Árlegt þing norrænna félaga Sameinuðu þjóðanna fór fram í Kaupmannahöfn dagana 24.–25. febrúar.
Á þinginu hittust fulltrúar félaganna og samstarfsstofnanir Sameinuðu þjóðanna í UN City meðal annars til að ræða stöðu alþjóðasamfélagsins, helstu áskoranir og mögulegar lausnir.
Ein af niðurstöðum fundarins var sameiginlegt ákall félaganna til norrænna stjórnvalda um framlengingu vopnahlés og viðurkenningu á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki. Ekki hafa öll norræn ríki gert slíkt, en með ákallinu vilja félögin vekja athygli á málinu og þrýsta á aðgerðir.
Ísland var fyrst norrænna ríkja til að viðurkenna Palestínu árið 2011. Svíþjóð fylgdi í kjölfarið árið 2014, og Noregur gerði slíkt hið sama árið 2024. Í dag hafa um 146 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki.
Ákallið er enn sem komið er aðeins á ensku, en lesa má það í heild sinni hér að neðan.
Allt klárt fyrir vetrarlotu mannréttindaráðsins eftir samráð við frjáls félagasamtök
Ísland mun í annað sinn sitja sem kjörinn aðili í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þegar vetrarlotan hefst þann 24. febrúar 2025. Af því tilefni var haldinn samráðsfundur með frjálsum félagasamtökum á Íslandi til að ræða helstu áskoranir og tækifæri sem fram undan eru í ráðinu, en markmið samráðsins er að gefa borgarasamfélaginu aukin tækfæri til þess að hafa áhrif á starf Íslands í ráðinu. Samráðið er hluti af fundaröð og munu fulltrúar utanríkisráðuneytisins deila áherslum Íslands og helstu atriðum fyrir og eftir hvern fund ráðsins – en ráðið fundar þrisvar á ári. Vettvangurinn er auk þess tækifæri til þess að beina ljósinu að mannréttindamálum innanlands – og tóku fundargestir Elísabetu Gísladóttur, formanni stýrihóps stjórnarráðsins um mannréttindi, fagnandi.
Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að styðja við alþjóðlega mannréttindavinnu og tryggja að mannréttindi séu í fyrirrúmi í stefnu landsins á alþjóðavettvangi. Á fundinum kynnti Einar Gunnarsson, fastafulltrúi Íslands í Genf gagnvart Sameinuðu þjóðunum, áherslur Íslands sem aðildarríkis, en þær fela meðal annars í sér:
Eflingu mannréttinda á heimsvísu: Ísland leggur áherslu á samtal við öll ríki, ekki eingöngu þau sem deila sömu skoðunum og gildismati
Réttindi barna, kvenna og hinsegin fólks: Lögð verður sérstök áhersla á vréttindabaráttu hinsegin fólks, réttindi kvenna og réttindi barna.
Tengsl umhverfisverndar og mannréttinda: Ísland hefur verið leiðandi í umræðu um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda í tengslum við mannréttindi.
Aðgerðir gegn mannréttindabrotum í sérstökum ríkjum: Ísland leiðir tvö umboð vegna málefna Írans og mun taka virkan þátt í umræðu um mannréttindabrot í Palestínu.
Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi samstarfs við frjáls félagasamtök, bæði innanlands og utan. Ísland hefur ábyrgðarhlutverk sem eitt af 47 ríkjum með sæti í ráðinu.
Eftir kynningu á vetrarlotunni svaraði Einar spurningum viðstaddra ásamt Helenu Ingu von Ernst, Erlu Ylfu Óskarsdóttur og Davíð Loga Sigurðssyni fulltrúum Utanríkisráðuneytinu, og Elísabetu Gísladóttur, formanni stýrihóps stjórnarráðsins um mannréttindi.
Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi mun fylgjast áfram með framgangi Íslands í mannréttindaráðinu og veita reglulegar uppfærslur um þróun mála.
Viðburður skipulagður af Festu í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, UN Women á Íslandi, UNICEF á Íslandi, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og UN Global Compact á Íslandi og er hliðarviðburður í tengslum við Janúarráðstefnu Festu.
Viðburðurinn er opinn öllum og er haldinn í viðburðarsal Arion banka í Borgartúni, 3. febrúar kl. 10:00 – 12:00.
Boðið verður upp á léttar veitingar frá 9:30.Skráning er nauðsynleg.
Virðiskeðjur nútíma fyrirtækja hafa snertifleti við ótal einstaklinga um allan heim. Við vitum að víða er pottur brotinn og arðsöm framleiðsla byggir oft á bágum mannréttindum eða jafnvel barnaþrælkun.
Það er því mikil vinna framundan við að tryggja að í innlendum sem alþjóðlegum virðiskeðjum viðgangist ekki brot á eðlilegum réttindum heldur þvert á móti sé unnið að því að bæta aðstæður og tækifæri starfsfólks.
Á viðburðinum fáum við að heyra frá sérfræðingum. fyrirtækjum og ungmennum sem öll hafa ólíka innsýn á stöðu mannréttinda í virðiskeðjum. Þá er þetta einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki til að kynna sér Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífsins.
Dagskrá
Opnunarávarp frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra
Dr. Mikael Allan Mikalesson sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar hjá Stockholm Environment Institute (SEI)
Guðný Camilla Aradóttir, samskipta- og sjálfbærnistjóri IKEA. – Hvernig hefur IKEA unnið með sína virðiskeðju þegar kemur að því að tryggja mannréttindi allra sem að henni koma.
