Model UN ráðstefna fyrir framhaldsskólanemendur

Ungt fólk leiðir loftslagsumræðuna í Model UN

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og UNESCO-skólinn Kvennaskólinn í Reykjavík hefja samstarfsverkefni þar sem framhaldsskólanemar fá tækifæri til að kynnast heimi alþjóðlegrar diplómasíu – og takast á við eina af stærstu áskorunum samtímans: loftslagsbreytingar.

Verkefnið byggir á aðferðafræði Model UN, þar sem nemendur setja sig í spor fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og ræða lausnir á loftslagsmálum út frá sjónarhorni samvinnu, réttlætis og sjálfbærni. Þannig öðlast þátttakendur innsýn í ákvarðanatökur á alþjóðavettvangi – og upplifa jafnframt hvernig rödd ungs fólks getur haft áhrif.

Hver getur tekið þátt?

Þátttakendur þurfa enga sérstaka reynslu og er þess einungis krafist að nemendur vilji læra meira um starfsemi Sameinuðu þjóðanna.

Viðburðurinn er opinn öllum framhaldsskólanemendum en nemendum í UNESCO-skólum er veittur forgangur.

Skráðu þig til þátttöku hérna: https://forms.office.com/e/ekNb2pjfCm

Af hverju ættir þú að taka þátt?

  • Skemmtilegt tækifæri: Þú færð að prófa þig áfram í ræðuhaldi, samningaviðræðum og samvinnu.
  • Skildu heiminn betur: Þú lærir hvernig Sameinuðu þjóðirnar starfa og hvernig ákvarðanir um stærstu mál samtímans eru teknar.
  • Vertu hluti af lausninni: Þú tekur þátt í að móta hugmyndir og lausnir sem skipta raunverulegu máli.
  • Byggðu tengslanet: Þú hittir jafnaldra úr öðrum skólum, myndar ný vinatengsl og kynnist fólki með svipuð áhugamál.
  • Einstök reynsla fyrir framtíðina: Þessi þátttaka styrkir þig sem borgara og framtíðarleiðtoga – og getur líka verið dýrmæt reynsla í námi og starfi.

Nemendur í Kvennaskólanum mynda sérstakan stýrihóp sem skipuleggur viðburðinn, en nemendum úr öðrum UNESCO-skólum um land allt er boðið að taka þátt. Verkefnið sameinar fræðslu, skapandi vinnu og valdeflingu og leggur áherslu á að gera ungt fólk að virkum þátttakendum og framtíðarleiðtogum í loftslagsumræðu.

Hægt er að kynna sér meira um Model UN hér: IceMUN | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Pétur Hjörvar, verkefnastjóra hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á petur@un.is eða í gegnum samfélagsmiðla félagsins: Facebook / Instagram

Verkefnið hlaut styrk frá Loftslagssjóði ungs fólks í Reykjavík.

Heimsmarkmiðin nú til á auðlesnu máli

 

Í tilefni fánadags heimsmarkmiðanna gefa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Miðstöð um auðlesið mál út bækling sem kynnir heimsmarkmiðin á auðlesnu máli. Markmið útgáfunnar er að gera heimsmarkmiðin aðgengilegri og hvetja alla til að leggja sitt af mörkum til að ná árangri í þeim, og hvetja jafnframt aðra til að gera slíkt hið sama.


Auðlesið mál byggir á einfaldri setningagerð, skýrum orðum og stuttum texta, sem auðveldar lesendum að skilja efnið. Með því að kynna heimsmarkmiðin á þennan hátt er tryggt að fleiri geti tekið þátt í því mikilvæga verkefni að skapa sjálfbæra framtíð fyrir öll.
Verkefnið var unnið með styrk frá ÖBÍ réttindasamtökum og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Einnig er Miðstöð um auðlesið mál þakkað fyrir gott samstarf.


„Það er okkur afar mikilvægt að heimsmarkmiðin séu skýr og aðgengileg fyrir öll, því þau snerta alla íbúa jarðar – ekki síst í ljósi þess bakslags sem við stöndum frammi fyrir. Samvinna og samstarf um að gefa í þegar kemur að heimsmarkmiðunum hefur aldrei verið mikilvægara“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdarstjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Bæklingurinn er aðgengilegur á hérna að neðan, en félagið vinnur áfram að enn frekara efni um heimsmarkmiðin á auðlesnu máli. Sérstakt vefsvæði tileinkað þessu efni verður sett upp á næstunni.

