Flóaskóli er 15. UNESCO-skólinn á Íslandi

Nemendur í 7. og 10. bekk Flóaskóla með UNESCO skírteinið.  

Flóaskóli í Flóahreppi er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 15 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og átta framhaldsskólar.

Í skólastefnu Flóahrepps er lögð áhersla á að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en eitt af meginþemum UNESCO-skóla er vinna með heimsmarkmiðin. Auk þess leggja UNESCO-skólar áherslu á alþjóðasamvinnu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna og frið og mannréttindi. Skólar fá aðgang að vönduðu og fjölbreyttu námsefni sem fellur vel að grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá, auk þess sem þeim gefst færi á að vinna með innlendum sem og erlendum skólum, og að taka þátt í ráðstefnum víða um heim.

Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

VELKOMINN Í HÓPINN FLÓASKÓLI!

Nemendur í 7. og 10. bekk Flóaskóla með UNESCO skírteinið.

 

Öflugt ungt fólk með sterkar raddir

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásta Henriksen, þróunarstjóri og kennari í Verzló, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, ásamt hópi nemenda sem vann að verkefninu.

,,Mér bárust spurningar nemenda um menntamál  og komst að því að það væri fyrir tilstuðlan verkefnis sem fyrsta árs nemar væru að vinna í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfarið bauðst mér að heimsækja skólann og ræða við þau,‘‘ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem heimsótti nýlega nemendur á 1. ári í Verzlunarskóla Íslands.

,,Það var frábært að sjá áhugann og metnaðinn í verkefnunum og ljóst að þar fer öflugt ungt fólk með sterkar raddir – Raddir sem stjórnvöldum ber að hlusta á. Ég vil þakka kærlega fyrir heimboðið í Verzló og hlakka til þegar verkefnin eru tilbúin.‘‘

Nemendur sýndu mikið frumkvæði og metnað í verkefninu. Hver hópur átti að velja sér eitt heimsmarkmið og vinna með það. Nokkrir hópar völdu heimsmarkmið nr. 4 – Menntun fyrir alla og tóku í kjölfarið viðtal við Ásmund Einar um menntamál.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásta Henriksen, þróunarstjóri og kennari í Verzló, og Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, ásamt hópi nemenda sem vann að verkefninu.

Ásta Henriksen, kennari og þróunarstjóri í Verzlunarskóla Íslands, leiðir verkefnið. ,,Nemendur vinna í teymum og fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður,‘‘ segir Ásta. ,,Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.‘‘

Þess má geta að Verzlunarskóli Íslands er í innleiðingarferli að verða UNESCO skóli en eitt af meginþemum UNESCO skóla er að vinna með heimsmarkmið SÞ.

Nemendur taka viðtal við ráðherra um heimsmarkmið 4 sem snýr að menntun.
Ráðherra fór svo í kennslustofur og fylgdist með verkefnavinnu nemenda.

 

 

 

Samráðsfundur um skólaverkefni

Starfsfólk ráðuneytisins ásamt fulltrúm félaganna þriggja, Félagi SÞ, UNICEF og Landvernd. Á myndinni eru einnig fulltrúar úr þremur skólum sem tengjast verkefnunum. Þeir skólar eru leikskólinn Norðurberg, grunnskólinn Snælandsskóli og Fjölbraut í Breiðholti.

Settur hefur verið á laggirnar samráðsvettvangur að frumkvæði mennta-og barnamálaráðuneytisins um skólaverkefni Landverndar, UNICEF og Félags Sameinuðu þjóðanna. Verkefnin sem um ræðir hafa mikil samlegðaráhrif og því var ákveðið að leita leiða til að auðvelda skólum innleiðingu á viðkomandi verkefnum.

Landvernd er með verkefnið Skólar á grænni grein, UNICEF er með Réttindaskólana og Félag Sameinuðu þjóðanna er með UNESCO skólaverkefnið. Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir öll verkefnin með samstarfssamningum og því var ákveðið að sameina krafta félaganna að einhverju leyti.