Erindi frá tveimur fyrirtækjum sem hafa hlotið styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins
66° Norður og VAXA Technology
Kynning á nýjum vegvísi Festu um félagslega sjálfbærni
Fundarstjóri verður Pia Hansson forstöðumaður Alþjóðamálstofnunar Háskóla Íslands
Pallborðþar sem við heyrum frá ungu fólki með fjölbreytta reynslu og bakgrunn:
Sumitru Basnet frá Nepal, framhaldsskólanemi og fyrrverandi fórnarlamb barnaþrælkunar
Hadia Rahman frá Afganistan, nemi
Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda
Panelstjóri: Pétur Hjörvar Þorkelsson verkefnastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Arion banki er styrktaraðili viðburðarins.
Þessi frétt er unnin úr tilkynningu Festu í tengslum við hliðarviðburðinn.
Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli sett á laggirnar – Athygli vakin á víðtækum áhrifum rýrnunar jökla
Ísland tekur þátt í viðburðum sem skipulagðir eru í tilefni af Alþjóðaári jökla, sem hefst formlega 21. janúar 2025. Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir átakinu og er það leitt af UNESCO, Menningarmálastofnun SÞ og WMO, Alþjóðaveðurmálastofnuninni. Í desember árið 2022 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þá ályktun að 2025 yrði Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli og að Alþjóðadagur jökla yrði 21. mars ár hvert. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á jökla heimsins og þeim afleiðingar sem rýrnun þeirra hefur á vistkerfi, samfélög og efnahag. Skipulagning viðburða á Íslandi er í höndum fulltrúa frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Jöklarannsóknafélagi Íslands, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafni Íslands.
Sérstakur viðburður verður haldinn í Veröld – húsi Vigdísar og Loftskeytastöðinni, 21. mars 2025, á fyrsta Alþjóðadegi jökla.
Í tilefni af degi jökla er efnt er til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 10–20 ára. Óskað er eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru. Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Verkið getur t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla, myndasaga eða vídeóverk. Litið verður sérstaklega til þess að verkefnin endurspegli persónulega sýn þátttakenda. Öllum tillögum skal skila inn rafrænt (PDF, JPEG, PNG, myndband) á netfangið felag@un.is ásamt upplýsingum um nafn, skóla, aldur, netfang og símanúmer. Skilafrestur er til og með 2. mars 2025. Sjá nánari upplýsingar á vef samkeppninnar – www.un.is/joklar
„Jöklar eru lykilþáttur í vatnshringrás jarðar og rýrnun þeirra ein helsta vísbending okkar um hraðar loftslagsbreytingar.
Alþjóðaár jökla á hverfanda hveli er einstakt tækifæri til að vekja vitund, efla fræðslu og hvetja til aðgerða til að vinna gegn rýrnun þessara dýrmætu náttúruauðlinda.“
Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Frá og með janúar munu fjölbreytt verkefni og viðburðir eiga sér stað hér heima og erlendis til þess að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Að þessu sinni mun dagur vatns (22. mars) einnig verða tileinkaður jöklum.
Á viðburði í Veröld Vigdísar á Alþjóðadegi jökla gefst gestum tækifæri á að fræðast um jöklabreytingar á Íslandi og í heiminum, framtíðarhorfur íslenskra jökla og samgleðjast ungu kynslóðinni sem mun spreyta sig í samkeppni. Þennan dag verður einnig opnuð sýning á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar, tileinkuð hörfandi jöklum. Sunnudaginn 6. apríl verður sérstakur jöklaviðburður á vegum Náttúruminjasafns Íslands í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og Náttúruverndarstofnun á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð Perlunnar (https://www.facebook.com/events/1109680204028305).
Markmið Alþjóðaárs og Alþjóðadags jökla eru meðal annars:
Að efla vitund um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og vistkerfi
Að stuðla að aukinni fræðslu um mikilvægi jökla fyrir samfélög og efnahag
Að hvetja til sameiginlegra aðgerða til að sporna við frekari rýrnun jökla
Fjölmiðlar og almenningur eru hvattir til þess að kynna sér víðtæk efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg áhrif sem yfirvofandi rýrnun á freðhvolfi jarðar hefur.
Viðburðurinn er haldinn af íslensku UNESCO-nefndinni í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytið, Kennarasamband Íslands, listkennsludeild Listaháskóla Íslands og List fyrir alla.
Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri fræðslu og kynningar verður með erindi um gott starf UNESCO-skóla í menningar- og listmenntun fyrir frið og sjálfbærni.
Dagskrá
13.00 – Opnunarávarp Logi Már Einarsson, menningar, nýsköpunar og háskólaráðherra
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra
13.10 – Af hverju listkennsla? Maríanna Eva Dúfa Sævarsdóttir meistaranemi í listkennsludeild Listaháskóla Íslands
13.20 – Kynning á nýjum ramma UNESCO um menningar- og listmenntun Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti, aðalritari Íslensku UNESCO-nefndarinnar og Guðni Olgeirsson, mennta- og barnamálaráðuneyti, menntafulltrúi í íslensku UNESCO- nefndinni
13:35 – Global Framework to Strengthen Culture and Arts Education ADG Ernesto Ottone, aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO á sviði menningarmála
13.45 – Music as a Tool for Social Transformation and Inclusive Education Aðalfyrirlesari Ron Davis Alvarez, hljómsveitarstjóri og tónlistarkennari sem starfar í Svíþjóð og rekur The Dream Orchestra sem byggir á El Sistema aðferðafræðinni.