Sækja bækling: Heimsmarkmiðin auðlesin

 

Skráning hafin á árlega friðarráðstefnu Höfða friðarseturs

Taktu þátt í umræðunni um mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi til að tryggja varanlegan frið!

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fer fram þann 10. október, frá kl. 10:00 – 17:00.

Á tímum vaxandi einræðishyggju, hnignunar lýðræðis og bakslags í mannréttindum, þar á meðal kynjajafnrétti og réttindum LGBTQI+ fólks, er brýnt  beina athygli  því hvernig slíkt bakslag ógnar grundvallarforsendum friðaruppbyggingar. Þegar réttindi einstaklinga eru skert og jaðarhópar verða fyrir kerfisbundinni mismunun, grafa stjórnvöld undan trausti, félagslegri samheldni og þátttöku almennings í lýðræðislegum ferlum. Verndun mannréttinda er því lykilforsenda þess að tryggja varanlegan og réttlátan frið.

Takmörkuð sæti, skráning fer fram hér

Aðalfyrirlesarar eru meðal annarra:

🎙️ Nazanin Boniadi – heimsþekkt leikkona og mannréttindafrömuður sem leggur áherslu á réttindi kvenna og tjáningarfrelsi í Íran og víðar

🎙️Varsen Aghabekian Shaheen, utanríkisráðherra Palestínu

🎙️ Jessica Stern – fyrrum sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum LGBTQI+ fólks og fræðimaður við Carr-Ryan Center for Human Rights við Harvard Kennedy School

🎙️ Vladimir Kara-Murza – rússneskur blaðamaður og lýðræðissinni sem hefur verið fangelsaður fyrir opinskáa andstöðu sína við einræðishætti og óþreytandi baráttu fyrir pólitísku frelsi

Dagskrá á ensku

10:00 – 10:10 Welcoming words
Pia Hansson, Director of Höfði Reykjavík Peace Centre, University of Iceland

10:10 – 10:30 Keynote Address – Woman, Life, Freedom: Honoring Iceland’s Legacy, Standing with Iran’s Future
Nazanin Boniadi, Actress and Human Rights Activist

10:30 – 11:00 Conversation with Nazanin Boniadi

11:00 – 11:45 Spotlight session with Varsen Aghabekian Shaheen, Minister for Foreign Affairs and Expatriates of the State of Palestine

11:45 – 12:30 Lunch

12:30 – 12:45 Keynote Address – Russia Under Putin — and Beyond

Vladimir Kara-Murza, Russian opposition politician, author, historian and former political prisoner

12:45 – 13:30 Panel discussion

13:30 – 13:45 Coffee Break

13:45 – 14:00 Keynote address

Jessica Stern, Former U.S. Special Envoy to Advance the Human Rights of LGBTQI+ Persons and Senior Fellow at the Carr-Ryan Center for Human Rights at Harvard Kennedy School

14:00 – 14:20 Moderated Youth Dialogue with Jessica Stern

14:20 – 15:20 Protecting Rights Together: The Role of the UN in Today’s Human Rights Struggles

Katja Creutz, Programme Director of the Global Security and Governance research programme at FIIA

Panel discussion

15:20 – 15:30 Coffee Break

15:30 – 16:00 Fireside Chat: Cities as Peacebuilders: Human Rights at the Local Level

16:00 – 16:10 Presenting the Finalists of the Peaceful Towns Art Competition

16:10 – 16:20 Closing Address

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Minister for Foreign Affairs

16:20 – 16:30 Closing Reflections

Silja Bára Ómarsdóttir, Rector of the University of Iceland

16:30 Reception

Athugið að þessi frétt er tekin af vef Alþjóðamálastofnunar

Staða mannfjöldaþróunar 2025 – Kynning á skýrslu UNFPA

Í tilefni útgáfu skýrslu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna um Stöðu mannfjöldaþróunar 2025 (e. State of The World Population), efnir Félag Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við Endósamtökin, með stuðningi utanríkisráðuneytisins til kynningarfundar í Loftskeytastöðinni, þriðjudaginn 16. september kl. 16.30.

