Fjölbrautaskóli Suðurnesja fjórði UNESCO-skólinn á Suðurnesjum

Mynd / FS Guðmann Kristþórsson

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fagnar því að Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) hafi formlega hlotið viðurkenningu sem UNESCO-skóli stuttu fyrir jól. Þetta eru tímamót fyrir skólann og mikilvægt framfaraskref í því að efla menntun í anda sjálfbærni, mannréttinda og alþjóðlegrar samvinnu.

Við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi erum sérstaklega stolt af þeirri öflugu vinnu sem á sér nú stað á Suðurnesjum, þar sem allir skólar á Reykjanesi eru nú í umsóknarferli um að verða UNESCO-skólar. Verkefnið er hluti af stærra samstarfi sem miðar að því að styðja við leik-, grunn- og framhaldsskóla á Suðurnesjum til að taka þátt í UNESCO-skólanetinu og styrkja þannig alþjóðlegt sjónarhorn í skólastarfi.

Umsóknarferlið hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja var unnið í nánu samstarfi við Suðurnesjavettvang og Reykjanes Jarðvang, sem hafa hrint af stað þessu metnaðarfulla verkefni í samvinnu við Félag SÞ sem sér um UNESCO-skólaverkefnið á Íslandi.

FS bætist í hóp Stóru-Vogaskóla, Háaleitisskóla og Leikskólans Gimli, sem nú þegar eru orðnir UNESCO Skólar.

Heimsókn og gjafir í tilefni tímamótanna

Í tilefni þessara tímamóta heimsótti Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes Jarðvangi og GeoCamp Iceland, skólann og afhenti meðal annars bækur og fræðsluefni frá Reykjanes Geopark, sem skólinn mun nýta í starfi sínu.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi óskar Fjölbrautaskóla Suðurnesja innilega til hamingju og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við skólasamfélagið á Suðurnesjum í þessu mikilvæga verkefni.

Mynd / FS Guðmann Kristþórsson

 

Fréttin er unnin upp úr frétt sem birtist á vefsíðu Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Mannréttindi í mótvindi: Ábyrgð og áhrif Íslands á alþjóðavettvangi

Á alþjóðlegum degi mannréttinda, 10. desember, mun Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í samstarfi við utanríkisráðuneyti standa fyrir morgunmálstofu til að ræða stöðu mannréttinda í heiminum og ábyrgð Íslands til að standa vörð um þau á alþjóðavettvangi. Málstofan verður haldin í Norræna húsinu, miðvikudaginn 10. desember, 9:00-10:15. 
Hvernig má vernda mannréttindi og efla samstöðu á tímum þar sem grafið er undan mannréttindum? Hvernig getur Ísland verið öflugur málsvari mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi? Á tímum þar sem mannréttindi og friður standa höllum fæti er mikilvægt að afstaða Íslands sé skýr um að varanlegur friður geti ekki ríkt án virðingar fyrir mannréttindum. Sem smáríki og herlaus þjóð skiptir það miklu máli fyrir Ísland að alþjóðalög séu virt og að grundvallarréttindi allra séu tryggð.
Ísland hefur um áratuga skeið unnið að því að efla mannréttindi, frið og öryggi í alþjóðlegu samstarfi. Í því starfi hefur sérstök áhersla verið lögð á jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna, réttindi barna og ungmenna, vernd hinsegin fólks og að styrkja lýðræði, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Í málstofunni verður fjallað um þessi áhersluatriði og gildi mannréttinda fyrir þróun, frið og öryggi í heiminum og hvernig Ísland getur haft áhrif langt umfram stærð í þessum mikilvæga málaflokki.

Opnunarávarp: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra
Pallborðsumræður: Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Bylgja Árnadóttir, yfirmaður mannréttindamála, utanríkisráðuneyti, Jóhannes Þór Skúlason, gjaldkeri Samtakanna 78, Jón Gunnar Ólafsson, lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Ísland.
Málstofustjóri: Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Boðið verður upp á léttar veitingar frá klukkan 08:45.
Viðburðurinn verður í streymi: https://vimeo.com/event/5557466

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögfestur á Íslandi

Alþingi samþykkti þann 12. nóvember 2025 frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Lögfestingin markar tímamót í íslenskri mannréttindavernd og styrkir réttarstöðu fatlaðs fólks með skýrum og beinum lagalegum hætti.