14.20 – Léttar veitingar í hléi
14.50 Erindi um listmenntun Fulltrúi Kennarasambands Íslands
15.00 Listalestin Kristín Valsdóttir, dósent listkennsludeild LHÍ, Vigdís Gunnarsdóttir, lektor listkennsludeild LHÍ og Elfa Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri List fyrir alla
15.20 UNESCO-skólar: Menntun, sjálfbærni og friður Pétur Hjörvar Þorkelsson, verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna
15.30 Lokaorð Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands
15.40 Taktur og tengsl í Conakry Nemendur og kennarar í LHÍ segja frá nýafstaðinni heimsókn sinni til Guineu. Sandra Sano Erlingsdóttir og nemendur
Árið 2024 var viðburðaríkt fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ), þar sem félagið beindi kastljósinu að málefnum sem snerta alþjóðlegar áskoranir, svo sem loftslagsbreytingar, jafnrétti og frið. Árið einkenndist af öflugu starfi, fræðslufundum, samstarfsverkefnum og viðburðum sem allir stefndu að því að virkja íslenskt samfélag og tengja þátttöku landsmanna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Samkeppni ungs fólks um heimsmarkmið og mannréttindi
Janúar mánuður byrjaði af krafti með verðlaunaafhenfingu í samkeppni ungs fólks í Mannréttindahúsinu, haldin í tilefni af 75 ára afmæli FSÞ. Samkeppnin lagði áherslu á mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi, og voru framúrskarandi tillögur leystar út með viðurkenningum og verðlaunum. Þau Þröstur Flóki Klemensson og Eybjört Ísól Torfadóttir unnu fyrstu verðlaun sem var flug og gistingu til New York með Icelandair, þar sem þau heimsóttu fastanefnd Íslands, höfuðstöðvar UNICEF og höfuðstöðvar SÞ undir handleiðslu framkvæmdastjóra félagsins.
Verðlaunahafar ásamt dómnefnd samkeppninnar.
Stuðningur við flóttafólk frá Gaza
Í febrúar sendi FSÞ út ákall ásamt öðrum samtökum sem hvatti íslensk stjórnvöld til að veita flóttafólki frá Gaza skjól, þar sem áhersla var lögð á þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, svo sem konur og börn. Um 100 einstaklingar úr Gaza fengu dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og var það stórt skref í að veita nauðsynlega hjálp. FSÞ vakti athygli á þeirri alvarlegu mannúðarkreppu sem ríkir á Gaza og mikilvægi þess að veita stuðning til alþjóðlegra mannúðarsamtaka, sérstaklega UNRWA, sem veitir lífsnauðsynlega aðstoð til flóttamanna á svæðinu. Ástandið á Gaza var og er alvarlegt, þar sem yfir 45.000 manns hafa verið drepin. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi heldur áfram að kalla eftir alþjóðlegri samstöðu um frið við botn Miðjarðarhafs.
Ungt fólk og græn umskipti
Í mars söfnuðust saman norræn ungmenni á opnunarráðstefnu ungmennaverkefnis í Helsinki, sem miðaði að því að efla hæfni ungs fólks í sjálfbærri þróun og grænum umskiptum. Hlutdeild þeirra markar mikilvægt skref í þróun ungs fólks á sviði sjálfbærni. FSÞ kallaði eftir umsóknum íslenskra ungmenna og voru að endingu fjögur ungmenni, þeirra á meðal var ungmennafulltrúi Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar.
Ungmenni sem tóku þátt í NORDEN 0-30
Norrænt samstarf
Apríl mánuður færði saman norræn félög Sameinuðu þjóðanna á árlegum fundi þeirra í UN City í Kaupmannahöfn. Fundurinn lagði grunn að frekara samstarfi þar sem sjónarmið voru sett á verkefni á sviði kynningarstarfs og alþjóðlegrar samvinnu en einnig tenging norrænu félaganna, Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs.
Fundur FSÞ, Norðurlandaráðs og Matvælaáætlunar Sþ Í UN City
Ungt fólk sem afl til breytinga
Í maí mánuði hélt FSÞ vinnustofu um heimsmarkmið SÞ og mannréttindi, fyrur áhugasöm ungmenni sem vilja hafa áhrif á framgang markmiðanna á Íslandi og víðar. Vinnustofan var ætluð bæði þeim sem starfa í hagsmunagæslu eða ungmennastarfi og þeim sem vildu öðlast betri skilning á tengslum mannréttinda og heimsmarkmiðanna. Vinnustofan veitti ungmennum verkfæri og þekkingu til að þrýsta á stjórnvöld um að bæta innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi, með sérstakri áherslu á mannréttindi. Vinnustofan var mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk til að taka virkan þátt í alþjóðlegum málefnum og skapa jákvæðar breytingar í íslensku samfélagi, en hún var hluti af norræna verkefninu NORDEN 0-30 sem Félag SÞ á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð tóku þátt í þetta árið.
Opið samtal um Sáttmála framtíðarinnar
Í júní boðaði FSÞ, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ, Landssamband ungmennafélaga til opins samtals um drög að Sáttmála framtíðarinnar. Viðburðurinn fór fram í Mannréttindahúsinu og var ætlaður til að virkja almenning og ungt fólk í umræðu um alþjóðlega samvinnu og sameiginlega áskoranir framtíðarinnar. Fundurinn var vel sóttur og skapaði grundvöll fyrir nýjar hugmyndir og samstarf í tengslum við Sáttmála framtíðarinnar sem samþykkja átti á Leiðtogafundi um framtíðina í september.