Á fundinum sagði Andrea Anna Guðjónsdóttir frá verkefninu Skólar á grænni grein, Sigyn Blöndal sagði frá starfi Réttindaskólanna og Kristrún María Heiðberg sagði frá starfi UNESCO skólanna. Að því loknu voru fulltrúar hvers skólastigs með kynningu og sögðu frá innleiðingunni í sínum skólum.

Starfsfólk ráðuneytisins ásamt fulltrúm félaganna þriggja, Félagi SÞ, UNICEF og Landvernd. Á myndinni eru einnig fulltrúar úr þremur skólum sem tengjast verkefnunum. Þeir skólar eru leikskólinn Norðurberg, grunnskólinn Snælandsskóli og Fjölbraut í Breiðholti.

 

Verzló og heimsmarkmiðin

Nemendur á 1. ári í Verzlunarskóla Íslands vinna nú að metnaðarfullu þróunarverkefni um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Um er að ræða samþættingarverkefni í dönsku, ensku, hagfræði, íslensku og tölvunotkun.

Í upphafi verkefnisins hélt Kristrún fyrirlestur um heimsmarkmiðin. Að því loknu fékk hún að fylgjast með vinnu nemenda.

,,Það var frábært að fá að fylgjast með vinnu nemenda og ræða við þau um heimsmarkmiðin. Mörg þeirra þekkja vel til heimsmarkmiðanna og hafa greinilega hugsað um þessi mikilvægu málefni. Það verður fróðlegt að heyra tillögur þeirra og hvaða lausnir þau sjá fyrir sér. Þetta eru flottir krakkar með mikinn metnað og á meðan svo er þá getur framtíðin ekki verið annað en björt,’’ segir Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla.

Kristrún María, verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi hélt fyrirlestur fyrir nemendur á fyrsta ári í Verzló um heimsmarkmiðin í upphafi þróunarverkefnisins.

Í verkefninu vinna nemendur í teymum og fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn því þeir stýra því sjálfir í hvaða átt þeir fara með verkefnið og hver útkoman verður. Hugmyndin að baki verkefninu, sem stendur yfir í tvær vikur, er meðal annars sótt í aðalnámskrá framhaldsskóla, stefnu Verzlunarskóla Íslands, skólaþing og nýlegar íslenskar og erlendar menntarannsóknir. Undirbúningur að verkefninu hefur staðið yfir í hálft ár og er markmiðið með því að nemendur þjálfist í hæfni sem talin er mikilvæg fyrir störf þeirra í framtíðinni, til dæmis að sýna frumkvæði, leita lausna og vinna með öðrum.

Fyrir áhugasama má lesa til um verkefni Verzlunarskólans hér og skoða myndir hér 

 

Ungt fólk og mannréttindi á Nordic Camp

Þann 24. september fóru fjórir nemendur ásamt kennara sínum úr Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ til Danmerkur á ráðstefnuna „Nordic Camp – Stand Up For Human Rights“ en markmið hennar var að auka þekkingu og áhuga á mannréttindum hjá yngri kynslóðinni.  Á ráðstefnunni voru 14-18 ára nemendur frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Finnlandi, Danmörku og Kanada. Þegar allir voru komnir fór hópurinn í skemmtilega ferð um Kaupmannahöfn og nærliggjandi svæði eins og Hróarskeldu og Krónborgarkastala.

Ferðin var fjármögnuð af dönsku UNESCO deildinni , en FMOS hefur verið UNESCO skóli frá árinu 2020. Þeir nemendur sem fóru í ferðina eru: Arnaldur Daðason, Kristján Brjánsson, Matthildur Sela Albertsdóttir og Savia Guimaraes.

Nemendur tóku þátt í umræðum og „workshops“ og ræddu m.a. um hvernig hægt væri að auka þekkingu ungs fólks á mannréttindum, flestir voru sammála því að besta leiðin til þess sé með fræðslu. Fulltrúar frá Rapolitics og The Danish Institute for Human Rights komu og héldu fyrirlestur um það hvernig hægt væri að koma boðskapnum áleiðis í gegnum rapp og hipp hopp og vakti það mikla lukku.

