Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til starfa í Írak

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynnti í dag að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði verið skipuð staðgengill sérstaks fulltrúa hans í Írak. Hún mun stýra pólitiskri deild og hafa kosningamál á sinni könnu í UNAMI, Aðstoðarsendisveit Sameinuðu þjóðanna í Írak (Deputy-Special Representative of the Secretary General).

Ingibjörg tekur við starfinu í mars en skipunin er til eins árs í senn, líkt og aðrar skipanir af sama meiði innan Sameinuðu þjóðanna. Hún mun hafa aðsetur í Bagdad, höfuðborg Íraks. Í samtali við fréttamiðla segir Ingibjörg að verkefnið sé í senn áhugavert og krefjandi. „Það verður spennandi að fylgjast með þess­um málum enda kosningar í júní. Öryggisástandið í landinu hefur oft verið verra og tækifærin eru mikil,“ segir hún.

Bráðabirgðastjórn situr nú við völd í Írak eftir að ríkisstjórn landsins féll í lok árs 2019, en kjörsókn hafði aðeins verið 44% í kosningum 2018 þegar ríkisstjórnin komst til valda. „Það sem Sameinuðu þjóðirnar eru að gera þarna er að aðstoða stjórnvöld við að skipuleggja kosningarnar og undirbúa jarðveginn, en þetta er allt á forsendum Íraka sjálfra,“ segir Ingibjörg. Hún segir mikið verk að vinna í landinu og helsta markmiðið að aðstoða stjórnvöld við að auka traust á kosning­um sem hafi bersýnilega ekki verið til staðar síðast. „Fólk þarf að treysta niðurstöðum kosninganna.“

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur viðs störfum af Alice Walpole frá Bretlandi. Ingibjörg Sólrún er fyrrverandi borgarstjóri, utanríkisráðherra og alþingismaður. Hún starfaði hjá UN Women í Kabúl og stýrði skrifstofu sömu stofnunar fyrir í Istanbúl. Nú síðast var hún yfirmaður lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE).

Ævar Þór Benediktsson fyrsti sendiherra UNICEF á Íslandi

Ævar Þór Benediktsson hefur verið skipaður sendiherra UNICEF á Íslandi, fyrstur Íslendinga. Hlutverk sendiherra er að styðja við baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. „Þetta er mikill heiður og ég mun gera mitt allra besta til að standa undir nafni sem sendiherra UNICEF á Íslandi,“ sagði Ævar, sem tók formlega við hlutverkinu við athöfn á skrifstofu UNICEF í gær, á alþjóðadegi menntunar. Ævar skrifaði þar undir samning til tveggja ára og siðareglur samtakanna

„Það er mikil ánægja að staðfesta Ævar Þór Benediktsson sem fyrsta sendiherra UNICEF á Íslandi. Hann er einstaklega vel að nafnbótinni kominn enda hefur hann helgað feril sinn börnum, með öllum sínum fjölbreyttu hæfileikum. Við höfum notið farsæls samstarfs við hann um langa hríð og því byggjum við þetta nýja skref á góðum grunni. Ævar Þór er góð fyrirmynd sem nær jafnt til barna og fullorðinna og við hlökkum til þess að vinna markvisst með honum að réttindum barna. Það verður spennandi að sjá hvað við munum gera saman,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

 

Ævar í hópi heimsþekktra sendiherra

July 24, 2014. Port-au-Prince, Haiti. UNICEF Supporter P!nk visits a UNICEF-supported primary school and playground where children engage in learning, creative play and social development.

