Menningarmálastofnun Sameinðu þjóðanna, UNESCO, setti á dögunum nýjan umsóknar og yfirlitsvef fyrir ASPnet (UNESCO Associated Schools Network) skólana í loftið.
Vefurinn er mikið fagnaðarefni fyrir ASPnet skólana. Með því að að gera umsjónaraðilum og skólafólki kleift að tengjast þvert yfir höfin á auðveldan hátt, gerum við ráð fyrir að verkefnið styrkist. Hægt er að sjá alla þátttökuskóla ASP-netsins og sía eftir staðsetningu, skólastigi og þemum sem þau vinna með. Verkefnastjóri Félags Sþ vinnur nú hörðum höndum að því að yfirfara og uppfæra upplýsingar um íslensku skólana, og kynna vefinn fyrir áhugasömum.
Ef þinn skóli hefur áhuga á því að verða UNESCO-skóli, endilega hafðu samband við Pétur Hjörvar (petur@un.is), verkefnastjóra hjá Félagi Sþ fyrir frekari upplýsingar. Umsóknarferlið er aðgengilegt á vefnum!
Skólar á Reykjanesi sýna mikinn vilja til að bætast í hóp UNESCO skóla á Íslandi
Þann 4. september 2024 var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll um innleiðingu UNESCO-skóla í alla skóla á Reykjanesi. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjvettvangi.
„Sjálfbærni er sameiginlegt viðfangsefni allra sem íbúar á þessari jörð og mun verða um fyrirsjáanlega framtíð. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna setja skýran ramma utan um þau mikilvægu verkefni og áskoranir sem við stöndum frami fyrir til þess að komandi kynslóðir njóti velsældar og sjálfbærni sé tryggð. Jafnrétti, réttlæti, friður og virðing fyrir umhverfinu er á ábyrgð okkar alla og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að ná árangri á þessum sviðum.“
Þannig hefst viljayfirlýsing um að hefja UNESCO-skóla umsóknarferlið á næstu tveimur árum, sem 16 skólar af Reykjanesi hafa nú þegar skrifað undir.
Hugmyndin að þessu metnaðarfulla verkefni kemur frá Suðurnesjavettvangi sem er samstarfsvettvangur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Suðurnesjum. Að Suðurnesjavettvangi standa Samband sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Kadeco og Isavia ásamt öllum sveitarfélögunum fjórum á Suðurnesjum. Þá er Reykjanes jarðvangur einnig samstarfsaðili verkefnisins og leggur til verkefnastjóra sem mun styðja skólana á svæðinu með hlutlausum vettvangi fyrir samvinnu og tengslamyndun þvert á skóla, skólastig og sveitarfélög.
Til þess að varða leiðina að sjálfbæru samfélagi er skólasamfélagið á Reykjanesi nú að taka stórt skref með því að sýna samstöðu og vilja til samstarfs um innleiðingu heimsmarkmiðanna. Sú sameiginlega vegferð hófst á fundinum þar sem margir skólar skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis að gerast UNESCO-skóli innan tveggja ára og allir aðilar tengdir Suðurnesjavettvangi skrifuðu undir yfirlýsingu um að styðja þessa innleiðingu eftir bestu getu.
UNESCO-skólar starfa bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi með þrjú skýr forgangsverkefni eða megin þemu, þau eru: menntun í þágu sjálfbærrar þróunar með því að fræða um heimsmarkmiðin, menntun sem eflir hnattræna borgaravitund og menningu friðar, og svo að efla þvermenningarlega þekkingu og mikilvægi arfleiðar. UNESCO-skólar vinna þannig sérstaklega með heimsmarkmið 4.7 að leiðarljósi með því að efla skóla til að knýja fram nýsköpun fyrir hnattræna borgaravitund, þvermenningarlegan skilning og sjálfbærni, efla alþjóðlega samvinnu og samstarf, auka þekkingarmiðlun og samstarf milli landa og skóla og byggja upp getu til að auka fjölbreytni í kennsluaðferðum, td. með þátttökunámi, sem hluti af heildrænni nálgun í skólum.