Þegar ráðstefnunni lauk  fóru allir nemendurnir í aðra skóla til þess að sjá kennsluhætti þar. Íslensku krakkarnir þurftu ekki að fara langt því skólinn þeirra var í Köben. Skólinn heitir Niels Brock og er einn elsti verslunarskóli á landinu. Það var skemmtilegt prógramm sem skólinn hafði skipulagt fyrir íslenska hópinn, það voru gerð verkefni um mannréttindi og síðan var farið í Kristjaníu sem var hápunktur ferðarinnar.

Hópurinn kom aftur heim 1. október alsæl með mikilvæga þekkingu og reynslu um mannréttindi og mikilvægi þeirra, sem nemendur munu seint gleyma.

UNESCO “Transforming Education” Pre-Summit

Undirbúningsfundur eða “Pre-Summit” fyrir leiðtogafund UNESCO 19.september 2022 um leiðir til umbreytinga á menntun var haldinn 28.-30.júní í París af franska forsætisráðuneytinu og framkvæmdastórn Evrópusambandsins til að ræða hlutverk Evrópusambandsins í umbreytingum á menntun. Mikilvægt er að hrinda heimsmarkmiði nr 4: Menntun fyrir alla, án aðgreiningar og stuðla að símenntunartækifærum, í framkvæmd og var fundinum ætlað að knýja fram þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað næstu árin. Einnig var tilefni til að virkja umræður um umbreytingu á menntun, útbúa grunnskipulag og efla samstöðu fyrir aðalfundinn.

Þá var lögð áhersla á að vinna að nýstárlegum lausnum og efla menntunarsamstarf á svæðisbundnum og alþjóðlegum vettvangi. Kynnt voru dæmi um alþjóðleg samstörf milli ESB, aðildarríkja og samstarfslanda á sviði menntunar, til dæmis “E-Youth” í Mósambík. E-Youth snýst um valdeflingu ungra kvenna með stuðningi við þær stúlkur sem vilja læra tölvunarfræði, tækni, verkfræði og stærðfræði og forritun. Þetta samstarf styrkir einnig samstarf á milli háskóla í Mósambík og Evrópu en einnig er boðið upp á styrki til ungra Mósambíkbúa sem stunda nám í Evrópu.

Franska forsætisráðið – fulltrúar franska mennta- og æskulýðsráðuneytisins og Evrópu- og utanríkisráðuneytisins – og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fögnuðu á leiðtogafundinum markmiðinu um umbreytingu á menntun og hafa ítrekað skuldbindingu ESB um að efla viðleitni sína og efla hlutverk sitt í alþjóðlegu samstarfi hvað varðar að efla menntun. Að efla menntun er skref í áttina að því að ná sjálfbærrar þróunar markmiðunum. Einnig er það skref í átt að jafnari samfélögum sem eru án aðgreiningar og fær um að stjórna stafrænum og vistfræðilegum umbreytingum á eigin spýtur.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Inga Huld Ármann, ungmennafulltrúi SÞ á sviði barna og ungmenna voru meðal þeirra sem sóttu #TransformingEducation leiðtogafund UNESCO í París fyrir hönd Íslands en hann kláraðist í gær.

 

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna hafði þetta að segja um #TransformingEducation UNESCO fundinn.

 

 

 

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi skrifar undir nýjan samning við Mennta- og barnamálaráðuneytið um UNESCO-verkefnið.

Í morgun skrifaði Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undir fjögurra ára samning um UNESCO-skólaverkefnið.

Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni fyrir rúmum sjö árum síðan. UNESCO-skólum hefur fjölgað síðustu tvö árin og eru þeir eru nú tólf talsins: einn leikskóli, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í umsóknarferlinu. Verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi er Kristrún María Heiðberg.