Sendiherrar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eru í hópi vel þekktra og virtra einstaklinga úr heimi listsköpunar, vísinda, bókmennta, fjölmiðla og íþrótta svo fá dæmi séu nefnd.  Sendiherrar UNICEF eru fyrst og síðast valdir vegna þeirrar virðingar sem þau njóta og þeirrar mannúðar sem þau sýna í lífi og starfi. Bætist Ævar þar í hóp sendiherra landsnefnda UNICEF um allan heim, þ.á.m söngkonuna P!nk, uppistandarann Eddie Izzard, leikarann Evan McGregor, leikkonurnar Trine Dyrhold, Selena Gomez og Lucy Liu, og knattspyrnumanninn Sergio Ramos. Sendiherrar velja sér áherslusvið til tveggja ára, og valdi Ævar að leggja áherslu á réttindi barna til menntunar og menningar. Það var því vel við hæfi að Ævar hljóti nafnbótina á alþjóðadegi menntunar.

„Menntun og menning skipta miklu máli og eru tvær af grunnstoðum þess sem móta okkur sem manneskjur. Samspil þessara tveggja þátta er eitthvað sem hefur litað störf mín í gegnum árin og þess vegna hlakka ég til að finna nýjar og spennandi leiðir til að nálgast þær og kynna fyrir komandi kynslóðum,“ segir Ævar.

 

Menntun fyrir öll börn forgangsatriði

Réttindi barna til menntunar hefur verið eitt af forgangsmálum UNICEF síðan samtökin voru stofnuð. Öll börn eiga rétt á góðri grunnmenntun og UNICEF trúir því að menntun sé ekki forréttindi heldur skýr réttindi allra barna. Á síðustu áratugum hefur mikill árangur náðst í að tryggja aðgengi barna að menntun en vegna áhrifa kórónaveirunnar á skólastarf um allan heim er þessi árangur í mikilli hættu ef ekkert er að gert.

Þegar skólar þurftu að loka í vor vegna útbreiðslu COVID-19 hafði það áhrif á menntun hátt í 90% allra skólabarna í heiminum, á einn eða annan hátt. Kórónaveiran hefur aukið enn frekar ójöfnuð í tækifærum barna til þess að stunda nám. Að minnsta kosti þriðjungur skólabarna í heiminum hafa ekki þau tól og tæki sem þarf til að geta stundað fjarnám (í gegnum sjónvarp, útvarp, síma eða tölvu). Það dylst engum hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn og ungmenni og því lengur sem skólar eru lokaðir og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni upp úr námi.

UNICEF hefur brugðist við heimsfaraldrinum á ýmsan hátt, meðal annars komið á fjarkennslu í gegnum útvarp í Rúanda, sett upp viðunandi hreinlætisaðstöðu og dreift spritti og grímum í skólum í Jemen til að tryggja sóttvarnir, útdeilt námsgögnum í flóttamannabúðum í Jórdaníu og unnið með foreldrum skólabarna í Úkraínu til að þau geti stutt menntun barna sinna á þessum tímum, svo nokkuð sé nefnt. Verkefnið er risavaxið, enda vinnur UNICEF í 190 löndum. UNICEF hefur einnig sent ákall til ríkisstjórna heimsins um að brúa stafræna bilið og efla leiðir til fjarkennslu og biðlað til ríkisstjórna að forgangsraða opnun skóla þegar hægt er. Að lokum leggur UNICEF áherslu á að kennarar um allan heim verði settir í forgang þegar byrjað er að bólusetja gegn kórónaveirunni.

 

Frétt er tekin af heimasíðu UNICEF.is

Bandaríkin á ný til liðs við Parísarsamninginn og WHO

Úrsagnir Bandaríkjanna úr Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og Parísarsamningum um loftslagsbreytingar hafa verið afturkallaðar. Tilskipanir þessa efnis voru undirritaðar örfáum klukkustundum eftir að Joseph Biden sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna í gær.   

Aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna var formlega tilkynnt í vikunni um að Bandaríkin gengju á ný til liðs við Parísarsamninginn. Bandaríkin undirrituðu samninginn 2015. Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti sagði sig frá samningnum. Að sögn Stéphane Dujarric talsmanns Guterres aðalframkvæmdastjóra mun Parísarsamningurinn taka gildi í Bandaríkjunum 19.febrúar 2021.