Þverfagleg verkefni UNESCO-skóla nýtast í ýmsum kennslustundum og passa vel inni í grunnþætti aðalnámsskrár leik- grunn- og framhaldsskóla. Flestir skólar vinna í dag fjölmörg verkefni tengd heimsmarkmiðunum á hverju starfsári, svo það að gerast UNESCO-skóli er að miklu leyti staðfesting á því góða starfi og yfirlýsing um að vilja bæta í sambærileg verkefni á komandi árum.
Mynd / Daníel Einarsson – Reykjanes Geopark
Sigrún Svafa Ólafsdóttir er verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland segir að fundurinn í Hljómahöll hafi farið fram úr björtustu vonum.
„Það er alveg frábært að sjá hve margir ætla að vera með og voru tilbúin að skrifa undir viljayfirlýsingu strax. Ég fékk þetta skemmtilega verkefni upp í hendurnar sem mitt fyrsta verk sem verkefnastjóri fræðslumála hjá jarðvanginum. UNESCO-skóla verkefnið er frábært verkfæri til að mynda góð tengsl við alla skólana, á öllum skólastigum í öllum sveitarfélögunum á Reykjanesinu. Ég hef verið að vinna mikið með kennurum úr öllum skólum á svæðinu í ýmsum Evrópuverkefnum sem GeoCamp Iceland hefur haldið utan um, í samstarfi við til dæmis Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanes Jarðvang. Í þeirri vinnu hefur komið mjög skýrt í ljós að þörf fyrir aukna samvinnu milli skóla er mikil og hvað öflugt tengslanet kennara getur skilað miklu inn í skólastarfið. Ég er mjög spennt fyrir næstu skrefum, skólar hér á svæðinu eru allir að gera svo frábæra og spennandi hluti. Það að taka þátt í UNESCO-skóla uppbyggingunni verður vonandi eingöngu til þess að gera alla flottu vinnuna þeirra enn sýnilegri í samfélaginu. Margir skólar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að fara af stað með þetta verkefni á næstu 2 árum og ég veit að hinir skólarnir eru að ígrunda þetta, það er alltaf hægt að bætast við og enginn er að missa af tækifærinu. Það stendur misvel á hjá skólum og mikilvægt að starfsfólk skólanna taki sameiginlega ákvörðun með hjartanu að fara af stað í þetta verkefni. Okkar von er sú að allir skólar á svæðinu sláist í hópinn á næstu 2 árum. Umfang verkefnisins er mikið, á Íslandi eru í dag samtals 21 UNESCO skólar en ef allir skólar á Reykjanesi taka þátt, bætast 28 skólar við þá tölu. Til að þetta gangi vel er mikilvægt að samfélagið allt standi með okkur í þessu og því dýrmætt að nú þegar hafa margir stórir aðilar á svæðinu lýst því yfir að þau eru tilbúin til að styðja við þetta verkefni eftir bestu getu. Við í undirbúningsteyminu gætum bara ekki verið ánægðari með viðbrögðin við þessari metnaðarfullu hugmynd!“
Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi var þátttakandi á fundinum. Hún var himinlifandi yfir viðbrögðunum og talaði um að þessi samvinna um heimsmarkmiðin væri einstök.
„Þetta verkefni er til fyrirmyndar fyrir annað svæðisbundið samstarf og samfélög á landinu sem vilja vinna að sjálfbærri þróun með því að efla staðbundna þekkingu og hnattræna vitund barna og ungmenna, en efling hnattrænnar borgaravitundar er einmitt eitt af meginmarkmiðum UNESCO-skólanetsins“.
Rafræn vinnustofa fyrir ungt fólk verður haldin mánudaginn 2. september kl. 17:00-18:00.