„Samningurinn er tímamótasamningur en um ræðir einn stærsta samning sem Félag Sameinuðu þjóðanna hefur gert til þessa. Næstu fjögur árin mun Félagið halda áfram að efla verkefnið enn frekar og fjölga skólunum í samstarfi við ráðuneytið og íslensku UNESCO nefndina. Það eru breyttir tímar í samfélaginu okkar og við sjáum hversu mikilvægt það er að börn og ungmenni fái fræðslu í takt við það, hvort sem það er á sviði mannréttinda, alþjóðasamvinnu, heimsmarkmiðanna eða friðar. Við hjá Félaginu erum stolt og hreykin af þeim árangri sem náðst hefur með verkefninu hingað til og okkur hlakkar mikið til að halda þeirri vinnu áfram næstu árin með öllum sem koma að verkefninu,“ sagði Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri FSÞ, við þessi tímamót.

Samningurinn er liður í að efla fjölbreytt starf á vettvangi UNESCO og hluti af áherslum Íslands sem aðili að framkvæmdastjórn UNESCO árin 2021-2025.

Mynd: Sigurður Mikael. Ásmundur Einar og Vala Karen eftir undirskrift samningsins í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna í morgun.

 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Það er mikilvægt að undirbúa börn fyrir framtíðina með hliðsjón af gildum heimsmarkmiðanna. UNESCO-skólaverkefnið er liður í því starfi og hlakkar ráðuneytið til frekara samstarfs á komandi árum“.

Næstu fjögur árin mun félagið halda áfram að efla verkefnið enn frekar og fjölga skólunum í samstarfi við ráðuneytið og íslensku UNESCO-nefndina.

Meginmarkmið samningsins eru:

  • að styðja við innleiðingu á helstu þemum UNESCO-skóla: alþjóðasamvinnu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin, frið og mannréttindi á leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólastigi;
  • að styðja við framgang aðgerðar 8 í menntastefnu stjórnvalda, Raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum;
  • að styðja við stefnu um Barnvænt Ísland og
  • að efla lýðræðis- og mannréttindamenntun.
Mynd: Sigurður Mikael. Frá vinstri: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Hera Melgar, starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra; Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi; Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO-skóla á Íslandi og Óskar Haukur Níelsson og Guðni Olgeirsson, sérfræðingar í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

 

Fyrsti UNESCO leikskólinn á Íslandi  

Leikskólinn Akrasel fékk nýlega viðurkenningu sem fyrsti UNESCO leikskólinn á Íslandi. Alls eru nú 12 UNESCO skólar hér á landi, leikskólinn Akrasel, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar.

Akrasel tók formlega við viðurkenningunni á sérstakri sumarhátíð sem haldin var í blíðskaparveðri 25. maí síðastliðinn. Við sama tækifæri tók leikskólinn á móti sjötta Grænfána Landverndar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti, mætti á staðinn og hélt ávarp og heilsaði upp á krakkana, starfsfólk og aðra gesti. Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, hélt einnig ávarp og ítrekaði mikilvægi þeirra gilda og markmiða sem UNESCO skólar vinna eftir, þ.e. alþjóðasamvinna, friður og mannréttindi, starfsemi SÞ og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Leikskólastjóri Akrasels stendur hér með hóp af börnum leikskólans, starfsmönnum Landverndar, Félags Sameinuðu þjóðanna ásamt forseta Íslands,  bæjarstjóra Akraness og sviðsstjóra skóla og frístundasviðs.
Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla, Guðni Th. forseti og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

 

Tveir nýir UNESCO skólar

Tveir skólar bættust nýlega við UNESCO skólanetið hér á landi, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Patreksskóli. Óskum við þeim innilega til hamingju með viðurkenninguna!

UNESCO skólar á Íslandi eru nú alls 12 talsins, einn leikskóli, fjórir grunnskólar og sjö framhaldsskólar. Þá eru fleiri skólar í umsóknarferlinu og bíða staðfestingar.

Ásdís Snót Guðmundsdóttir, skólastjóri Patreksskóla, með hópi nemenda skólans og UNESCO skjalið.