Frá samtali um Sáttmála framtíðarinnar
Námskeið fyrir kennara – Að vekja ungt fólk hnattrænnar vitundar
Í ágúst stóð FSÞ fyrir námskeiði fyrir kennara og stjórnendur á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi fjórða árið í röð. Markmið námskeiðsins að þessu sinni var að veita kennurum verkfæri til að efla hnattræna vitund ungs fólks með fræðslu um Sameinuðu þjóðirnir og starfsemi þeirra á sviði mannréttinda, friðar með áhersu á heimsmarkmið Sþ um sjálfbæra þróun. Þá tóku kennararnir einnig þátt í örhermilíkani SÞ þar sem þau settu sig í spor ólíkra aðildarríkja mannréttindaráðsins, fóru í samningaviðræður, héldu ræður og skrifuðu ályktun. Námskeiðið heppnaðist einkar vel, var vel sótt líkt og fyrri ár og komust færri að en vildu.
Frá námskeiði fyrir kennara
Fánadagur heimsmarkmiðanna og Sáttmáli framtíðarinnar samþykktur
Í september samþykktu leiðtogar heimsins Sáttmála framtíðarinnar á leiðtogafundi um framtíðina í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Sáttmálinn nær yfir breitt svið, þar á meðal frið og öryggi, sjálfbæra þróun, loftslagsbreytingar og mannréttindi.
Þann 25. september var fánadagur heimsmarkmiða haldinn í annað sinn á Íslandi, í samstarfi við UN Global Compact á Íslandi. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og hvetja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til að sýna skuldbindingu sína við þau. Tóku fjöldi fyrirtækja og samtaka þátt ásamt 16 UNESCO-skólum
og 19 öðrum skólum sem flestir eru í umsóknarferli.
Mynd / Reykjanes Geopark – Frá undirritun viljayfirlýsingar í Hljómahöll
Ísland kosið í mannréttindaráð Sþ og ungmennafulltrúar Íslands hjá Sþ
Í október hlaut Ísland kjör til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027. Þetta er í annað sinn sem Ísland tekur sæti í ráðinu en í fyrsta skiptið sem landið tekur sæti eftir kosningabaráttu og mun sitja heilt tímabil. Á komandi kjörtímabili Íslands í ráðinu mun FSÞ í samráði við utanríkisráðuneytið boða til samtals við borgarasamtök á meðan setu Íslands stendur. Þá mun félagið einnig miðla málum úr ráðinu ásamt fræðslu og kynningu í samráði við tengda hagaðila.
Ungmennafulltrúar Íslands tóku virkan þátt í alþjóðlegum viðburðum á árinu og FSÞ tók viðtöl við þau sem birtust á vefsíðu félagsins og á samfélagsmiðlum þar sem reynslu og upplifun þeirra var miðluð áfram líkt og fyrri ár. Unnur Þórdís Kristinnsdóttir, þáverandi ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði loftslagsmála hafi sótt Loftslagsráðstefnfu SÞ (COP28) þar sem hún ásamt ungmennafulltrúum annarra ríkja á sviði loftslagsmála mynduðu sameiginlega stefnu til þess að senda sterkari og skýrari skilaboð á loftslagsráðstefnunni.
Birta B. Kjerúlf, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ á sviði kynjajafnréttis var hluti af íslenskri sendinefnd sem sótti 68. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW) í New York í mars þar sem hún sótti opinbera viðburði, hliðarviðburði og að tala máli íslenskra ungmenna í tengslum við málaflokkinn.
Emma Ósk Ragnarsdóttir, ungmennafulltrúi á sviði barna- og ungmenna sótti ungmennaþing ECOSOC í apríl í höfuðstöðvum Sþ í New York og sótti hliðarviðburð sem miðaði að því auka inngildingu og þátttöku ungs fólks í tengslum við mannréttindafræðslu í átt að friðsælari samfélögum.
Sara Júlía Baldvinsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sþ sótti HLPF í New York í júlí þar sem tók þátt í mörgum viðburðum og vinnustofum á meðan fundinum stóð og sat í panel ásamt öðrum norrænum ungmennafulltrúum sem skrifuðu kafla í VSR (Voluntary Subnational Review) skýrslu norrænna sveitarfélaga gagnvart heimsmarkmiðum Sþ.
Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir, ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda, var viðstödd samþykkt Sáttmála framtíðarinnar í New York í september og tók þátt í umræðum um réttindi hinsegin fólks á heimsvísu.
UNESCO skólaverkefnið stækkar og eflist á Íslandi
Þann 4. september 2024 var haldinn kynningarfundur í Hljómahöll um innleiðingu UNESCO-skóla í alla skóla á Reykjanesi. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjavettvangi. Á fundinum skrifuðu 15 skólar undir viljayfirlýsinguna en síðan þá hafa fjórir bæst við. Fleiri skólar á svæðinu eru einnig áhugasamir og munu fleiri bætast við á næstu misserum.
Á heildina litið var árið 2024 árangursríkt fyrir félagið, með fjölbreyttum verkefnum og viðburðum sem stuðluðu að aukinni vitund og þátttöku í alþjóðlegum málefnum.
