismálum. Dr. Fredrik greindi frá leiðum sem sænsk sveitarfélög hafa farið til þess að ná Heimsmarkmiði 3.4 og lagði áherslu á samvinnu allra, frá stjórnendum til stjórnmálamanna. „Auðvelt er að sjá hver kostnaðurinn er en erfiðara er að sjá hverjar tekjurnar verða“ sagði Dr. Fredrik og lýsti því hvernig Svíar hafa búið til kerfi til að meta fjárfestingar í félagslegum þáttum eins og geðheilsu.

Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið til að taka þátt með Embætti Landlækni í Heilsueflandi samfélagi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði frá þeim fjölmörgu verkefnum sem borgin hefur hrint í framkvæmt og eru til að mynda allir leik- og grunnskólar í Reykjavík hluti af Heilsueflandi samfélagi. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig lagt áherslu á Heilsueflinu eldri borgara með því að bjóða eldri borgurum frítt í sund, aðgengi að hreyfingu og 17 félagsheimilum. Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttadeildar hjá Akureyrarbæ, lýsti því vel hvernig Akureyrarbær mátaði Heimsmarkmiðin við það sem hefur verið gert, er verið að gera og það sem þau vilja gera. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kynnti fyrir hönd stýrihóps Hafnafjarðar þau 3 Heimsmarkmið sem bærinn vinnur að. Hún tók þó fram að þetta sé langhlaup, en ekki spretthlaup því góðir hlutir gerast hægt.

Björg Magnúsdóttir stýrir umræðum í lok málþings

Í lok málþingsins stýrði Björg Magnúsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, pallborðsumræðum þar sem ræðumenn málþingsins sátu í pallborði. Ýmist var rætt um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag og voru allir panelgestir sammála um að ekki sé hægt að einblína á eitt Heimsmarkmið fremur en annað þar sem mikilvægt er að líta á þau sem eina heild. Þá sköpuðust einlægar umræður á meðal panelgesta þar sem þau deildu hvað þau gera sem einstaklingar til þess að vera hamingjusöm.

Fundarstjóri var Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu hér.