Viðburðurinn fer fram á íslensku en pallborðsumræður á ensku. Sýning verður opnuð á viðburðinum með myndum sem prýða skýrsluna og verður létt hressing í boði.
Dagskrá viðburðarins:
Opnun
  • Anna Margrét Hrólfsdóttir, framkvæmdarstjóri Endósamtakanna
  • Marta Birna Baldursdóttir, sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins
  • Klaus Simoni Pedersen, hjá Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í New York

Pallborðsumræður

  • Ulla Müller, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu Mannfjöldasjóðs Sþ
  • Eydís Sara Óskarsdóttir, varaformaður Endósamtakanna
  • Sunna Kristín Símonardóttir, lektor við félagsfræðideild Háskólans á Akureyri
  • Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, heimspekingur, aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands

Opnun listasýningar af verkum úr skýrslunni ásamt léttum veitingum

Nánar um skýrsluna 

Undanfarna áratugi hafa orðið miklar framfarir í kyn- og frjósemisréttindum (e. sexual reproductive health rights). Aðgangur að fræðslu og getnaðarvörnum hefur aukist. Einstaklingar eru nú í betri stöðu en áður til að ákveða hvort, hvenær og hversu mörg börn þeir kjósa að eignast.
     Hindranir á leið fólks í að uppfylla vonir og væntingar um barneignir geta tekið á sig margar myndir, en til að skilja þessar hindranir er nauðsynlegt að spyrja. Ef raunveruleiki fólks er ekki skoðaður með tilliti til margslungna áskoranna fólks getur það leitt til stefnumótunar sem er ófullnægjandi eða óviðeigandi.
     UNFPA spurði fólk í 14 löndum, sem samanlagt mynda meira en þriðjung jarðarbúa, hvað það raunverulega vilji þegar kemur að barneignum og framtíð þess – og hvort það telji sig geta látið þessar óskir rætast. Niðurstöðurnar sýna að allt of fáir hafa raunverulegt frelsi þegar kemur að þessari ákvörðunum, sem fyrir flest er ein stærsta ákvörðun lífsins.
     Skýrslan byggir á rannsóknum fyrir sýna að hindranir við að forðast óvænta meðgöngu og hindranir við að stofna fjölskyldu eru í raun þær sömu: efnahagsleg óvissa, kynjamismunun, skortur á stuðningi frá maka og samfélagi, ófullnægjandi kyn- og frjósemisheilbrigðisþjónusta, skortur á aðgengi að þjónustu á borð við viðráðanlega dagvistun eða menntun, og svartsýni um framtíðina.
     Það kemur í ljós að þegar við spyrjum réttu spurninganna sjáum við bæði vandann og lausnina skýrt. Svarið felst í frelsi til barneigna (e. Reproductive agency) –getu einstaklings til að taka frjálsar og upplýstar ákvarðanir um kynlíf, notkun getnaðarvarna og barneignir – hvort, hvenær og með hverjum sem hann vill.
     Fæðingartíðni verður sífellt meira umræðu- og áhyggjuefni. Opinber umræða beinist gjarnan að lækkandi frjósemi, öldrun samfélaga og skorti á vinnuafli. Samt er eitt lykilmál oft fjarverandi í umræðunni: umfram allt stöndum við frammi fyrir hnattrænni krísu í frjósemisfrelsi. Það er meginþema nýjustu skýrslu UNFPA, The Real Fertility Crisis: The Pursuit of Reproductive Agency in a Changing World.

Morgunfundur um Sameinuðu þjóðirnar vel sóttur

Í gær stóð Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, fyrir umræðufundi í tilefni 80 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna.

Viðburðurinn var vel sóttur og einkenndist af breiðum umræðum um áskoranir, möguleika og fyrirséðar breytingar stofnunarinnar í samhengi fortíðar, samtíðar og framtíðar.