Mynd / Reykjanes Geopark – Skólar og fyrirtæki sem sóttu fundinn og skrifuðu undir viljayfirlýsingu
Horft til 2025: Jöklarnir og framtíðin
Árið 2025 er ár jökla á hverfandi hveli hjá Sameinuðu þjóðunum og mun FSÞ beina kastljósinu að jöklum og þeim gríðarlegu breytingum sem þeir standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar bráðnunar jökla og stuðla að auknum aðgerðum í loftslagsmálum. Þá verður 21. mars frá og með 2025 helgaður jöklum ár hvert og stefnir FSÞ á virkt samráð með Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt Jöklarannsóknarfélagi Íslands í formi námskeiða fyrir kennara og viðburða í tengslum við alþjóðaárið.
Með áherslu á alþjóðlegt samstarf, virka þátttöku íslensks samfélags og fræðslu um mikilvægi heimsmarkmiðanna er ljóst að árið 2025 verður ár þar sem Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi heldur áfram að vera leiðandi afl í baráttunni fyrir sjálfbærni og réttlæti.
Markmið ársins 2025 er ekki aðeins að vekja athygli á, heldur enn frekar að halda áfram að efla einstaklinga, samtök, fyrirtæki og stjórnvöld til að taka raunhæf skref í frekari innleiðingu og eflingu heimsmarkmiðanna, til að tryggja sjálfbærari framtíð fyrir samfélag, efnahag og umhverfi.
Mannréttindadagurinn er haldinn árlega um allan heim þann 10. desember. Dagurinn minnist eins byltingarkenndasta loforðs heimsins sem endurspeglast í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (UDHR). Þetta tímamótaskjal kveður á um þau ófrávíkjanlegu mannréttindi sem öll eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, eða stöðu að öðru leyti.
Yfirlýsingin var samþykkt af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París þann 10. desember 1948 og setti fram, í fyrsta skipti, grundvallarmannréttindi sem á að vernda um allan heim. Sem „sameiginlegur árangursstaðall fyrir allar þjóðir og ríki“ er yfirlýsingin leiðarvísir fyrir alþjóðleg-, innlend- og staðbundin lög og stefnur ásamt því að vera grunnstoðin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Yfirlýsingin er til á 577 tungumálum, allt frá abkhasísku til zúlú, sem gerir hana að mest þýdda skjali í heimi.
Yfirskrift fyrir mannréttindadaginn árið 2024 er: Réttindi okkar, framtíð okkar, núna.
Mannréttindi geta styrkt einstaklinga og samfélög til að skapa betri framtíð. Með því að tileinka okkur og treysta á fullan mátt mannréttinda sem leiðina til þess heims sem við óskum okkur, getum við orðið friðsælli, jafnari og sjálfbærari.
Á þessum mannréttindadegi leggjum við áherslu á hvernig mannréttindi eru leið til lausna og gegna mikilvægu hlutverki sem forvarnar-, verndar- og umbreytandi afl til góðs. Líkt og António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt: „mannréttindi er undirstaða að því að gera samfélög meira friðsæl og réttlát“.
Þemað í ár er ákall um að viðurkenna mikilvægi og tengingu mannréttinda í daglegu lífi okkar. Við höfum tækifæri til að breyta viðhorfum með því að tala gegn hatursorðræðu, leiðrétta rangar upplýsingar og vinna gegn uppýsingaóreiðu. Nú er tíminn til að hvetja til aðgerða og setja aukinn kraft í alþjóðlega hreyfingu fyrir mannréttindi.
„Mannréttindi eru undir árás… Þema ársins minnir okkur á að mannréttindi snúast um að byggja framtíðina – núna. Við verðum að standa vörð um öll réttindi – alltaf!“
Samband menntunnar og mannréttinda er nánara en margan grunar. Flest eru meðvituð um réttinn til menntunnar, þ.e. að aðgangur að menntun sé mannréttindi, en færri vita að mannréttindi þeirra hafa töluverð áhrif á nám og námsaðsæður þeirra. Skólar spila þannig mikilvægt hlutverk í því að gera réttindi nemenda sinna að raunveruleika með því að skapa umhverfi og innleiða starfshætti sem gera öllum kleift að blómstra í námi, óháð bakgrunni. T.a.m. stendur í Mannréttindayfirlýsingu Sameinðuðu þjóðanna:
Þó eru ein réttindi sem oft gleymist að vinna að, en það eru réttindin til þess að læra um mannréttindi. Svokölluð mannréttindamenntun, en hugmyndin er í stuttu máli sú að án almennrar þekkingar á mannréttindum geti enginn staðið vörð um réttindi sín né annara. Þetta er kjarnað ágætlega í auðlesinni útgáfu af Barnasáttmálanum: Allir verða að þekkja réttindi barna. Stjórnvöld skulu fræða börn og fullorðna um Barnasáttmálann reglulega svo allir þekki réttindi barna. Mannréttindayfirlýsingin gerir sambærilegar kröfur. Mannréttindamenntun er því alger grundvöllur þess að virðing sé borin fyrir mannréttindum, og að sáttmalarnir geti þjónað sínu hlutverki.