Ákvörðun fyrrverandi Bandaríkjaforseta um að segja skilið við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina WHO hafði hins vegar ekki tekið gildi. Biden lét verða eitt sitt fyrsta verk að skipa svo fyrir að æðsti maður smitsjúkdómamála í Bandaríkjunum, Dr. Anthony Fauci skyldi taka þátt í fundi framkvæmdastjórnar WHO í dag.

Lyftistöng fyrir markmið um kolefnisjafnvægi

Aðalframkvæmdastjórinn fagnaði þessum yfirlýsingum. Hann minnti á að á nýliðnum leiðtogafundi hefðu ríki sem stóðu fyrir helmingi losunar koltvísýrings í andrúmsloftið, heitið því að stefna að kolefnisjafnvægi fyrir miðja öldina.

„Yfirlýsing Bidens forseta um skuldbindingu Bandaríkjanna hækkar þetta hlutfall í tvo þriðju. En það er enn mikið verk óunnið,” sagði Guterres.

„Við hlökkum til þess að Bandaríkin taki forystu í að hraða aðgerðum ríkja heims til að ná kolefnisjafnvægi. Til þess þarf nýjar landsáætlanir í samræmi við Parísarsamninginn. Þeim ber að fela í ser metnaðarfull markmið fyrir 2030. Ekki má heldur gleyma fjármögnun loftslagsaðgerða í aðdraganda COP26 fundarins í Glasgow síðar á árinu,“ sagði í yfirlýsingu aðalframkvæmdastjórans.

Tími einingar

Jafnramt fagnaði hann ákvörðun Bidens um WHO. „Nú er tími einingar og að alþjóða samfélagið taki höndum saman til að stöðva veiruna. Takast þarf á við hrikalegar afleiðingar hennar,“ sagði Guterres.

Sérstaklega skiptir málið að Bandaríkin taki þátt í COVAX samstarfinu um að útvega bóluefni. Vonast er til að þetta verði tilraunum til að koma bóluefni gegn COVID-19 til allra landa heims, lyftistöng.

Heimsmarkmiðin – 1. Engin fátækt

Að útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar

Nú þegar komið fram í janúarbermánuð kynnum við þema mánaðarins, sem er heimsmarkmið 1 – engin fátækt. Á árinu 2021 munum við kynnast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 betur í gegnum þema hvers mánaðar. 

Birtar verða greinar um heimsmarkmið SÞ hvert fyrir sig á árinu 2021. Jafnframt stendur til að það fylgi með tilheyrandi ítarefni og greinagóðar upplýsingar, kynningar og fræðsla um það hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðum SÞ. Þannig geti allir þessir ólíku aðilar lagt sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.  

Ein af þeim spurningum sem vert er að velta upp og leita svara við er  þessi: Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum SÞ 

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á eitt getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags- og umhverfisbreytingar, slæmt efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.  

Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, mun líf allra og umhverfi batna til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu þvert á landamæri svo að það verði mögulegt. 

1.Engin fátækt

Staðan á Íslandi

Helstu áskorarnirnar á Íslandi eru:

  • Styrkja stöðu fólks sem stendur höllum fæti, með sérstakri áherslu á börn
  • Útrýma launamun, meðal annars á grundvelli þjóðernisuppruna

Mikill árangur hefur náðst á heimsvísu í baráttunni gegn fátækt síðustu ár en kórónuveirunnar hefur sett svip sinn á stöðu fátækra um heim allan. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd.

Kórónuveiran hefur þrýst fólki niður í örbirgð sérstaklega í þróunarríkjum – hungur, húsnæðisleysi, skort á tryggri lífsafkomu, lélegt eða ekkert aðgengi að menntun, skort á heilbrigðisþjónustu og annarri grunnþjónustu auk félagslegrar útskúfunar.

Ísland er velferðarríki á vestrænan mælikvarða og lífskjör íslenskra ríkisborgara því almennt talin góð samanborið við aðrar þjóðir heimsins. Nýjustu mælingar sýna að á Íslandi ríkir mestur tekjujöfnuður og minnst fátækt meðal Evrópuþjóða  en þrátt fyrir þær jákvæðu niðurstöður býr ákveðinn hópur fólks enn við efnislegan skort og fátækt.

