Vinningshafar í samkeppni ungs fólks heimsóttu höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York

Á dögunum fóru vinningshafar í samkeppni ungs fólks til New York að heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Þau Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi Kvennaskólans í Reykjavík og Þröstur Flóki Klemensson, nemandi Háteigsskóla báru sigur út býtum með sögum sínum um heimsmarkmiðin í tengslum við mannréttindi og frið í heiminum. Feður þeirra beggja ferðuðust með þeim sem forráðamenn ásamt Völu Karen, framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Flogið var út að morgni sunnudags 21. apríl með Icelandair til New York. Næstu daga á milli þess sem ungmennin nutu þess að skoða sig um í borginni áttu þau fundi með fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, í höfuðstöðvum Barnahjálpar SÞ, UNICEF og enduðu í vettvangsferð um höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna með fulltrúa fastanefndarinnar.

Hjá UNICEF hittu ungmennin þær Lóu Magnúsdóttir og Sólrúnu Engilbertsdóttir sem báðar hafa starfað hjá samtökunum um margra ára skeið, meðal annars í Rúanda, Panama, Pakistan, Síerra Léone og Kenía. Rædd voru ólík verkefni Barnahjálparinnar frá upphafi um víða veröld sem og staða barna í dag.

Mynd / FSÞ – Lóa Magnúsdóttir, Eybjört Ísól, Þröstur Flóki og Sólrún Engilbertsdóttir.

Því næst hittu ungmennin fastafulltrúa Íslands hjá Sþ, Jörund Valtýsson og Guðrúnu Þorbjörnsdóttir starfsmann fastanefndarinnar. Jörundur fjallaði um málefni fastanefndarinnar á vettvangi SÞ og þau áherslumál sem eru í brennidepli nú, meðal annars undirbúning fyrir Leiðtogafund framtíðarinnar (e. Summit of the Future) sem haldinn verður dagana 22-23. september í höfuðstöðvunum á meðan UNGA stendur, stærstu diplómatísku viku heimsins þar sem allir leiðtogar heimsins mæta og ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ræddi hann ennfremur mikilvægi aðkomu ungs fólks og raunverulega þátttöku þeirra í málefnum eins mikilvægum og þeim er varða framtíðina og aukningu og sýnleika ungs fólks á viðburðum SÞ.

Mynd / FSÞ – Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi SÞ fór yfir áherslumálin þessi dægrin og ræddi við Eybjört og Þröst um aðkomu ungs fólks á alþjóðagrundvelli. Með honum sat fundinn Guðrún Þorbjörnsdóttir sem einnig starfar fyrir fastanefndina.

Eftir góðar samræður við fulltrúa fastanefndarinnar fylgdi Ágúst Flygenring hópnum að höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, þar sem saga byggingarinnar var krufin, sem og helstu minnisvarðar og salir voru þræddir. Hópurinn fékk að sjá frá fundi sem átti sér stað í allsherjarþinginu, þegar fundi lauk í öryggisráðinu, sal efnahags- og félagsmálaráðsins og að lokum undirbúning fyrir viðburð í sal gæsluverndarráðsins sem síðustu ár hefur mikið verið notaður fyrir viðburði tengda heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Mynd / FSÞ – Þröstur Flóki, Ágúst Flygenring og Eybjört Ísól við fræg ummæli fyrrum aðalframkvæmdastjóra SÞ, hins sænska Dag Hammarskjöld.

Ferðin var afar vel heppnuð og mikil ánægja ríkti meðal hópsins með heimsóknina og þökkum við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna fastanefnd Íslands kærlega fyrir að taka svo vel á móti öllum og aðstoðina við undirbúning heimsóknarinnar.

Þá þökkum við einnig Icelandair sérstaklega en þau gerðu það að verkum að hópurinn hafði tækifæri til þess að fljúga út og kynna sér betur þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer hjá Sameinuðu þjóðunum.

 

Meðfylgjandi eru fleiri myndir frá heimsókninni. 

Mynd FSÞ / Úr sal allsherjarþingsins eftir að fundi lauk.
Mynd / FSÞ – Þröstur Flóki, Eybjört Ísól og Jörundur Valtýsson.
Mynd / FSÞ – Vinningshafar ásamt starfsfólki fastanefndarinnar og fylgdarmönnum.

Vinnustofa fyrir ungt fólk á aldrinum 16-30 ára um mannréttindi og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun haldin þann 15. maí nk.