Fjölbraut við Ármúla hefur um árabil boðið nemendum sínum upp á sérstakan mannréttindaáfanga. Pétur Hjörvar, Verkefnastjóri hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hitti þær Dana Zaher El Deen, Weroniku Zarzycka og Bryndísi Valsdóttur til þess að kynna sér áfangan. Þær sitja í Kósýstofunni, afar afslappaðri kennslustofu á annari hæð skólans, sem við fáum lánaða næstu þrjú korterin. Þar hittast þær ásamt hópi nemenda þrisvar í viku, en Bryndís kennir áfangann og Dana og Weronika nema hann. Áfanginn er áhugaverður og rímar vel við áherslur UNESCO-skóla því nemendur læra ekki bara í kennslustofunni, heldur sinna þeir 20 tímum af sjálfboðavinnu fyrir góðgerðarfélög. Í UNESCO-skólunum fer margt einstakt fram og Félagi Sþ langar að miðla þessu góða starfi meðal áhugsamra. Bryndís tók vel í viðtalsbeiðnina og stakk upp á að Dana og Weronika yrðu með. Það reyndist mikill fengur, enda sjónarhóll þeirra allt annars en kennarans.
Weronika er á öðru ári í FÁ og valdi mannréttindaáfangann því henni fannst hann hljóma áhugaverður:
„Ég vissi ekki alvg hvað ég myndi læra í honum en mér fannst hann spennandi … Ég er sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp. Ég hjálpa til við skipulag, við að þrífa og fleira … Ég hef leitað til þeirra þegar ég vildi fá mér kisu og ég hef bara mikinn áhuga á dýrum.“
Dana er sömuleiðis á öðru ári í FÁ. Dana valdi mannréttindaáfangann því hún vildi læra um mannréttindi og hvernig samtök vinna að því að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.
„Ég er sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og er þar að vinna með ungu fólki. Ég vildi gera það því þegar ég kom til Íslands tók ég þátt í þessu sama starfi, ekki sem sjálfboðaliði eins og núna, heldur bara til þess að skemmta mér. Ég valdi þetta verkefni því ég hef áhuga á verkefnum sem færa ungu fólki skemmtun og jákvæðar upplifanir.“
Bryndís Valsdóttir er búin að kenna við FÁ í 22 ár. Geri aðrir betur. Hún hefur lengst af kennt siðfræði og heimspeki og er annt um um að nemendur sínir læri þau fög til gagns, enda hefur hún brennandi áhuga og trú nytsemi þekkingarinnar.
„Svo erum við einhverntíman að spjalla (um kennsluna), ég og Margrét (Súsanna Margrét Gestsdóttir) samkennari minn, sögukennari og sko þetta tengist allt þessi réttindaumræða og siðferði.
Í heimspekinni hafa verið vangaveltur um það alla tíð hvaðan mannréttindi koma. Heimspekilegi vinkillinn er: Hvað eru mannréttindi? Er þetta náttúruréttur, svona eins og forn-grikkirnir hugsuðu, við erum öll bræður og systur og börn guðs og erum öll jöfn, eða er þetta samfélagssáttmáli og á hverju byggir svona samfélagssáttmáli? Það hljóta að vera umræður um verðmæti og gildi? Og allt er þetta kjarni í siðfræði. Hvernig við breytum byggir á hvað við teljum vera rétt og rangt sem verður síðan forsendan fyrir mannréttindum. Þau eru skrifuð til til þess að standa vörð um ákveðin gildi.“
Bryndís hefur notað fjölda verkfæra í kennslunni, m.a. hlutverkaleik Rauða Krossins: Á flótta, heimsóknir frá Amnesty og öðrum samtökum, heimildamyndir, spil og fleira „Þetta er auðvitað málið. Að vera ekki alltaf inni í þessu boxi að troða einhverjum fróðleik, eða þannig, ekki að við notum þær aðferðir! En þannig lagað, hvort það séu ekki forsendur fyrir því að upplifa á eigin skinni. Bara að fara út í samfélagið! Af fjórum kennslustundum í viku, þá fellur ein niður. Nemendur klára þannig 20 klukkutíma af sjálfboðaliðavinnu“
Spurð hvort hún hafi lært eitthvað í áfanganum, svarar Weronika: „Ég held að þetta hafi hjálpað mér að vera bara með meiri svona … góðvild, og ég þarf ekki alltaf að gera eitthvað fyrir pening, þú veist ég er bara að gefa af því ég vil það“. Bryndís bætir við að þau séu að hefja nægjusaman nóvember og ætli að kafa á dýptina í neysluhyggju og þar verði Heimsmarkmið 12, ábyrg neysla, haft í fyrirrúmi.
„Ég sé fyrir mér þessa tengingu við UNESCO-skólann – ég er ekki bara að kenna mannréttindi, og umhverfismálin eru mér ofarlega í huga, þannig allt þetta tengist. Ég er alltaf að reyna að þjálfa nemendur í að sjá að allt þetta tengist, hegðun okkar á vesturlöndum, hugsanlega bitnar á umhverfi og mannréttindum fólks annarsstaðar í heiminum. Þessar tengingar, bæði við UNESCO og Heimsmarkmiðin er mjög auðvelt að sjá.“ Segir Bryndís.
Nemendur fylgja þeim ramma í sjálfboðaliðastörfum sínum að þau þurfa að vinna með góðgerðarsamtökum eða að málefni sem tengist á einn eða annan hátt mannréttindum og Bryndís leiðbeinir þeim og miðlar til þeirra tækifærum. Nemendur taka að sér fjölbreytt verkefni en algengt er að nemendur sæki í fatabúðir Rauða Krossins og manni þar vaktir. „Aðstoð við heimanám, það eru t.d. tveir sem eru sjálfboðaliðar hérna í skólanum. Við erum með stærstu deild fjölfatlaðra á landinu …“ Aldurstakmörk og skuldbinding til lengri tíma eru þrándur í götu nemenda Bryndísar en algengt er að sjálfboðaliðar þurfi að skuldbinda sig í hálft ár og verða orðnir 23 ára. Það kemur þó ekki að sök og hafa nemendur alltaf fundið eitthvað við hæfi, sumir jafnvel skuldbundið sig í hálft ár, og unnið langt yfir þær tuttugu klukkustundir sem námskeiðið krefst.