Samningurinn tryggir fötluðu fólki víðtæk mannréttindi, þar á meðal rétt til að lifa sjálfstæðu lífi, njóta fulls aðgengis, fá þjónustu án mismununar og taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 13. desember 2006.

Lengi hefur verið kallað eftir lögfestingu SRFF hér á landi en Ísland fullgilti samninginn árið 2013. Með stofnun Mannréttindastofnunar Íslands, sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, hefur nú verið uppfyllt eitt af lykilskilyrðum um eftirlit og innleiðingu samningsins. Lögfestingin byggir jafnframt á umfangsmikilli vinnu við landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem mótar fyrstu heildstæðu stefnu Íslands á þessu sviði.

Með lögfestingunni verður samningurinn fullgild réttarheimild sem dómstólar, stjórnsýsla og sveitarfélög geta vísað beint til. Réttindi fatlaðs fólks verða þannig skýrari í íslenskum lögum og innleiðing samningsins fær aukið vægi.

Lögfestingin er mikilvægur áfangi, en áfram stendur yfir vinna við að tryggja að framkvæmd og þjónusta endurspegli réttindi samningsins í daglegu lífi fatlaðs fólks.

Einnig má hér nálgast auðlesið efni um SRFF, sem gefið var út af Þroskahjálp.

Til hamingju Ísland! Áfram mannréttindi fyrir öll!

80 ára afmælisveisla Sameinuðu þjóðanna og Línu Langsokks í Norræna húsinu

Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við UNICEF og Norræna húsið mun halda uppá 80 ára afmælisveislu Sameinuðu þjóðanna og Línu Langsokks í Norræna húsinu, sunnudaginn 9. nóvember kl. 10–13.
Í boði verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fyrir börn á aldrinum 3–12 ára og fylgdarmenn þeirra, með sögustundum á íslensku og sænskuheimsmarkmiðabingói og föndri, auk þess sem hægt verður að skoða sýninguna um Línu, lýðræði og raddir barna á barnabókasafninu.
Dagskrá
10:15-10:45 | Sögustund um Línu á íslensku
10:45-11:15 | Heimsmarkmiðabingó
11:15-11:45 | Sögustund um Línu á sænsku
11:45-12:15 | Heimsmarkmiðabingó
12:15-12:45 | Sögustund um Línu á íslensku
10:00-13:00 | Föndursmiðja niðri á barnabókasafni
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Athugið að húsið verður opið eins og húsrúm leyfir.
Við hlökkum til að fagna með ykkur!

Fundur Félags Sameinuðu þjóðanna með Flóttamannastofnun SÞ og íslenskum félagasamtökum

Í morgun skipulagði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fund með Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (UN High Commissioner for Refugees), og Annika Sandlund, svæðisstjóra Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin.

Á fundinum komu saman fulltrúar íslenskra félagasamtaka og sérfræðingar sem starfa að málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Rætt var um stöðu mála á Íslandi, löggjöf og kerfisbundnar áskoranir, aðstæður viðkvæmra hópa, aðgengi að þjónustu og samþættingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag.

Filippo Grandi lagði áherslu á að grunnurinn að góðri löggjöf og árangursríkri aðlögun felist í opnu samtali og nánu samstarfi við félagasamtök og grasrótina. Hann undirstrikaði að stjórnvöld geti ekki tekist á við þessi verkefni ein, heldur þurfi að nýta þá þekkingu og reynslu sem býr meðal þeirra sem vinna daglega að málefnum flóttafólks og mannréttinda.

Grandi hefur gegnt embætti flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna síðan árið 2016, þegar hann tók við af António Guterres, núverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann lýkur störfum sínum nú um áramótin, en þetta var fyrsta heimsókn hans til Íslands, sem hann sagði hafa lengi verið á áætlun.

Fundurinn var hluti af opinberri Íslandsheimsókn Grandi, þar sem hann átti jafnframt fund með forsætisráðherra Íslands, utanríkisráðherra og forseta Íslands.

FSÞ / Níu félagasamtök tóku þátt á fundinum með Filippo Grandi.

Alþjóðlegt málþing um konur, frið og öryggi

Mánudaginn 10. nóvember, kl. 17:00-19:00 munu utanríkisráðuneytið, Íslandsdeild Norræns tengslanets kvenna í sáttamiðlun (Nordic Women Mediators Network), Jafnréttisskóli GRÓ og Alþjóðamálastofnun við Háskóla Íslands, UN Women Ísland og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að alþjóðlegu málþingi um konur, frið og öryggi. Málþingið fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands, í Aðalbyggingu og er haldið samhliða Heimsþingi kvenleiðtoga sem fram fer í Hörpu dagana 10.–12. nóvember.