Eitt af megin markmiðum heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir og því er mikilvægt að hafa það að leiðarljósi við innleiðingu fyrsta markmiðsins um að útrýma fátækt á Íslandi. Það getur verið vandkvæðum bundið að skilgreina fátækt, sér í lagi er kemur að alþjóðasamanburði.

Það er stefna íslenskra stjórnvalda að styrkja sérstaklega stöðu fólks sem stendur höllum fæti og gera tillögur til úrbóta á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu og útrýma fátækt í öllum myndum.

Hér má finna fjöllun á fundi í Háskóla Íslands frá 19. nóvember 2019 um heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun númer eitt: Engin fátækt

Fátækt sýnileg, áþreifanleg og fer vaxandi

Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar hjálparsamtaka á Íslandi er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og fólk á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Æ fleira fólk af erlendum uppruna hefur ekki aðrar bjargir en að framfleyta sér og sínum með fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Þar kemur einnig fram að ellilífeyrisþegnar og láglaunafólk leiti einnig til hjálparsamtaka en þó í minna mæli. Þó hefði komið fram í samtölum að fátækt væri sýnileg og áþreifanleg staðreynd sem færi vaxandi.

Í skýrslunni segir að almennt þurfi að útvíkka og bæta þau úrræði sem nýtast fátæku fólki, einkum með sérstökum úrræðum á tímum heimsfaraldursins. Þar segir einnig að endurmeta þurfi og útfæra úrræði fyrir fólk sem bíður örorkumats og styðja betur við fólk af erlendum uppruna. Loks var bent á mikilvægi þess að bjóða upp á varanleg úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda, á borð við geðröskun og fíkniefnavanda.

Höfundar skýrslunnar eru þær: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni alþjóðasamfélagsins til að útrýma fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Unnið er að þeim markmiðum meðal annars með fjárframlögum til tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, með sérstakri áherslu á samvinnu við fátæk og óstöðug ríki og að bæta stöðu þeirra sem búa við lökust lífskjör.

Tvíhliða samstarfslönd Íslands eru Malaví og Úganda og njóta þau mests stuðnings frá Íslandi auk Mósambík, Palestínu og Afganistan, sem einnig fá umtalsverðan íslenskan stuðning í gegnum fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Í öllum þeim ríkjum beinist þungi stuðningsins frá Íslandi að þeim hópum sem búa við sárafátækt og kerfisbundinn ójöfnuð, einkum í dreifbýli.

Hætta á mikilli fjölgun fátækra 2020-2021

Milljónir manna í heiminum búa við sárustu fátækt. Árið 2018 þurftu 8% jarðarbúa að gera sér að góðu að lifa á andvirði 1.90 Bandaríkjadals á dag. Fátækt er ekki aðeins efnahagslegt fyrirbæri heldur margþætt vandamál. Hvort tveggja felur það í sér lágar tekjur og skort á grundvallarforsendum til að lifa í sæmd.

Sameinuðu þjóðirnar telja að líta bera á fátækt sem marghliða vanda. Félagslegu réttlæti verði ekki fullnægt án þess að ráðast gegn umhverfislegu óréttlæti svo sem loftslagsbreytingar.