Í lok viðtals eru Dana og Wiktoria spurðar hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart þegar þau voru að læra um réttindi sín og mannréttindi almennt og þá kom ýmislegt í ljós.
„Ég vissi ekki að mannréttindi og umhverfsmál væru svona tengd. Ég vissi að það sem við kaupum og svona hefur áhrif á umhverfið, en ég vissi ekki að mannréttindi spili inn í það“
segir Wiktoria. Þetta er eitt af mörgum skiptum í viðtalinu sem hún lýsir því hvernig nemendurnir glíma við og læra um helstu áskorannir nútímans. Þetta eru ekki einföld mál og ekki annað hægt en að hrósa Wiktoriu og Dönu fyrir því hversu vel þær tjá sig og tengja þessar stóru hugmyndir við eigið líf.
Í lokin ítrekar Bryndís hversu mikilvægt er að allir skilji hvernig mannréttindi virka. Réttindi verða alltaf að vera gagnvart einhverjum. Ef einhver á réttindi, þá ber einhver skyldu. Þetta er ekki sjálfgefin þekking, hvað þá fyrir börn og ungmenni og því mikilvægt að regluleg og markviss mannréttindafræðsla standi öllum til boða. Raunar er það svo að mannréttindafræðsla býr til verkfæri sem gerir fólki kleift að standa vörð um eigin réttindi, velferð og vellíðan, fjölskydu sína, samfélagið og þau gildi sem leiða til friðar og betra samfélags.
Þann 25. Nóvember næstkomandi er Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi grasserar þegar enginn talar um það og þótt mörg hafi unnið gott starf, er töluvert langt á land.
Fjölmargir UNESCO-skólar halda uppi metnaðarfullu kynjafræðinámi fyrir nemendur sína og er mikilvægur liður í náminu að læra um kynbundið ofbeldi. Í raun svo mikilvægur að fjöldi nemenda hefur mikið um það að segja!
Félag Sameinuðu þjóðanna og Félag kynjafræðikennara tóku saman höndum í tilefni dagsins. Við hvetjum (og styðjum) skóla til þess að skoða hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar í samfélaginu. Með þessu samstarfi leggjum við Heimsmarkmiði 5 lið og könnum um leið hvernig UNESCO-skólar geta unnið saman að Alþjóðadögum.
Skólum er bent á að nýta sér það góða efni sem má finna á Stoppofbeldi. Efnið er praktískt og styður við heildrænt sem og stakar kennslustundir um kynbundið ofeldi. Það er tilvalið fyrir daginn! Og reyndar alla aðra daga! Auk þes settum við saman nokkur ‘stafræn veggspjöld’ Veggspjöldin geta farið á samfélagsmiðla, upplýsingaskjái, innri vefi og fleiri staði. Barnaheill heldur líka uppi gagnvirkum vef fyrir unglinga og væri ráð að senda hlekk á vefinn beint á nemendur á unglingastigi grunnskóla og framhaldsskólanemendur.
En hvað er það sem Framhaldsskólanemendur höfðu að segja um kynjafræði og kynbundið ofbeldi? Margt og mikið, en við tókum saman fimm tilvitnanir nemenda sem undirstrika mikilvægi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum sem afl gegn kynbundnu ofbeldi, og settum upp sem veggspjöld. Það má varpa þem á upplýsingaskjái, setja á samfélagfsmiðla, deila með nemendum og aðstandendum eða vinna með þau á annan hátt.
Veggspjöldin eru hugsuð sem hugvekja og þægileg leið til þess að minna á eða hefja samtalið um ofbeldisforvarnir, en við hvetjum kennara og nemendur til þess að fræðast, og hugsa hvað þau geta gert til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í skólunum sínum, og víðar.
Frumskref í vernd líffræðilegs fjölbreytileika en fjárstuðning skortir enn.
Sextánda ráðstefna aðila að samningnum um líffræðilega fjölbreytni (COP16), var haldin Cali í Kólumbíu fyrr í mánuðinum. Ráðstefnan markar lykilskref í alþjóðlegri viðleitni til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og fjalla um djúpstæð tengsl hans við heilsu mankyns, loftslags áskoranir og réttindi frumbyggja. Þessi ráðstefna hefur ekki aðeins styrkt umgjörð um verndun heldur hefur hún einnig kynnt nýjar aðgerðir til að deila ávinningnum af líffræðilegri fjölbreytni. Líffræðilegur fjölbreytileiki (e. biodiversity) vísar til fjölbreytileika alls lífs á jörðinni, sem nær yfir allar lífverur og vistkerfi þeirra. Líffræðilegur fjölbreytileiki er grunnurinn að heilbrigði vistkerfa og þjónustu þeirra, eins og loftslagsstjórnun, fæðuframboð og vatnshreinsun. Að vernda líffræðilegan fjölbreytileika er því mikilvægt fyrir jafnvægi náttúrunnar og sjálfbæra þróun samfélaga.