Þann 15. maí næstkomandi býður Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (e. United Nations Association Iceland) upp á vinnustofu fyrir ungmenni um mannréttindi og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. 

Vinnustofan er fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-30 ára sem hafa áhuga á mannréttindum og sjálfbærri þróun og jafnvel vinna í hagsmunagæslu í ungmennastarfi. Vinnustofan er líka fyrir þau sem vilja einfaldlega læra meira um hverjar skyldur ríkja eru í tengslum við grundvallar mannréttindi. Ennfremur mun vinnustofan veita ungmennum dýpri þekkingu og skilning á því hvernig heimsmarkmiðin tengjast mannréttindum og læra að nota ólík verkfæri til þess að meta stöðuna innan sinna ríkja.
Viðburðurinn hefst með kynningu frá Dönsku Mannréttindastofnuninni (e. Danish Institute for Human Rights). Þar verða kynnt verkfæri/tól, sem þróuð eru af stofnuninni sem hægt er að nota til þess að meta stöðu mannréttinda í tengslum við sjálfbæra þróun í hverju ríki fyrir sig. Verkfærin sem slík má einnig notast við í hagsmunagæslu ungs fólk til þess að þrýsta á stjórnvöld til þess að innleiða heimsmarkmiðin á Íslandi með tilvísun í grundvallar mannréttindi fólks. Vinnuhópar munu svo spreyta sig í að nota verkfærin með því að rýna í stöðu ólíkra markmiða á Íslandi, hvar þau standa og hvernig þeim miðar áfram út frá landrýniskýrslum, svokölluðum stöðuskýrslum sem aðildarríki skila frá sér til Sameinuðu þjóðanna.
Vinnustofan verður haldin milli 17:00-19:30 þann 15. maí í húsakynnum Félagsins, í Mannréttindahúsinu, Sigtúni 42, 105 Reykjavík. Hægt verður að taka þátt í persónu og rafrænt en mikilvægt er að skrá sig hér  fyrir lok dags 12. maí.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

**Vinnustofan er hluti af Norden 0-30 verkefni sem Félagið er hluti af ásamt UNA Finnlandi og UNA Svíþjóð.**

Ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis hvetur íslensk stjórnvöld til þess að tryggja og efla enn frekar raunverulega og inngildandi aðkomu allra ungmenna að ákvarðanatöku og stefnumótun sem þau varða

Birta B. Kjerúlf var kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis á fundi leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 26. apríl 2023. Þar að auki hefur hún setið í stýrihóp forsætisráðuneytisins um kynslóð jafnréttis en það fylgir kjöri í stöðuna.

Birta flaug til New York nú í mars þar sem hún var hluti af íslenskri sendinefnd sem sótti 68. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (e. CSW – Commission on the Status of Women) sem haldinn er árlega.  Meginþema fundarins í ár sneri að því að flýta fyrir því að jafnrétti kynjanna náist sem og valdefling kvenna og stúlkna með því að taka á fátækt, efla stofnanir og fjárfestingar með kynjasjónarmið að leiðarljósi. (e. „Accelerating the achievement of gender equality and the empowerment of all women and girls by addressing poverty and strengthening institutions and financing with a gender perspective“).

Ég er afar þakklát fyrir bæði tækifærin til að taka til máls og það eru einmitt þau augnablik sem standa upp úr þegar ég lít til baka. 

Viðvera Birtu á Kvennanefndarfundinum einkenndist að því að sitja opinbera viðburði, hliðarviðburði, efla tengsl við ungmennafulltrúa annarra landa og að tala máli íslenskra ungmenna en Birta fékk tvívegis tækifæri til þess að tala fyrir hönd íslenskra ungmenna, annars vegar á hliðarviðburði fastanefndar ESB hjá Sameinuðu þjóðunum um tengsl milli kynjajafnréttis og menntunnar og hins vegar á opinberum ungmennaviðburði CSW, þar sem ungmennafulltrúar aðildarríkjanna fóru með opinber erindi. Í báðum erindum lagði hún áherslu á aukið samráð við ungmenni á öllum stigum ákvarðanatöku, bakslag í réttindum hinsegin fólks og kvenna og mikilvægi þess að auka og bæta skilyrði til menntunar. Aðspurð hvað hafi staðið mest upp úr þessa viku sem hún var í New York, nefnir hún þessi tækifæri þar sem hún fékk að leggja lóð sín á vogaskálarnar.