Málþingið er haldið í tilefni 25 ára afmælis ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur frið og öryggi sem samþykkt var árið 2000. Ályktunin markaði tímamót með því að viðurkenna mikilvægi þátttöku kvenna í friðarferlum, vernd þeirra í átökum og samþættingu kynjasjónarmiða í öryggismálum. Því er ætlað að skapa vettvang fyrir alþjóðlegt samtal milli stjórnvalda, fræðasamfélagsins, alþjóðastofnana og grasrótar og staðfestir áframhaldandi forystu Íslands á sviði jafnréttis, friðar og mannréttinda, og sem málsvari ályktunar 1325 undanfarna tvo áratugi. Rúmlega helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hafa mótað landsáætlun til að framfylgja ályktun 1325 um konur, frið og öryggi. Ísland hefur mótað sína fjórðu landsáætlun og er málþingið liður í framfylgd hennar.

Á málþinginu munu leiðtogar frá átakasvæðum, alþjóðastofnunum, frjálsum félagsamtökum og fræðasamfélagi taka þátt í samræðum um ólíka reynslu af aðkomu kvenna að öryggismálum. Þær munu jafnframt ræða stöðu kvenna innan alþjóðakerfisins út frá ályktuninni sem og þær skuldbindingar sem stuðla að aukinni þátttöku kvenna í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn vopnuðum átökum, friðarferlum og friðaruppbyggingu að loknum átökum.

Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að smella á meðfylgjandi hlekk: 25 Years of Women, Peace and Security: Renewed commitments to gender responsive solutions

Góðfúslega mætið vel tímanlega því skrá þarf gesti inn í salinn þar sem málþingið fer fram. Viðburður hefst tímanlega kl. 17:00.

Dagskrá

17:00 – Opnunarávarp, Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ við Háskóla Íslands og þátttakandi í tengslaneti norrænna kvenna í sáttamiðlun (Nordic Women Mediators).

17:10 – Setningarræða, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands

17:20 – Pallborðsumræður um hlutverk og áhrif kvenna í öryggismálum og friðarferlum

Stjórnandi: Melanne Verveer, forstöðukona fræðaseturs um konur, frið og öryggi við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum.

Þátttakendur

Mariana Betsa, aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu

◦ Dr Isata Mahoi, ráðherra jafnréttismála og málefna barna í Síerra Leóne

◦ Sofia Calltorp, framkvæmdastýra skrifstofu UN Women í Genf og yfirmaður mannúðarmála stofnunarinnar

◦ Summer Abu Mughli, sérfræðingur í alþjóðamálum frá An-Najah háskólanum í Palestínu

18:20 – Lokaorð Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands

18:30–19:00 Móttaka þar sem boðið verður upp á léttar veitingar.

Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að smella á meðfylgjandi hlekk: 25 Years of Women, Peace and Security: Renewed commitments to gender responsive solutions

Hægt verður að fylgjast með málþinginu í streymi hér: https://vimeo.com/event/5488701

80 ár frá stofnun Sameinuðu þjóðanna

Þann 24. október fagna Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) 80 ára afmæli sínu. Þegar stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna tók gildi árið 1945 var markmiðið skýrt: að tryggja frið, mannréttindi og alþjóðlega samvinnu. Á áttatíu árum hafa SÞ gegnt lykilhlutverki í að efla lýðræði, mannréttindi, menntun og sjálfbæra þróun.

Nú standa Sameinuðu þjóðirnar á nýjum tímamótum. Á afmælisárinu fer stofnunin í gegnum umfangsmikið umbótaferli, þar sem áhersla er lögð á að færa starf hennar nær fólki, efla traust og gagnsæi, og gera alþjóðlegt samstarf skilvirkara og sanngjarnara. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, hefur kallað eftir „sterkara, nánara og virkara fjölþjóðakerfi“ sem byggir á raunverulegri þátttöku borgara og aukinni rödd ungs fólks og samfélagsins alls.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa haft víðtæk áhrif á daglegt líf fólks, meðal annars í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO), Barnahjálp SÞ (UNICEF), Menningarmálastofnun SÞ (UNESCO) og Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR). Verkefni þeirra snerta öryggi, menntun, jafnrétti, loftslagsmál og mannúð, og mynda grunn að alþjóðlegu samstarfi um lausnir á sameiginlegum áskorunum.