Á vinnustofunni mun ungt fólk ræða hugmyndir og ráðleggingar hvernig hægt sé að beita hagsmunagæslu til þess að stuðla að heildrænni umbreytingu í þágu sjálfbærrar þróunar. Stuðst verður við gögn sem ungt fólk og borgarasamfélagið á Íslandi lagði fram í landrýniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna árið 2023.
Vinnustofan er hluti af Norden 0-30 samstarfsverkefni Félaga Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð ásamt Sillamae samtökunum í Eistlandi með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni,
Vinnum saman!
Skráning á vinnustofuna fer fram hér . Eftir skráningu fá þátttakendur sendan Teams link.
Hátt í 30 kennarar tóku þátt í námskeiði sem haldið var á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 14. ágúst sl. sem bar heitið ‘Að vekja ungt fólk til hnattænnar borgaravitundar‘. Þetta er í fjórða sinn sem námskeið er haldið af hálfu félagsins, en því er ætlað fyrir kennara á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi.
Metþátttaka var að vanda og komust færri að en vildu. Í ár var snið og áherslur námskeiðsins aðeins breytt og tekið var betur utan um mikilvægi þess að fjalla um störf og gildi Sameinuðu þjóðanna í námi og kennslu barna og ungmenna. Kennarar á námskeiðinu voru Eva Harðardóttir, lektor við deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður félagsins, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.
,,Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel. Kennarahópurinn sem sótti námskeiðið í ár samansafn af kraftmiklu, áhugasömu og skapandi fólki sem öll eru að vinna ötullega að verkefnum í anda sjálfbærni og heimsmarkmiða í skólum um allt land. ” segir Eva.
Þorvarður Atli Þórsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins og stjórnarmeðlimur félagsins tók einnig að sér að halda utan um örútgáfu af hermilíkani, sem byggist á hermilíkani Sameinuðu þjóðanna (e. Model United Nations). MUN er vettvangur þar sem nemendur koma saman og setja á svið starfsemi helstu stofnanna Sameinuðu þjóðanna á sem raunverulegastan hátt og takast á við aðkallandi vandamál í alþjóðasamfélaginu. Þátttakendum námskeiðsins var þannig deilt niður á sex lönd og voru kennararnir sendifulltrúar þeirra ríkja og þurftu að koma sér saman um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu flóttafólks í heiminum í dag. Þessi æfing kom af stað frábærum umræðum um fjölbreyttar leiðir til að ræða og vinna með hnattrænar áskoranir og málefni sem snerta okkur öll á ólíkan hátt í heiminum í dag.
Námskeiðið og hermilíkanið gekk vonum framar en félagið stefnir að því á komandi misserum að endurvekja Iceland MUN sem legið hefur í dvala um nokkurt skeið. Er það hluti af stefnu sem stjórn setti sér í fyrra að auka umsvif verkefna með ungu fólks, og efla og auka áhuga þeirra á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu.
Starfsfólk og stjórn félagsins þakkar kennurunum sérstaklega fyrir jákvæðni, hugrekki og gleði sem einkenndi vinnuna og námskeiðið í heild. Við hlökkum til að sjá meira af þeim og þeirri vinnu sem þau eru að sinna í skólum landsins.
Mynd / FSÞ Hluti kennara sem sóttu námskeiðið.Mynd / FSÞ – Þorvaður útskýrir hermilíkanið fyrir kennurunum. Þorvarður var í hlutverki forseta mannréttindaráðsins og stýrði umræðum ríkjanna.
Pétur Hjörvar Þorkelsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri kynningar- og fræðslu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Alls sóttu 123 um starfið sem auglýst var á Alfreð í byrjun maí.
Um ræðir nýja stöðu innan félagsins sem felur í sér að auka þekkingu og skilning almennings á málefnum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamvinnu með kynningu og miðlun efnis. Einnig tekur Pétur við ábyrgð og umsjón með íslenska UNESCO-skóla staðarnetinu af Kristrúnu Maríu Heiðberg, sem leitt hefur verkefnið síðustu ár. Pétur mun hefja störf þann 1. Október næstkomandi.
Pétur Hjörvar Þorkelsson.