Birta B. Kjerúlf er ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis.

Þó nokkur ungmenni voru viðstödd þingið að sögn Birtu en hún komst í samband við aðra ungmennafulltrúa áður en hún hélt út. Settu þau upp sín á milli sameiginlega spjallrás og skiptust þar á upplýsingum og ábendingum um allar hliðar fundarins. Þá nefnir hún að í gegnum þetta tengslanet hafi hún fengið tækifærið til að tala fyrir hönd íslenskra ungmenna á hliðarviðburði fastanefndar ESB hjá Sameinuðu þjóðunum. Á milli þess sem ungmennafulltrúarnir fóru saman á viðburði eða hittust í kaffipásum að þá gátu þau leitað til hvers annars þegar þau þurftu á stuðningi eða aðstoð að halda. Tengingar reyndust einstaklega dýrmætar fyrir Birtu, þá hafi sérstaklega stuðningur við undirbúning fundarins munað hana miklu og að hann muni nýtast vel áfram í undirbúningi fyrir 69. Kvennanefndarfundarins, sem marka mun 30 ára afmæli Pekingsáttmálans. Pekingsáttmálinn leit einmitt dagsins ljós árið 1995 á Kvennanefndarfundi SÞ í Peking í Kína en á þeim fundi var samþykkt yfirlýsing og aðgerðaáætlun í tólf köflum sem var ætlað að bæta stöðu kvenna í heiminum og markaði sáttmálinn mikil tímamót.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Birta B. Kjerúlf, ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis og Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ.

Aðkoma ungs fólks er gríðarlega mikilvæg á viðburði sem þessum. Ungmenni hafa sérstökum hagsmunum að gæta, þar sem við erum þau sem munu taka á móti heiminum sem er í mótun einmitt núna. Enn fremur eru ungmenni einmitt þau sem hafa drifkraftinn, framsýnina og hugsjónina sem þarf til að stýra stefnunni í rétta átt. 

Þegar Birta var spurð um þátttöku ungs fólks á viðburðum líkt og þessum sagði hún aðkomu þeirra gríðarlega mikilvæga og að mikilvægt sé að sofna ekki á verðinum, að háleit markmið til að drífa áfram framfarir í málaflokknum séu nauðsynleg. Þá minnti hún á að ungmenni í dag séu framtíðin og mikilvægt sé að ákvarðarnir sem teknar eru í dag séu hagsmunamál ungmenna sem tekið sé mark á. Sögulega hefur þáttaka ungmenna á Kvennaenefndarfundum ekki verið nægilega góð, og segir Birta að það sé einna helst vegna þess að fundurinn hafi ekki verið nægilega aðgengilegur ungmennum, og að opinber ungmennaviðburður hafi aðeins átt sér stað í fyrsta skipti fyrir tveimur árum síðan, á 66. Kvennanefndarfundinum. Engu að síður telur hún að ungmennastarf í tengslum við fundinn styrkist með hverju árinu og að það hafi alla burði til þess að hafa raunveruleg áhrif á jafnréttismál á alþjóðavísu, sé rétt farið að því að tryggja aðkomu og raunverulega þátttöku ungs fólks á viðburðum sem þessum.

Þá nefnir Birta að íslensk stjórnvöld geti bætt um betur og aukið enn frekar aðkomu ngmenna að ákvarðanatöku með því að gera stefnumótunarferlið gagnsærra, svo ungmenni, ungmennafélög og önnur almenn félagasamtök geti betur svarað sviptingum í stefnumótun.

Það er mikilvægt að stjórnvöld sæki til ungmenna oftar og af meiri alvöru. Eins og staðan er núna er samstarf og stuðningur stjórnvalda við ungmennafélög ekki nægur til að tryggja aðkomu íslenskra ungmenna að stefnumótunarferli um málefni sem snerta hagsmuni þeirra. Ég hvet íslensk stjórnvöld til að taka af skarið og setja fordæmi fyrir frekari og þýðingarmeiri inngildingu ungmenna í aðgerðum sínum, bæði innanlands og á alþjóðavísu.