Á Íslandi hefur Félag Sameinuðu þjóðanna í tæpa átta áratugi unnið að því að efla vitund, fræðslu og þátttöku almennings í alþjóðlegum málum. Félagið vinnur sérstaklega með ungu fólki og borgarasamfélaginu meðal annars með því að kynna heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og skapa vettvang fyrir samræðu um málefni SÞ, frið og mannréttindi.

Afmælisdagur Sameinuðu þjóðanna ber með sér sterka íslenska tengingu. Kvennafrídagurinn 1975 var haldinn á degi Sameinuðu þjóðanna á ári útnefndu af SÞ sem kvennaár SÞ. Þann dag tengdu íslenskar konur baráttu sína fyrir jafnrétti beint við alþjóðlega baráttu Sameinuðu þjóðanna um réttlæti, frið og samstöðu.

„Barátta íslenskra kvenna hefur frá upphafi verið í takt við þau gildi sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir. Að jafna tækifæri kynjanna er forsenda friðar, lýðræðis og sjálfbærrar framtíðar. Íslenskar konur sýndu með Kvennafrídeginum að barátta fyrir jafnrétti er hluti af stærra verkefni heimsins, því sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar til að tryggja og verja,“ segir Vala Karen.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hvetur almenning, skólasamfélög til að nýta afmælið til að íhuga mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu, samstarfs og samtals, sérstaklega á tímum aukins vantrausts og spennu í alþjóðamálum.

„Framtíð Sameinuðu þjóðanna ræðst ekki einungis í höfuðstöðvunum í New York, hún ræðst af vilja okkar allra til að standa vörð um gildi friðar, jafnréttis og lýðræðis,“ segir Vala Karen.

Verður heimurinn betri? Ný og spennandi vefsíða!

Verður heimurinn betri? Við þessari spurningu eru margvísleg svör. Mörg okkar lifa lengra, heilbrigðara og innihaldsríkara lífi. En lifnaðarhættir okkar setja álag á jörðina, auk þess sem stríð, átök og faraldrar geysa víða. Þriðjudaginn 14. október gaf Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu út vefinn verdurheimurinnbetri.is og bók að safna nafni. Vefurinn er hannaður af hönnunarstofunni 14islands fyrir Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), í miklu samráði við ungt fólk. Við héldum útgáfuhóf í Fjölbrautarskólanum við Ármúla þar sem fjöldi ungs fólks komst skrefinu nær við að svara þessari erfiðu spurningu. Um 100 manns mættu á viðburðinn og gátu nemendur tekið þátt í happdrætti og hlutu þrjú ungmenni vinninga. Hófið endaði með miklu lófaklappi og fengu öll sem mættu pizzu á leiðinni út.

Útgáfuhófið var stórskemmtilegt og þökkum við sérstaklega Báru Karínu og Stefaníu Sigurdís fyrir góða og fræðandi viðburðarstjórn. Hófið var fjölmennt, en starfsfólk og nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla fá sérstakar þakkir fyrir samstarfið.

Verður heimurinn betri? er kennsluverkfæri sem hjálpar ungu fólki að skilja heiminn sem við búum í. Með því að hvetja til ígrundunar um ástandið í heiminum styður verkefnið við fjölbreytta og gagnrýna hugsun, færni sem nýtist í öllum námsgreinum.  Á vefnum má finna fjölbreytt og gagnvirkt efni fyrir skóla, kennara og aðra áhugasama. Efnið byggir á nýjustu tölfræðilegri framsetningu um þróun heimsins og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og er ætlað til að vekja til umræða, fræða og hvetja til virkni meðal ungs fólks.

Vefurinn er gagnvirkur og virkar þannig að nemendur safna stigum með því að nota vefinn. Stigin geta þeir síðan notað til þess að kjósa hvaða málefni skiptir þá mestu máli. Verður heimurinn betri? hefur nú þegar vakið mikla lukku og hvetjum við alla skóla til þess að skoða hann.

Vefurinn byggir á samnefndri bók sem nú er gefin út á íslensku í þriðja skiptið og er aðgengileg á vef MMS og FSÞ, en er auk þess send á alla grunn- og framhaldsskóla landsins í október.
Útgáfa vefsins er styrkt af Barna og -menntamálaráðuneytinu og útgáfa bókarinnar er styrkt af Utanríkisráðuneytinu.