Starfað fyrir UNICEF frá 2018
Pétur mun í nýju hlutverki samþætta kynningu- og fræðslu Félags Sameinuðu þjóðanna með sérstaka áherslu í skóla og ungmennaverkefnum, en umsvif slíkra verkefna hefur stóraukist innan starfsemi félagsins síðustu misseri. Pétur hefur komið að fræðslu og skóla- og ungmennastarfi í yfir áratug og kemur því með mikla þekkingu til félagsins. Hann er menntaður mannfræðingur frá Háskóla Íslands og með M.Ed. gráðu í Menntunarfræðum og margbreytileika, með veigamikla þekkingu á Sameinuðu þjóðunum og fræðslu- þróunar- og skólastarfi. Hann hefur meðal annars starfað sem götukynnir hjá Landsnefnd UN Women, unnið á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og verið aðstoðarrannsakandi- og kennari við Háskóla Íslands.
Síðustu sex árin hefur hann starfað fyrir UNICEF, fyrst hjá íslensku landsnefndinni í fjögur ár sem sérfræðingur í réttindum og þátttöku barna þar sem hann leiddi starf réttindaskóla og þróun og rekstur ungmennaráðs UNICEF. Frá því í september 2022 hefur Pétur starfað á landsskrifstofu UNICEF í Naíróbí, Kenía, þar sem hann hefur unnið á sviði félags- og hegðunarbreytinga (e. Social and Behavioral Change) í tengslum við loftslagsmál og vatns- og hreinlætismál. Helstu verkefni sem hann vann á þeim sviðum sneru að þátttöku ungmenna í aðlögun að áhrifum hamfarahlýnunar, hagnýtum rannsóknum á mannlegri hegðun og hönnun verkefnis í kóleruforvörnum.
Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er haldinn í annað sinn á Íslandi þann 25. september nk. UN Global Compact og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að deginum hér á landi.
Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að fyrirtæki, stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök, skólar og sveitarfélög um allan heim, sýni skuldbindingu sína við heimsmarkmiðin og aðgerðirnar sem þau krefjast.
Hverjir geta tekið þátt?
Fyrirtæki, stofnanir, skólar, samtök og sveitarfélög sem eru aðilar að UN Global Compact og/eða hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í rekstur sinn geta tekið þátt í framtakinu. Vinsamlega skráðu þátttöku hér.
Panta fána
Til að lágmarka kolefnisfótspor eru fánarnir prentaðir á Íslandi. Fáninn kostar 22.500 kr. stk. og er sendingarkostnaður innifalinn í verðinu.
Stærð fána er 150x100cm og passar á 6m fánastöng með krækju að ofan og neðan. Texti er á íslensku.
ATH. Skólar fá afslátt á fánunum, endilega hafið samband við felag@un.is til þess að panta fána.
Mynd/ ISAVIA – Frá fyrsta fánadeginum, 2023.
Deildu þátttökunni
Þann 25. september n.k. eru þátttakendur hvattir til að deila þátttöku sinni í fánadegi heimsmarkmiðanna á eigin miðlum. Leiðbeiningar (e. toolkit) með tillögum að texta, #merkingum, myndefni o.fl. verða sendar þegar þátttaka hefur verið staðfest.
Að vekja ungt fólk til hnattrænnar vitundar: heimsmarkmiðin og Sameinuðu þjóðirnar er námskeið fyrir kennara á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem fer fram miðvikudaginn 14. ágúst, á milli klukkan 13 og 16, í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð.
Á námskeiðinu, sem ætlað er fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, verður unnið með námsefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að styðja við þekkingu nemenda á starfsemi SÞ á sviði mannréttinda, friðar og sjálfbærrar þróunar.
Kennarar á námskeiðinu eru Eva Harðardóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ) og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri FSÞ á Íslandi.
Námskeiðsgjald er kr. 7.500. Skráning sendist á vala@un.is. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og heimsmarkmiðanælu.