Að lokum nefnir hún að blikur séu á lofti um afturför í tengslum við hagsmunastarf ungmennafélaga, en nýlega hafi Svíþjóð dregið úr starfi ungmennafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og Bretland hætt mikilvægum fjárhagsstuðningi til Landssambands ungmennafélaga þar í landi. ,,Þetta er auðvitað mannréttindamál í grunninn og að draga úr áhrifum ungs fólks og rödd þeirra er mikilvæg aðför að lýðræðinu”, segir Birta. Það sé mikilvægt að Ísland fari ekki sömu leið og hvetur hún íslensk stjórnvöld til þess að tryggja og efla enn frekar raunverulega og inngildandi aðkomu allra ungmenna að ákvarðanatöku og stefnumótun sem þau varða.

Sendinefnd Íslands á 68. Kvennanefndarfundi SÞ í New York í mars.
*Ungmennafulltrúar Íslands skipa sendinefnd Landssambands ungmennafélaga (LUF) hjá Sameinuðu þjóðunum. Ungmennafulltrúar eru lýðræðislega kjörnir af aðildarfélögum LUF og sækja viðburði Sameinuðu þjóðanna í umboði íslenskra ungmenna. Fræðast má um fleiri ungmennafulltrúa hér.
Sendinefnin er samstarfsverkefni LUF og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem vinna að aukinni þátttöku Ungmennafulltrúa Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme.) Ungmennafulltrúarnir sækja viðburði í samstarfi eftirfarandi ráðuneyti: Forsætisráðuneytið, umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, utanríkisráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk menningar- og viðskiptamálaráðuneytisins.

Miklir möguleikar í þekkingarmiðlun og samstarfi UNESCO-skóla á alþjóðavísu

Norrænn fundur Félaga Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs

Dagana 3-5. apríl var haldinn árlegur norrænn fundur Félaga Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Á fundinum hitta norrænu félögin helstu samstarfsstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa í UN City og ræða áherslur í starfi þeirra á árinu og samstarf í tengslum við útgáfur skýrslna, þátttöku í herferðum og almennri kynningarstarfsemi.

Þær stofnanir SÞ sem Félagið á Íslandi á í mestu samstarfi við eru Mannfjöldasjóður SÞ (UNFPA), Þróunaráætlun SÞ (UNDP), Matvælaáætlun SÞ (WFP), Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR), Stofnun SÞ um jafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Barnahjálp SÞ (UNICEF).

Í þetta sinn voru einnig á dagskrá fundir norrænu Félaganna með Norðurlandaráði en á árinu 2024 er íslenski þingmaðurinn Bryndís Haraldsdóttir forseti Norðurlandaráðs. Með henni í för var Kristína Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og ræddu Félögin um framtíðar möguleika samstarfs og samvinnu á hinum ýmsu sviðum. Að fundi loknum héldu framkvæmdastjóri og formaður íslenska Félagsins á fund með Norðurlandaráði í UN City þar sem rætt var við fulltrúa frá Matvælaáætlun SÞ og Mannfjöldasjóð SÞ á Norðurlöndunum.

Mynd: FSÞ / Ulla Muller, skrifstofustjóri Mannfjöldasjóðs SÞ á Norðurlöndunum fer hér yfir áherslumál ársins 2024 hjá stofnuninni.
Mynd: FSÞ/ Kristína Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Helena Laukko, framkvæmdastjóri UNA Finland, Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs 2024, Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri UNA Iceland, Catharina Bu, framkvæmdastjóri UNA Norway og Torleif Jonasson, framkvæmdastjóri UNA Denmark.
Mynd. FSÞ/ Henrik Fredborg Larsen, framkvæmdastjóri Þróunaráætlunar SÞ á Norðurlöndunum fer hér yfir hlutverk stofnunarinnar í tengslum við þróun og frið.
Mynd: FSÞ/Emmi Sponholtz, Eva Harðardóttir, Vala Karen Viðarsdóttir, Ulla Muller, Bryndís Haraldsdóttir, Kristína Háfoss, Mette Strandlod og Helena Wacko.
Mynd: FSÞ/ Eva Harðardóttir, Kateriina, Kristína Háfoss, Bryndís Haraldsdóttir, Vala Karen Viðarsdóttir, Andreas Hansen og Lina Nesheim.
Mynd: FSÞ/ UNOPS (United Nations Office for Project Services) eru með höfuðstöðvar sínar í UN City í Kaupmannahöfn og kynntu þau starfsemi sína fyrir norrænu félögunum.

Heimsmarkmið mánaðarins – ný verkefni á kennsluvef UNESCO-skóla

Við kynnum til leiks nýjan lið í skólaverkefnabanka UNESCO-skóla: Heimsmarkmið mánaðarins.