Málstofa um Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindaráðið á friðarráðstefnu

Málstofan „Protecting Rights Together: The Role of the United Nations in Today’s Human Rights Struggles“, sem fer fram kl. 14:20–15:20 þann 10. október, skoðar mikilvægi sameiginlegrar ábyrgðar ríkja til að viðhalda alþjóðlegum mannréttindum. Þar verður rætt um um hvernig Sameinuðu þjóðirnar og aðrar fjölþjóðlegar stofnanir geta varið og eflt mannréttindi á heimsvísu.

Katja Creutz, frá Finnsku alþjóðamálastofnuninni, flytur inngangserindi en að því loknu munu alþjóðlegir og íslenskir sérfræðingar velta upp spurningum meðal annars um áhrif smærri ríkja innan kerfis Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til að vernda mannréttindi.

Í pallborðinu taka þátt:

  • Katja Creutz, frá Finnsku alþjóðamálastofnuninni (Finnish Institute of International Affairs)
  • Jessica Stern, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna fyrir réttindi LGBTQI+ fólks og fræðimaður við Carr-Ryan Center for Human Rights við Harvard Kennedy School
  • Einar Gunnarsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, lögmaður og formaður Siðmenntar

Umræðurnar verða í umsjón Kristjáns Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðings.

Málstofan, sem setur hlutverk Sameinuðu þjóðanna og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í brennidepil, er hluti af Imagine Forum ráðstefnunni.

Imagine Forum er árleg friðarráðstefna Höfða, friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins. Þema ráðstefnunnar í ár eru mannréttindi sem grundvöllur varanlegs friðar. Í ár tekur Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi þátt í skipulagningu ráðstefnunnar.

Fjöldi áhrifafólks og sérfræðinga munu taka þátt í dagskrá ráðstefnunnar en þar má nefna Varsen Aghabekian Shaheen utanríkisráðherra Palestínu, Nazanin Boniadi, leikkonu og mannréttindafrömuð og Vladimir Kara-Murza, sagnfræðing og blaðamann.

Ráðstefnan er vettvangur fyrir opna umræðu um mannréttindi, frið og alþjóðlegt samstarf í samtímanum og tengir saman fræðimenn, stjórnmálafólk og starfandi sérfræðinga á sviði mannréttindamála.

Nánari upplýsingar og dagskrá ráðstefnunnar má finna á heimasíðu hennar:
👉 https://ams.hi.is/en/projects/fridar-radstefnan/

Alþjóðaár jökla: Menntaskólanemar heimsóttu Sólheimajökul

Nemendur úr Menntaskólanum við Sund (MS) og Fjölbrautaskólanum við Ármúla (FÁ) heimsóttu nýverið Sólheimajökul í fylgd leiðsögumanns frá Asgard Beyond. Ferðin var liður í verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarf skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tileinkað alþjóðlegu ári jökla.

Þrátt fyrir að um 10% af Íslandi séu þakin jöklum eru fáir menntaskólanemendur á Íslandi sem þekkja eða hafa heimsótt jökla. Sem hluti af undirbúningi ferðarinnar hittu nemendurnir Hrafnhildi Hannesdóttir, fagstjóra jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, sem sagði nemendunum frá jöklum og jöklarannsóknum á Íslandi. Nemendurnir undirbjuggu einnig handrit og skipulögðu tökur til framleiða efni, myndbönd og ljósmyndir, með það að markmiði að vekja athygli á áhrif loftlagsbreytinga.

Við Sólheimajökul fengu nemendurnir jöklabúnað, brodda, belti, axir og hjálm, áður en þau gengu að jökulsporðinum. Jöklaleiðsögumaðurinn Róbert, sagði nemendunum frá hvernig jöklar verða til og af hverju þeir eru helst á suðaustur hluta landsins. Hann sagði þeim einnig frá þeim miklu breytingum sem orðið hafa á jöklum landsins vegna hlýnunar loftslags.

Verkefnið Draumur um jökul felur ekki aðeins í sér ferð á jökulinn heldur einnig skapandi miðlun. Þrátt fyrir skyn og skúrir á Sólheimajökli, þar sem rignir flesta daga ársins, þá tókst nemendahópnum að safna myndefni á jöklinum, tóku viðtöl við hvort annað en einnig jöklaleiðsögumanninn. Markmiðið er að deila þekkingu um jökla, vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga og hvetja fleiri til að heimsækja þessar einstöku náttúruperlur – áður en þær hverfa.

Verkefnið hlaut styrk úr Loftslagssjóði ungs fólks.