Á dögunum tók Félag Sameinuðu þjóðanna á móti UNESCO-skólanum Menntaskólanum á Tröllaskaga. Með þeim í för voru nemendur og kennarar frá vinaskóla þeirra, framhaldsskólasem staðsettur er í Alcoy, Alicante. Höfðu nemendurnir þá vikuna dvalið á Ólafsfirði þar sem þau voru meðal annars að þróa Erasmus skólaverkefni saman frá grunni.
Formaður Félagsins, Eva Harðardóttir, tók á móti hópnum og ræddi við nemendur hvernig skólarnir geta unnið meira sín á milli í tengslum við heimsmarkmiðin, en þau eru eitt af fjórum megin þemum UNESCO-skólaverkefnisins sem báðir skólarnir eru hluti af.
Meðal annars voru uppi hugmyndir um verkefni sem flétta saman staðbundna matarmenningu og matvinnslu í tengslum við sjálfbæra neyslu og framleiðslu, jafnrétti og frið.
Þá þótti kennurum spænska skólans mikið til þess koma hvernig Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, sem farið hefur fyrir UNESCO-skólaverkefninu hér á landi síðan 2015, fléttar ólíkum verkefnum tengdum ungmennum inn í þemu UNESCO-skólanna og hvernig skólarnir virka sem grundvöllur til þess að vinna á fleiri sviðum, meðal annars í tengslum við Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiðanna og Ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ.
UNESCO-skólaverkefnið, er eitt elsta skólanet í heimi en í því eru yfir 12.000 skólar í 182 löndum. Verkefnið styður sérstaklega við heimsmarkmið 4.7 sem miðar að því að styrkja skóla til þess að knýja fram nýsköpun í tengslum við heimsborgaravitund, þvermenningarlegan skilning og sjálfbærni, styrkja alþjóðlegt samstarf og samvinnu, þekkingarmiðlun og samstarf milli landa og skóla og að byggja upp frekari getu þeirra til nýsköpunar í kennslu og þátttökunámi, einkum með heildarskólanálgun (e. whole school approach).
Í dag eru 21 íslenskir UNESCO-skólar, einn leikskóli, sjö grunnskólar og þrettán framhaldsskólar. Hægt er að lesa nánar um UNESCO-skóla hér.
Mynd FSÞ/ Ida Semey, dönskukennari hjá MTR fer fyrir alþjóðlegum verkefnum skólans. Hún er tengiliður skólans við UNESCO-skólaverkefnið og leiddi spænska hópinn í ferð sinni um Ísland í síðustu viku.
Við kynnum til leiks nýjan lið í skólaverkefnabanka UNESCO-skóla: Heimsmarkmið mánaðarins.
Í hverjum mánuði fram á næsta ár kemur inn nýtt skólaverkefni um hvert og eitt heimsmarkmiðanna þar sem kennurum og nemendum gefst tækifæri til þess að taka fyrir eitt markmið og kafa aðeins dýpra. Heimsmarkmið mánaðarins er ætlað að skapa umræðu í kennslustofunni og hentar að taka það fyrir meðal nemenda sem eru að kynnast heimsmarkmiðunum, en einnig fyrir lengra komna.
Verkefnin henta fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.
Nú þegar hafa verkefni verið gefin út í janúar, febrúar og mars og má nálgast þau og öll önnur verkefni á kennsluvef UNESCO-skólahér.
Í gær, þann 29. janúar var verðlaunaafhending í samkeppni ungs fólks um mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi og frið haldin í Mannréttindahúsinu að Sigtúni 42.
Eliza Reid, forsetafrú og formaður dómnefndar veitti verðlaun í gær, 29. janúar fyrir þær framúrskarandi tillögur sem bárust í keppnina. Þess má einnig geta að Eliza hefur um nokkurra ára skeið verið verndari Félags Sameinuðu þjóðanna. Samkeppnin var haldin í tilefni af 75 ára afmælis FSÞ í fyrra en um ræðir endurvakningu á samkeppni sem Félagið stóð fyrir um árabil í blaði Æskunnar.