Bogi Ágústsson, heiðursfélagi Félags Sameinuðu þjóðanna, stýrði fundinum og setti tóninn með hugleiðingu um mikilvægi SÞ í samtímanum. Að honum loknum tók Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor í sagnfræði, til máls. Hann fjallaði um viðhorf Íslendinga til Alþjóðadómstólsins í sögulegu samhengi og dró fram þá togstreitu sem oft myndast á milli þjóðlegra og alþjóðlegra hagsmuna, togstreitu sem enn hefur mikið vægi í starfi Sameinuðu þjóðanna.

Helen María Ólafsdóttir, ráðgjafi í öryggis- og þróunarmálum, talaði út frá áratuga reynslu á átakasvæðum og minnti á mikilvægi mannúðar- og öryggisstarfs SÞ, einkum til að vernda borgara við krefjandi aðstæður.

Árni M. Mathiesen fjallaði um áhrif Íslands á vettvangi SÞ og benti á að smæð landsins fylgi ekki aðeins takmarkanir heldur einnig sérstök tækifæri. Hann lagði áherslu á að ef Sameinuðu þjóðirnar væru ekki til þyrfti einfaldlega að finna þær upp.

Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar, beindi sjónum að umhverfis- og loftslagsmálum og hvatti til hugrakkra skrefa í alþjóðlegri samvinnu. Hún lagði áherslu á að samvinna þvert á sérsvið væri lykilatriði til að ná sjálfbærum árangri til lengri tíma.

Viðburðurinn markaði upphaf afmælisárs SÞ og undirstrikaði mikilvægi stofnunarinnar sem lykilvettvangs í alþjóðlegu samstarfi smáríkja á borð við Ísland. Hauststarf Félags Sameinuðu þjóðanna mun einkennast af viðburðum, útgáfu og öðru efni sem liður í því að fagna þessum tímamótum.

Félagið þakkar öllum sérfræðingunum kærlega fyrir þátttökuna og gestum fyrir að fjölmenna á viðburðinn.

  

 

Fánadagur heimsmarkmiðanna 25. september

Heimsmarkmiðin kalla á okkur öll – 25. september 2025

Árið 2025 stöndum við á krossgötum þar sem aðeins fimm ár eru eftir til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Staðan í heiminum er krefjandi með yfirvofandi loftslagsvanda, ójöfnuði og átakalínum milli þjóða sem draga úr framförum. Þrátt fyrir það sýna nýjustu skýrslur að árangur hefur náðst þegar við stöndum saman. Samkvæmt nýjustu framvinduskýrslu Sameinuðu þjóðanna eru aðeins um 35% markmiða á réttri leið. Þó hefur á þessum tíma tekist að ná verulegum framförum í mikilvægum málaflokkum þar sem tíðni ungbarnadauða hefur lækkað, fleiri börn hafa aðgang að skóla og yfir 90% jarðarbúa hafa nú rafmagn
(UN SDG Report 2025).

Flöggum 25. september 2025
Fánadagur Heimsmarkmiðanna er tækifæri til að minna okkur á að hvert einasta framtak skiptir máli. Með því að flagga fánanum sýnum við vilja til að vera hluti af lausninni, hvort sem við erum fyrirtæki, skóli eða stofnun. Með því að flagga fána Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna erum við að sýna samstöðu, vekja umræðu og hvetja til nýrra hugmynda sem styrkja vegferðina að betri heimi fyrir öll.
Hverjir geta tekið þátt?
Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru þátttakendur í UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Skólar, samtök og stofnanir geta skráð sig og pantað fána í gegnum felag@un.is. Athugið einnig er hægt að taka þátt rafrænt (á samfélagsmiðlum).
Leiðbeiningar fyrir þátttöku
Þegar þátttaka hefur verið skráð fær tengiliður sendar leiðbeiningar fyrir fánadaginn, merkingar fyrir samfélagsmiðla og tillögur að færslum fyrir heimasíður/samfélagsmiðla sem hægt er að útfæra með eigin sniði.
Þar sem fánadagurinn er samstillt framtak, þá biðjum við ykkur um að fylgja sérstaklega leiðarvísinum þegar kemur að merkingum fyrir samfélagsmiðla. Endilega takið myndir og myndbönd af fánanum með starfsfólki og nemendum og deilið á ykkar miðlum.
Panta fána
Til að lágmarka kolefnisfótspor eru fánarnir prentaðir á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu. ATH. Skólar fá sérstakan afslátt í gegnum felag@un.is.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan. Texti er á íslensku.
Deildu þátttökunni
Þann 25. september n.k. eru þátttakendur hvattir til að deila þátttöku sinni í fánadeginum á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingum, myndefni o.fl. verða sendar þegar þátttaka hefur verið staðfest.
Um framtakið
United Nations Global Compact hefur frá árinu 2019 staðið fyrir fánadegi heimsmarkmiðanna. Vinsældir þessa framtaks hafa farið ört vaxandi um allan heim og sífellt fleiri flagga fána fánanum árlega. UN Global Compact á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa nú í þriðja sinn, saman að deginum hér á landi.
Fánadagur heimsmarkmiðanna er frábært tækifæri til að vekja athygli og skapa umræðu um það sem þátttakendur eru að gera til að vinna markvisst að markmiðunum.