 

Skólanet UNESCO skóla er eitt elsta skólanet í heimi en það hefur verið starfrækt frá árinu 1953. Nú eru um 11.500 skólar sem tilheyra netinu og starfa í 182 löndum um allan heim.

Félag Sameinuðu þjóðanna fer fyrir skólanetinu á Íslandi í samstarfi við íslensku UNESCO nefndina en það byrjaði sem tilraunaverkefni árið 2015. Verkefnið er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Að vera UNESCO-skóli felur í sér samkomulag og samvinnu milli skólans og UNESCO þar sem skólinn innleiðir verkefni tengdum einhverjum af fjórum þemum UNESCO-skóla. Þau eru: alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og friður og mannréttindi.

UNESCO-skólarnir halda árlega upp á tvo ólíka alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna, t.d. alþjóðadaga mannréttinda, jafnréttis, læsis, hafsins, barnsins, friðar og vísinda. Skólarnir standa jafnframt árlega fyrir einum viðburði sem tengist Sameinuðu þjóðunum. Þetta geta verið þemadagar eða viðburðir sem tengjast gildum Sameinuðu þjóðanna eða heimsmarkmiðunum.

Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga með UNESCO skjalið á ferð sinni um Ítalíu. Með þeim á myndinni eru Ida Marguerite Semey og Hólmar Hákon Óðinsson, kennarar við skólann

 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi aðstoðar skóla í umsóknarferlinu og veitir ráðgjöf við innleiðingu verkefnisins. Verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi er Kristrún María Heiðberg, kristrun@un.is

 

 

 

 

Norrænt samstarf UNESCO skóla

Danska UNESCO skólanetið stóð fyrir ráðstefnu 10. og 11. mars síðastliðinn í Horsens í Danmörku undir yfirskriftinni Global Citizenship Network Meeting. Ýmis málefni voru rædd en sérstök áhersla lögð á mannréttindi og hnattræna borgaravitund. Kennarar og leiðtogar frá skólum tengslanetsins skiptust á skoðunum og sögðu frá starfinu innan síns heimalands.

Kristrún er hér þriðja frá hægri með verkefnastjórum skólaverkefnisins á norðurlöndunum

Seinni dagur ráðstefnunnar var sérstaklega ætlaður norrænum samstarfsaðilum UNESCO skóla. Fulltrúar frá Noregi, Finnlandi, Íslandi og Grænlandi sögðu frá starfinu í sínu landi.  Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi, sótti ráðstefnuna og sagði frá starfinu á Íslandi, þróuninni og starfinu framundan. Að loknum erindunum var fundargestum skipt niður í umræðuhópa þar sem rætt var m.a. um starf UNESCO skóla, móttöku flóttafólks, stuðning við nemendur, skólamál, mannréttindi, hnattræna borgaravitund og síðan en ekki síst heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun.

Á ráðstefnunni var einnig rætt um Nordic Camp ráðstefnuna – Stand up for Human Rights, sem haldin verður í haust, frá 25. sept. – 1. okt. Hún fer aðallega fram í Kaupmannahöfn, sem og í fleiri dönskum samstarfsskólum. Ísland sendir fulltrúa frá UNESCO skóla hér á landi og var það Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sem varð fyrir valinu. Danska UNESCO deildin greiðir fyrir ferðalagið og gistingu fyrir einn kennara og þrjá nemendur.

Norrænu UNESCO deildirnar halda góðum tengslum og funda reglulega. Deildirnar eru misstórar og starfa sumar með misjöfnum hætti. Íslenska deildin er tiltölulega ung að árum, hóf starfsemi árið 2015. Þá voru skólarnir einungis fjórir talsins en eru nú orðnir 12, á leikskóla- grunnskóla og framhaldsskólastigi.

Það var afskaplega fróðlegt og áhugavert að sækja UNESCO ráðstefnuna í Horsens og þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að norrænu deildirnar héldu áfram góðum tengslum og samstarfi.