Í hverjum mánuði fram á næsta ár kemur inn nýtt skólaverkefni um hvert og eitt heimsmarkmiðanna þar sem kennurum og nemendum gefst tækifæri til þess að taka fyrir eitt markmið og kafa aðeins dýpra. Heimsmarkmið mánaðarins er ætlað að skapa umræðu í kennslustofunni og hentar að taka það fyrir meðal nemenda sem eru að kynnast heimsmarkmiðunum, en einnig fyrir lengra komna.

Verkefnin henta fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.

Nú þegar hafa verkefni verið gefin út í janúar, febrúar og mars og má nálgast þau og öll önnur verkefni á kennsluvef UNESCO-skóla hér.

Íslensk ungmenni á ráðstefnu í Helsinki

Dagana 11-13. mars hélt hópur íslenskra ungmenna undir handleiðslu Félags Sameinuðu þjóðanna til Helsinki á opnunarráðstefnu norræns ungmennaverkefnis sem er samvinna milli Félags SÞ í Finnlandi, Svíþjóðar og Íslands. ‘Hæft ungt fólk hvetur til heildrænnar nálgunar á sjálfbærri þróun og grænum umskiptum’ er heiti verkefnisins sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnið miðar að því að ungmennin fræðist um sjálfbæra þróun og mannréttindi, eftirlits- og skýrslugjafarkerfi innan SÞ og í viðkomandi Norðurlöndum. Þá er lagt sérstaka áherslu á að ungmennin öðlist færni til þess að leggja markvisst af mörkum til landrýniskýrslna (Voluntary National Reviews), annað hvort sem hluta af skýrslu stjórnvalda eða í skuggaskýrslum borgarasamfélagsins, sem taka mið af stöðu innleiðingar heimsmarkmiðanna.

Í verkefninu koma saman ungmennafulltrúar Félaga SÞ, ungmennafulltrúar hjá SÞ og önnur virk ungmenni frá Finnlandi, Svíþjóð, Íslandi og Eistlandi auk fulltrúa í ungmennaráði Sama.

Á opnunarráðstefnunni fóru fjögur íslensk ungmenni, þar af voru þrjú sérstaklega valin úr hópi umsækjenda og svo ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar. Þá var Hafdís Hanna Ægisdóttir, formaður Sjálfbærnistofnunar hjá Háskóla Íslands með opnunarerindi um smitáhrif (e. spillover effect) og mælingar á þeim í norrænum samanburði og hvað hægt sé að gera til þess að minnka þau en Sjálfbærnistofnun HÍ framkvæmdi úttekt að beiðni stjórnvalda í fyrra á smitáhrifum Íslands fyrir landrýniskýrslu Íslands en hana má lesa hér.

Mynd: FSÞ. Hafdís Hanna fjallaði um smitáhrif í opnunarerindi sínu þann 11. mars sl.

Hátt í 40 ungmenni tóku þátt í opnunarráðstefnunni sem stóð yfir tvo daga. Meðal annarra erinda á dagskrá var sérstök umfjöllun Félags SÞ á Íslandi um stöðumat borgarasamfélagsins í skýrslu stjórnvalda sem kynnt var í júlí sl. hjá SÞ, aðkomu ungmenna í íslensku skýrslunni og hvað má gera betur, hvernig landrýniskýrslur geta haft áhrif á alþjóðlega stefnumótun og að lokum erindi um græn umskipti og áhrif þeirra á samfélag Sama í Finnlandi.

Næst verða tveir viðburðir haldnir í lok apríl og júní þar sem ungmennin fá frekari fræðslu, tæki og tól í hendurnar til þess að vinna áfram verkefnið og verður það haldið af Félagi SÞ í Mannréttindahúsinu og verða þær vinnustofur opnar áhugasömum ungmennum. Í haust lýkur svo verkefninu á lokaráðstefnu í Eistlandi.

Mynd: FSÞ / Frá vinstri: Þórhildur Söebech, Íris Sævarsdóttir, Sara Júlía Baldvinsdóttir (ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar) og Lára Portal.
Mynd: FSÞ / Fulltrúar úr ungmennaráði Sama í Finnlandi halda erindi.
Mynd: FSÞ / Sara Júlía, ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar.

Ákall Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs

Í ljósi sífellt versnandi aðstæðna á Gaza svæðinu, kallar Félag SÞ á Íslandi eftir því að íslensk stjórnvöld hefji greiðslur að nýju til UNRWA ásamt því að þau beiti sér fyrir tafarlausu og langvarandi vopnahléi svo mannúðaraðstoð berist fólki í neyð með öruggum hætti.