Morgunverðarfundur – 80 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, boðar til opins umræðufundar í Norræna húsinu 10. september í tilefni af 80 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.

Fundurinn er vettvangur fyrir umræðu um fjölþjóðasamstarf, með sérstakri áherslu á Sameinuðu þjóðirnar, og hvernig Ísland getur lagt sitt af mörkum og brugðist við áskorunum framtíðarinnar. Fundurinn sameinar sjónarhorn úr alþjóðastarfi, fræðasamfélagi og borgaralegu samfélagi.

Til að hefja umræðuna munu fjórir sérfræðingar deila hugleiðingum sínum um SÞ útfrá sögulegu samhengi, árangri í starfi, tækifærum á umbreytingatímum og framtíðarsýn. Að erindum loknum mun fundarstjóri beina spurningum til frummælenda áður en opnað verður fyrir spurningar og umræður úr sal.

Frummælendur:

  • Guðni Th. Jóhannesson – Prófessor í sagnfræði
  • Árni M. Mathiesen – Fyrrverandi ráðherra og sérfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO)
  • Helen María Ólafsdóttir – Ráðgjafi um öryggis- og þróunarmál
  • Þorgerður María Þorbjarnardóttir – Formaður Landverndar

Fundarstjóri: Bogi Ágústsson – Fjölmiðlamaður

Fundurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á alþjóðamálum, stjórnmálum, mannréttindum og framtíðarsýn Íslands á alþjóðavettvangi – hvort sem það eru embættismenn, fræðafólk, nemendur eða almenningur.

Húsið opnar klukkan 8:45 með morgunhressingu en fundurinn hefst klukkan 9:15.

Tengill að viðburðinum á Facebook: https://fb.me/e/8O0Na6YTH

Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna fundaði með ríkisstjórninni

Mynd / FOR, MRN

Þann 22. ágúst sl. sat barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fund með ríkisstjórn Íslands þar sem það kynnti sínar hugmyndir og áherslur um hvernig vinna mætti markvisst að heimsmarkmiðunum hér á landi.

Ráðið lagði fram tíu tillögur sem snúa meðal annars að skólamálum, heilbrigðisþjónustu, lýðræðislegri þátttöku, fjölbreytileika og þörf fyrir samræmda ungmennastefnu. Í kjölfar kynningarinnar áttu ráðherrar og fulltrúar ráðsins samtal um hugmyndirnar og sýn unga fólksins á næstu skref í þessum málaflokki.

Fundir sem þessir eru mikilvægur vettvangur þar sem ungt fólk getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri beint við þá sem móta stefnu í samfélaginu. Í ráðinu sitja tólf fulltrúar á aldrinum 13–18 ára víðs vegar af landinu. Ráðið hefur verið starfandi allt frá árinu 2018.

Meira um barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna má finna hér: Heimsmarkmið | Barna- og ungmennaráð og Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna | Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

„Nú er tíminn til að fjármagna framtíðina og breyta um stefnu“ sagði António Guterres í Sevilla

Sevilla, 30. júní 2025.

