Grunnskóli Bolungarvíkur er 18. UNESCO-skólinn á Íslandi

Grunnskóli Bolungarvíkur er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 18 talsins, einn leikskóli, sjö grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

Nemendur í Grunnskóla Bolungarvíkur standa hér með viðurkenninguna sem skólinn fékk á dögunum.

Í Grunnskóli Bolungarvíkur eru um 130 nemendur af þremur þjóðernum. Skólinn hefur verið að vinna að ýmsum málefnum sem falla vel undir UNESCO-skóla, eins og að halda nemendaþing, fara í heimsóknir á Alþingi og vera með jafnréttisáætlun. Þá hefur skólinn látið sig umhverfismál varða. Nemendur á unglingastigi skólans lentu í 2. sæti í samkeppninni Umhverfisfréttafólk sem Landvernd stóð fyrir í maí síðastliðnum. Verkefnið, Electronic Waste, fjallar um lélega nýtingu á raftækjum og hve lítill hluti þeirra er endurunninn. Auk þess komst annað verkefni nemenda skólans í undanúrslit í keppninni en það fjallaði um matarsóun í skólanum.

UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

Velkominn í hópinn Grunnskóli Bolungarvíkur!

Námskeið fyrir kennara um heimsmarkmiðin

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stendur fyrir námskeiði fyrir kennara um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þann 10. ágúst næstkomandi.

Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið. Það hefur fengið góðar umsagnir kennara og færri komist að en vildu.

Endilega skráið ykkur á þetta spennandi og áhugaverða námskeið!

„Heimsmarkmiðin“ og ég í Háskóla unga fólksins í sumar

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stendur fyrir námskeiðinu “Heimsmarkmiðin og ég” í Háskóla unga fólksins í sumar og hvetjum við öll hugvitssöm og snjöll ungmenni til að skrá sig. Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Kristrún María Heiðberg, kennari og verkefnastjóri UNESCO-skóla munu leiða námskeiðið.

Skólinn stendur yfir dagana 12.-16. júní og er opinn öllum ungmennum á aldrinum 12-14 ára. Árgangar 2009, 2010 og 2011 geta skráð sig, þ.e. nemendur í 6. – 8. bekk.

Opnað verður fyrir skráningu í Háskóla unga fólksins í dag kl. 𝟏𝟓:𝟎𝟎. Háskóli unga fólksins hefur fyllst fljótt eftir að opnað hefur verið fyrir skráningar og væri því best að skrá sig sem allra fyrst!

 

Skráning fer fram hér.

 

Mennta- og barnamálaráðherra afhent verkefni úr Heimsins stærstu kennslustund

Kristrún, verkefnastjóri UNESCO-skóla, Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra ásamt Írisi og Þresti við afhendingu niðurstaðna úr heimsins stærstu kennslustund þann 3. mars.

Tvö ungmenni frá Ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, þau Íris Sævarsdóttir og Þröstur Flóki Klemensson, áttu fund með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í dag 3. mars og afhentu honum verkefni nemenda sem unnin voru í Heimsins stærstu kennslustund 6. des. 2022.

Fulltrúar ungmennaráðs heimsmarkmiðanna sem stjórnuðu kennslustundinni í desember ræða við ráðherra og starfsfólk ráðuneytisins um niðurstöður hennar.
Kristrún, verkefnastjóri UNESCO-skóla, Ásmundur Einar mennta- og barnamálaráðherra ásamt Írisi og Þresti við afhendingu niðurstaðna úr heimsins stærstu kennslustund þann 3. mars.

Heimsins stærsta kennslustund (e. World Largest Lesson) er árlegt átak sem snýr að kennslu á heimsmarkmiðunum og er styrkt af UNESCO. Markmiðið er að efla vitund nemenda og hvetja þá til aðgerða er kemur að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á loftslagsmál og hvernig ungt fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum. Áherslan í ár er á raddir barna og heimsmarkmið nr. 4 um menntun fyrir alla.