Alls bárust tæplega 40 frábærar tillögur í keppnina af öllu landinu frá nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi. Dómnefndin kaus að lokum með tveimur sigur tillögum og veitti þar að auki sex auka verðlaun.
Það voru þau Þröstur Flóki Klemensson, nemandi við Háteigsskóla með söguna sína um Anahi og Berglindi og Eybjört Ísól Torfadóttir, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík með smásögur sínar um heimsmarkmiðin sem báru sigur úr býtum í samkeppninni sem fjallaði um heimsmarkmiðin og mikilvægi þeirra fyrir mannréttindi og frið og í heiminum.
Þröstur Flóki og Eybjört Ísól unnu bæði flug og gistingu ásamt forráðamönnum sínum til New York með Icelandair að heimsækja fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna undir handleiðslu framkvæmdastjóra Félagsins, ásamt bókagjöf frá Angústúru.
Mynd/FSÞ. Eybjört Ísól Torfadóttir og Þröstur Flóki Klemensson sigurvegarar ásamt Elizu Reid, forsetafrú og formanni dómnefnar, og Evu Harðardóttur, formanni FSÞ.
Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, nemandi við Giljaskóla á Akureyri hlaut sérstök aukaverðlaun dómnefndar fyrir frábæra tillögu, Hvað ef allt hverfur? Í vinning hlaut hún 50.000 vildarpunkta frá Icelandair, Bose hátalara frá Origo, leikhúsmiða fyrir tvo frá Borgarleikhúsinu og bókagjöf frá Angústúru.
Fimm önnur ungmenni hlutu auka verðlaun fyrir frábærar tillögur en það voru þau Aldís Ögmundsdóttir, nemandi við Hagaskóla fyrir texta sinn um ‘Mikilvægi heimsmarkmiðanna’, París Anna Bergmann, nemandi við Menntaskólann á Akureyri með söguna sína ‘Það er alltaf hægt að breytast’, Ágúst Páll Óskarsson, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík, með hugleiðinguna sína ‘Vongóðar vangaveltur’, Þórey María E. Kolbeinsdóttir, nemandi við Álftanesskóla með ‘Hugleiðing um heimsmarkmiðin’ og Lilja Sól Helgadóttir, nemandi Menntaskólans í tónlist með prósaljóðið sitt, ‘Kvíði’. Öll fengu að launum bókagjöf frá Angústúru og aðgang að Storytel.
Dómnefnd skipuðu þau Eliza Reid, forsetafrú, formaður dómnefndar og verndari FSÞ, Eva Harðadóttir, formaður FSÞ, Guðni Sigurðsson, fulltrúi Icelandair, Rán Flygenring, mynd- og rithöfundur og Ómar Azfar Valgerðarsson Chattha, fulltrú barna- og ungmennaráðs heimsmarkmiða Sþ.
Mynd/Sigurður Bogi Sævarsson MBL. Dómnefnd ásamt öllum verðlaunahöfum, frá vinstri: Eva Harðardóttir, Eliza Reid, Eybjört Ísól Torfadóttir, Þröstur Flóki Klemensson, Ída Kolbrá Heiðarsdóttir, Aldís Ögmundsdóttir, Þórey María E. Kolbeinsdóttir, Lilja Sól Helgadóttir, Rán Flygenring, Guðni Sigurðsson og Ómar Azfar Valgerðarson Chattha. Á myndina vantar Ágúst Pál Óskarsson og París Önnu Bergmann.
Félag Sameinuðu þjóðanna þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur fyrir þátttöku í samkeppninni ásamt hamingjuóskir til allra verðlaunahafa. Þá fær dómnefnd sérstakir þakkir fyrir frábærlega vel unnin störf. Að lokum viljum við þakka því ómetanlega framlagi sem Icelandairgaf til samkeppninnar ásamt bókaforlaginu Angústúru. Origo, Borgarleikhúsiðog Storytel fá einnig sérstakir þakkir.