Frá hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október 2023 hafa yfir 30.000 Palestínumanna verið drepnir, þar af eru börn og konur í meirihluta. Rúmlega 1.9 milljón manna eru á flótta innanlands og hafast nú við á afmörkuðu svæði þar sem heilbrigðisaðstoð, hreint drykkjarvatn og matur er af lífshættulega skornum skammti. UNRWA er hryggjarstykkið í öllu mannúðarstarfi á Gaza og því mikilvægt að styðja við störf stofnunarinnar með beinum hætti líkt og Evrópusambandið hefur nú ályktað um með auknu fjárframlagi.

Við hvetjum meðlimi Félags SÞ og almenning í landinu til að sameinast í ákalli okkar til stjórnvalda um að styðja við starfsemi UNRWA og kalla eftir tafarlausu og langvarandi vopnahléi á svæðinu svo hægt sé veita fólki lífsbjargandi mannúðaraðstoð.

Nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda kosinn á Sambandsþingi LUF

Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, 24 ára Akureyringur sem stundar bachelornám í mannréttindafræði við Háskólann í Malmö var um síðustu helgi kosinn nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda.  Kosningin fór fram á Sambandsþingi Landssambands Ungmennafélaga (LUF) en þar sem hún var í framboði fyrir hönd Samband íslenskra nemenda erlendis (SÍNE), sem er eitt 42 aðildafélaga LUF.

Mynd: SSJ. Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir var kosin nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda á Sambandsþingi LUF þann 24. Febrúar sl.

Stefanía Sigurdís er um þessar mundir að vinna að lokaritgerðinni sinni við háskólann í Malmö þar sem hún hlaut nýlega skólastyrk til að ferðast til Malasíu og framkvæma eigin rannsókn en hún hyggst flytja aftur heim til Íslands í sumar. Hún hefur að eigin sögn verið afar virk í kvenréttinda- og femínista umræðu á Íslandi áður en hún hóf námið úti. Einnig hefur hún skrifað greinar fyrir Jafnréttisstofu og aðra miðla um jafnrétti á Íslandi, þar á meðal var hún annar stjórnanda sjónvarps- og podcast þáttanna ‘VAKNAÐU‘ sem framleiddir voru af sjónvarpstöðinni norðlensku, N4, þar rætt var við ýmsa gesti um margs konar hliðar jafnréttis á Íslandi. Þá hlaut Stefanía Sigurdís jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar árið 2019.

Hún kveðst spennt fyrir að taka við þeim mikilvægu verkefnum sem fylgja því að vera ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda og segist vilja leggja sig alla fram við að koma skoðunum og athugasemdum ungmenna á framfæri í tengslum við málaflokkinn.

Kynningarfundur um ungliðastöður á vegum SÞ haldinn þann 27. Febrúar

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi ásamt utanríkisráðuneytinu bjóða til kynningarfundar um ungliðastöður á vegum Sameinuðu þjóðanna á morgun, 27. febrúar. Linkur á fundinn er aðgengilegur á Facebook viðburði fundarins.

Fundurinn verður rafrænn og hefst hann kl. 12:00.

Dagskrá fundarins er svohljóðandi:

12:00 – 12:10 Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, er fundarstjóri og opnar fundinn.
12:10 – 12:20 Lisa Fialla Andresen, sérfræðingur hjá þjónustumiðstöð ungliðaverkefnis Sameinuðu þjóðanna (e. JPO Service Centre)
12:20 – 12:30 Urður Ásta Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá World Food Programme (WFP) í Síerra Leóne. Urður gegnir stöðu ungliða hjá landsskrifstofu WFP í Síerra Leóne. Hún hefur verið ungliði frá því haustið 2023 og mun segja stuttlega frá sinni reynslu fram til þessa.
12:30 – 12:40 Ásdís Bjarnadóttir, forstöðumaður, sendiskrifstofa Íslands í Freetown í Síerra Leóne. Ásdís er fyrsti forstöðumaðurinn í nýrri sendiskrifstofu Íslands í Síerra Leóne og mun hún segja frá helstu verkefnunum og lífinu í Freetown.
12:40-13:15 Spurningar og svör

Að fundinum loknum mun upptaka verða aðgengileg á Youtube rás Félagsins.