Heimsins stærsta kennslustund var haldin í Landakotsskóla. Það voru nemendur í 8. bekk sem unnu verkefni er snýr að röddum barna og heimsmarkmiði nr. 4 – Menntun fyrir alla. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, tóku þátt í kennslustundinni og fluttu ávörp þar sem þau ræddu m.a. um mikilvægi menntunar og að hlustað sé á raddir barna. Agnes, Íris og Þröstur frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Frá Heimsins stærstu kennslustund þann 6. desember sl. Eliza Reid forsetafrú ásamt nemendum í Landakotsskóla, Kristrúnu verkefnastjóra UNESCO skóla og fulltrúum Ungmennaráðs heimsmarkmiðanna, þeim Írisi, Agnesi og Þresti.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, friði og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið SÞ, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í innleiðingarferli.

Skemmtilegt verkefni um lýðræði og heimsmarkmiðin

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FIV) hélt upp á viðburðaríkan dag 23. janúar s.l. um lýðræði og tengdi það við heimsmarkmiðin. Nemendur veltu fyrir sér hugtakinu lýðræði og hvernig það birtist í ýmsum myndum s.s. í friði og réttlæti, frelsi, menntun, sögunni og Íslandi. Einnig var farið yfir ýmsar tímalínur tengdar efninu.

 

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum varð UNESCO-skóli í lok síðasta árs og byrjar aldeilis vel með þessu metnaðarfulla og flotta verkefni.

Hefðbundinn skóladagur var brotinn upp og því engar formlegar kennslustundir í gangi þennan dag. Allir kennarar/starfsfólk og nemendur skólans tóku sig til og unnu að verkefnum dagsins um lýðræði. Nemendum var skipt í stöðvar, alls sex talsins, og hver stöð var með ákveðið málefni t.d. var ein stöðin teikni/meme/kahoot stöð á meðan önnur hét Unesco stöð. Hinar stöðvarnar voru: Hvað er lýðræði, Saga lýðræðis á Íslandi, Mannréttindi (og mismunandiupplifun á frelsi), Saga lýðræðiskosninga í Evrópu (tímalínur).

Skólinn  bauð svo nemendum og starfsfólki upp á pizzur í hádeginu og fengu nemendur að keppa sín á milli í kahoot ásamt því að hengja upp plakötin sín og myndir um afrakstur dagsins til sýnis.  

Dagurinn endaði svo á heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta ásamt Írisi Róbertsdóttur bæjarstýru Vestmannaeyja. Dagurinn þótti takast fram úr vonum og gaman að fá sjálfan forsetann í heimsókn og ræða um lýðræði. Þennan dag voru einmitt 50 ár síðan gosið í Heimaey var og var því tilvalið að hafa daginn öðruvísi og viðburðaríkan.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson ræðir hér við nemendur í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

 

Til hamingju FIV með þetta flotta verkefni!

Fundað um skólaverkefni

Árið 2022 var settur á laggirnar samráðsvettvangur að frumkvæði mennta-og barnamálaráðuneytisins um skólaverkefni Landverndar, UNICEF og Félags Sameinuðu þjóðanna. Verkefnin sem um ræðir hafa mikil samlegðaráhrif og því var ákveðið að leita leiða til að auðvelda skólum innleiðingu á viðkomandi verkefnum. Hópurinn fundaði aftur í lok síðasta árs og er stefnan að halda þeirri vinnu áfram.

Félag Sameinuðu þjóðanna er með UNESCO skólaverkefnið, Landvernd er með verkefnið Skólar á grænni grein og UNICEF er með Réttindaskólana. Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir öll verkefnin með samstarfssamningum.

Á myndinni má sjá fulltrúa frá Félagi Sameinuðu þjóðanna, Landvernd og UNICEF,  ásamt sérfræðingum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.

FSU er 17. UNESCO-skólinn á Íslandi

Nemendur FSU með UNESCO-skírteinið.

Fjölbrautaskóli Suðurlands, FSU, er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

FSU hefur verið með sérstaka áfanga í boði um heimsmarkmiðin sem allir nýnemar skólans verða að taka. Á haustönn er um að ræða áfanga sem snýr að félagslegu heimsmarkmiðunum og á vorönn áfanga er snýr að umhverfismálum.

Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla hélt fyrirlestur um heimsmarkmiðin fyrir nemendur skólans ásamt því að funda með stjórnendum og starfsfólki skólans um UNESCO-skóla. Í kjölfarið var ákveðið að sækja um UNESCO aðild.

UNESCO –skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12.000 talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

Velkominn í hópinn FSU!

Nemendur FSU með UNESCO-skírteinið.

Heimsins stærsta kennslustund

Heimsins stærsta kennslustund var formlega sett af stað í Landakotsskóla 6. des. síðastliðinn. Eliza Reid forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, héldu erindi um menntun. Fulltrúar frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ stýrðu kennslustundinni.

Heimsins stærsta kennslustund er verkefni sem miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka vitund nemenda um alþjóðamál og sjálfbærni. Þemað að þessu sinni er heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla.

Hvatt er til þess að allir grunnskólar landsins taki þátt í Heimsins stærstu kennslustund með því að nýta sér námsefni um heimsmarkmið 4, sem finna má á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, https://www.un.is, undir Heimsins stærsta kennslustund 2022.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, frið og mannréttindum.

UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

Kærar þakkir Þröstur, Íris og Agnes úr Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ og takk frábæru nemendur í 8. bekk í Landakotsskóla!

 

Þröstur, Agnes og Íris frá Ungmennaráði heimsmarkmiða SÞ ásamt Elizu forsetafrú og verndara Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra UNESCO-skóla á Íslandi.

 

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hélt erindi um menntun og kom m.a. inn á móttöku flóttabarna. Hann sagði mikilvægt að íslenskt skólakerfi tæki vel á móti þeim.

 

 

 

Heimsins stærsta kennslustund 2022

Ákall til grunnskóla landsins um að taka þátt í:

Heimsins stærsta kennslustund

Heimsins stærsta kennslustund er verkefni sem miðar að því að efla fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka vitund nemenda um alþjóðamál og sjálfbærni. Þemað að þessu sinni er heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla.

Hvatt er til þess að allir grunnskólar landsins taki þátt í Heimsins stærstu kennslustund með því að nýta sér námsefni um heimsmarkmið 4, sem finna má á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, https://www.un.is, undir Heimsins stærsta kennslustund 2022.

UNESCO-skólaverkefnið er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, en eitt forgangsmála verkefnisstjórnar sem vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi er að efla menntun og fræðslu þegar kemur að sjálfbærni, frið og mannréttindum. UNESCO-skólar eru um 12 þúsund talsins um heim allan í yfir 180 löndum. Áhersluatriði þeirra eru friður og mannréttindi, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamstarf og starfsemi SÞ. UNESCO-skólar á Íslandi eru nú 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

Það er von okkar að allir grunnskólar taki þátt í Heimsins stærstu kennslustund og að öll börn fái innsýn í þessi mikilvægu markmið Sameinuðu þjóðanna til framtíðar.

Kennsluleiðbeiningar-2022           Kennslustundin-2022

Ef spurningar vakna um fyrirkomulag, námsefni, útfærslur eða UNESCO-skóla má hafa samband við Kristrúnu Maríu Heiðberg, verkefnastjóra hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna, kristrun@un.is

 

Verzló er 16. UNESCO – skólinn á Íslandi

Verzlunarskóli Íslands er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 16 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og níu framhaldsskólar.

Nemendur á 1. ári í Verzló unnu nýlega metnaðarfullt þróunarverkefni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Um var að ræða samþættingarverkefni í ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkun. Í upphafi verkefnisins hélt Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla, fyrirlestur um heimsmarkmiðin og fékk að fylgjast með vinnu nemenda. Þegar verkefnið var komið lengra á veg kom Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í heimsókn til nemenda og ræddi við þá um menntun og heimsmarkmiðin. Nemendur notuðu einnig tækifærið og tóku viðtal við Ásmund Einar, m.a. um heimsmarkmið nr. 4.

Nemendur ræða við Ásmund Einar Daðason, mennta – og barnamálaráðherra, um menntun og heimsmarkmiðin.

UNESCO –skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12.000 talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim. UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

Velkominn í hópinn Verzló!