Gustavo Petro, forseti Kólumbíu
Alhliða alþjóðleg aðgerðaáætlun um líffræðilegan fjölbreytileika og heilsu
Einn af mest umbreytandi áföngum COP16 er samþykkt alþjóðlegrar aðgerðaáætlunar um líffræðilegan fjölbreytileika og heilsu, þar sem lögð er áhersla á „One Health“ nálgunina, sem viðurkennir samspil heilsu vistkerfa, dýra og manna. Þessi stefna tekur á hlutverki líffræðilegs fjölbreytileika í baráttunni gegn súnusjúkdómum (mannsmitandi dýrasjúkdómar) og langvinnum sjúkdómum, á sama tíma og stuðlað er að sjálfbærum vistkerfum. Með því að takast á við helstu áhrifaþætti hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika og heilsufarsvandamála – eins og skógareyðingu, mengun og loftslagsbreytingar – stefnir áætlunin að því að bæta bæði umhverfis- og lýðheilsu. Ákvörðun COP kallar eftir því að lönd tilnefni innlenda tengiliði fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og heilsu, sem tryggir samþættingu stefnumála á sviði landbúnaðar, skipulags og náttúruverndar. Að auki mun náið samstarf við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) styðja við þróun verkfæra til að fylgjast með heilsufarslegum ávinningi líffræðilegs fjölbreytileika.
Áhersla á þekkingu frumbyggja og nýjar verndaraðgerðir fyrir hafið
COP16 styrkti hlutverk þekkingar frumbyggja í verndun líffræðilegs fjölbreytileika með nýrri, varanlegri undirstofnun sem fjallar um réttindi frumbyggja og annara staðbundnara samfélaga. Þessi stofnun mun tryggja að rödd frumbyggja sé í forgrunni við framkvæmd markmiða sáttmálans, með viðurkenningu á dýrmætri þekkingu og starfsháttum sem þessi samfélög leggja til sjálfbærra vistkerfa. Önnur mikilvæg áhersla á COP16 var líffræðilegur fjölbreytileiki hafsins, einkum skilgreining vistfræðilega eða líffræðilega mikilvægra hafsvæða (EBSAs). Þetta ferli, sem hafði staðið í stað í átta ár, hefur nú verið endurvakið og gerir löndum kleift að bera kennsl á og vernda mikilvæg hafsvæði til stuðnings alþjóðlegu 30×30 verndarmarkmiðinu – að vernda 30% hafsvæða fyrir árið 2030.
Photo/ Juan Cano, Colombia Presidency
Skuldbinding til að vernda villt dýralíf og berjast gegn ágengum tegundum
Á ráðstefnunni var lögð mikil áhersla á sjálfbæra stjórn á dýralífi í náttúrunni og fjallað um tengslin milli hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika, lýðheilsu og sjúkdóma. Með samstarfi við stofnanir eins og CITES og FAO leitast COP16 við að styrkja verndarramma fyrir dýralíf. Auk þess er stjórnun ágengra tegunda efld með auknu alþjóðlegu samstarfi, nýjum gagnagrunnum og bættum viðskiptareglum.
Umræða um fjármagn til verndar líffræðilegum fjölbreytileika
Með metnaðarfullu markmiði í Kunming-Montreal alþjóðlegu rammaáætluninni um líffræðilegan fjölbreytileika (KMGBF) tók COP16 mikilvæg skref til að auka fjármag til verndar líffræðilegum fjölbreytileika. Á ráðstefnunni var settur á laggirnar Kunming líffræðileikafjárfestingarsjóðurinn (KBF) með 200 milljóna dollara framlagi frá Kína, til viðbótar við framlög frá 11 öðrum löndum. Þetta frumkvæði veitir fjárstuðning til verkefna sem tengjast líffræðilegum fjölbreytileika í þróunarlöndum og viðkvæmum vistkerfum, með það að markmiði að ná KMGBF markmiðum fyrir árið 2030. Markmiðið var að safna 200 milljörðum dollara árlega fyrir árið 2030 til stuðnings verkefna tengt líffræðilegum fjölbreytileika, það gekk hinsvergar ekki upp. Einnig hófst umræða um að beina 500 milljörðum dollara frá skaðlegum niðurgreilsum, en engin niðurstaða var náð í þeim málum. COP16 náði ekki markmiðum sínum vegna skorts á samstöðu um mikilvæg fjármagnsúrræði fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Fulltrúar gátu ekki komið sér saman um áætlun til að tryggja 200 milljarða dollara sem þarf árlega til að ná markmiðum Kunming-Montreal rammaáætlunarinnar, en ríkin voru ósammála um fjármögnunarskuldbindingar. Þrátt fyrir metnaðarfull markmið hafa einungis 15% ríkja skilað inn aðgerðaáætlunum um líffræðilegan fjölbreytileika, og fjárstuðningurinn sem lofaður var reyndist ófullnægjandi. Togstreita magnaðist enn frekar þar sem fulltrúar glímdu við að samþætta dagskrá líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsmála, og ráðstefnan undirstrikaði slæms stöðu lífríkis á jörðunni án þess að ná fram raunhæfum skrefum til að bregðast við þeim. Þrátt fyrir framfarir í málefnum frumbyggja og sanngjarnri skiptingu á ávinningi lauk COP16 án afgerandi aðgerða eða nægilegra fjármuna, sem undirstrikar brýnni þörf fyrir sterkari alþjóðlega skuldbindingu til verndunar líffræðilegs fjölbreytileika.