„Við erum hér í Sevilla til að breyta um stefnu,“ sagði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í opnunarræðu sinni á fjórðu ráðstefnunni um fjármögnun þróunar (FFD4). Þar kallaði hann eftir metnaðarfullum aðgerðum til að loka gríðarlegu fjármögnunarbili upp á 4 billjónir dollara sem stendur í vegi fyrir heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

„Heimsbyggðin logar, klofin af ójöfnuði, loftslagsvá og vopnuðum átökum,“ sagði Guterres. „Fjármögnun er hreyfiafl þróunar og núna hikstar vélin.“

Í Sevilla var Sevilla-skuldbindingin samþykkt án þátttöku Bandaríkjanna, en hún felur í sér alþjóðlegt loforð til þróunarríkja um að efla fjárfestingar, bæta ósanngjarnt skuldakerfi og endurskoða fjármálakerfi heimsins.

Guterres lagði áherslu á þrjár aðgerðir:

  1. Tvöfalda þróunaraðstoð og þrefalda lánshæfni fjölþjóðastofnana.

  2. Endurskoða skuldir þróunarríkja, sem verja nú 1,4 billjónum dollara árlega í vaxtagreiðslur.

  3. Endurbæta alþjóðlegt fjármálakerfi og tryggja réttlátara skattkerfi „mótað af öllum, ekki bara fámennum hópi“.

„Þessi ráðstefna snýst ekki um góðgerðarmál – hún snýst um réttlæti. Hún snýst ekki um peninga – heldur fjárfestingu í framtíðinni sem við viljum byggja saman,“ sagði hann.

Spænski forsætisráðherrann Pedro Sánchez undirstrikaði að „nú er tíminn okkar – og staðurinn okkar er hér“ og hvatti til samstöðu og hugrekkis. Ráðstefnan er talin marka upphaf nýs áfanga í alþjóðlegri samvinnu og skuldbindingu um sjálfbæra framtíð fyrir alla.

Íslensk stjórnvöld voru af sjálfsögðu í Sevilla, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, sótti ráðstefnuna. Áherslur Íslands eru:

  • Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna og stúlkna er forsenda sjálfbærrar þróunar. Nauðsynlegt er að virkja alla til þátttöku í hagkerfinu til að hámarka árangur.
  • Virkjun einkageirans til fjárfestinga í þróunarríkjum er lykilatriði til að efla hagvöxt og skila þróunaráhrifum, ekki síst í samhengi niðurskurðar til þróunarsamvinnu.
  • Efling skattkerfa í þróunarríkjum er nauðsynleg til þess að styrkja stoðir stjórnvalda og gera þeim betur kleift að sinna grunnþjónustu og uppbyggingu.
Gæti verið mynd af 6 manns og Texti þar sem stendur "ICELAND"
Mynd frá utanríkisráðuneytinu

Védís Sigrúnardóttir Ólafsdóttir leiðir kynningu- og fræðslu hjá FSÞ á 80 ára afmæli SÞ

Félag Sameinuðu þjóðanna býður Védísi Sigrúnardóttur Ólafsdóttur hjartanlega velkomna til starfa sem verkefnastjóra kynningar- og fræðslumála fyrir verkefnið UN80. Védís hóf störf hjá FSÞ í byrjun júní og kemur til liðs við félagið með víðtæka þekkingu og reynslu úr kynningar- og fræðslustarfi, þróunarsamvinnu og mannúðarmálum, bæði á Íslandi og erlendis.

Starfið var auglýst á Alfreð í apríl og sóttu yfir 50 einstaklingar um. Védís mun gegna hlutverkinu út árið 2025.

Védís lauk meistaranámi í þjóðfræði og viðbótardiplómu í kynjafræði frá Háskóla Íslands, auk þess sem hún er með BS-gráðu í alþjóðlegri stjórnmálafræði og hagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.

Á árunum 2018–2024 starfaði hún hjá Jafnréttisskóla GRÓ við Háskóla Íslands, og þar á undan hjá UNRWA í Jórdaníu (2016–2018). Auk þess hefur hún unnið að fjölbreyttum verkefnum fyrir Háskóla Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og öryggi í Þýskalandi (2024–2025), Lækna án landamæra í Sierra Leone (2022) og Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Malaví (2015).

Védís er ekki ókunnug starfsemi FSÞ þar sem hún sat í stjórn félagsins á árunum 2021 til vors 2025.

Við hlökkum til samstarfsins og bjóðum Védísi innilega velkomna!