Fólk sem býr við fátækt upplifir margs konar innbyrðis tengdan skort sem hindrar það í því að njóta réttinda sinna og festir það í fátækragildrunni. Nefna má skort á næringarríkri fæðu, takmarkaðan aðgang að heilsugæslu, hættulegar vinnuaðstæður, ójafnan aðgang að réttarkerfi, póiltískt valdaleysi og menntunarskort.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar  þrýstir fólki niður í örbirgð

COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér stórfellt manntjón um allan heim. Hann hefur haft í för með sér fordæmislausa áskorun á lýðheilsu, fæðukerfi og atvinnulíf. Efnahagslegur og félagslegur skaði er óheyrilegur: tugir milljona eiga á hættu að verða örbirgð að bráð. Talið er að flokkur fátækra í heiminum muni gildna um 115 milljónir á þessu ári. Þetta er fyrsta fjölgun fátækra í áratugi. Einnig er búist við að fjöldi vannærðra aukist en nú er talið að 690 milljónir líði hungur. Sú tala gæti hækkað um 132 milljónir fyrir í byrjun ár 2021.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á þörfina á öflugum aðgerðum til að berjast gegn fátækt á þessum tímum. Faraldurinn krefst öflugra sameiginlegra aðgerða og aðal framkvæmdastjórinn hvetur ríkisstjórnir heims til að hraða efnahagslegri umbreytingu með fjárfestingum í sjálfbærri endurreisn.

Ríki þurfa á nýrri kynslóð áætlana um félagslega vernd, sem nær til fólks í óformlega hagkerfinu. Eina örugga leið okkar út  úr faraldrinum er að taka höndum saman um sameiginlegan málstað.

Engin fátækt: Undirmarkmið

1.1       Eigi síðar en árið 2030 hafi sárri fátækt verið útrýmt alls staðar. Miðað verði við að enginn hafi minna á milli handanna en sem nemur 1,25 bandaríkjadölum á dag til að framfleyta sér.

1.2       Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.

1.3       Innleidd verði viðeigandi félagsleg kerfi í hverju landi öllum til handa, þ.m.t. lágmarksframfærsluviðmið, sem styðji frá og með árinu 2030 allverulega við fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu.

1.4       Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir, karlar sem konur, og þá einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og hafi sama aðgengi að grunnþjónustu, eignarhaldi á og yfirráðum yfir landi og öðrum eignum, erfðum, náttúruauðlindum, viðeigandi tækninýjungum og fjármálaþjónustu, þ.m.t. fjármögnun smærri fjárfestinga.

1.5       Eigi síðar en árið 2030 verði staða fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu styrkt með fyrirbyggjandi aðgerðum til að bregðast við alvarlegum atburðum af völdum loftslagsbreytinga, efnahagslegum eða félagslegum áföllum, umhverfisskaða eða hamförum.

1.A      Tryggð verði margvísleg úrræði fyrir þróunarlönd, einkum þau verst settu, þar á meðal með aukinni þróunarsamvinnu, til að þeim standi til boða fullnægjandi og áreiðanleg aðstoð og hrint verði í framkvæmd áætlunum sem miða að því að útrýma fátækt í allri sinni mynd.

1.B       Mótuð verði traust umgjörð um stefnumál, alþjóðleg, svæðisbundin og á landsvísu, sem byggist á þróunaráætlunum sem taka einkum mið af stöðu fátækra og kynjamismunun, í því skyni að tryggja að aukið fjármagn fari í aðgerðir sem miða að því að útrýma fátækt.

Kolefnisjafnvægi fyrir 2050: Brýnasta erindi heimsins

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ritað kjallaragrein í tilefni af loftslagsfund samtakanna ásamt Bretum og Frökkum í tilefni 5 ára afmælis Parísarsamningsins. Sem birtist á Stundinni

Kolefnisjafnvægi fyrir 2050: Brýnasta erindi heimsins

-eftir António Guterres aðalframkvæmastjóra Sameinuðu þjóðanna

Öflug hreyfing í þágu kolefnisjafnvægis er að taka á sig mynd nú þegar þess er minnst að fimm ár eru liðin frá því þeim tímamótum í loftslagsmálum sem Parísarsamningurinn markaði. Í næsta mánuði munu ríki sem bera ábyrgð á 65 af hundraði af allri losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum, hafa skuldbundið sig til þess að ná kolefnisjafnvægi fyrir miðja öldina. Þessi ríki hýsa 70% af hagkerfi heimsins.

 

Koltvísýringur aldrei meiri

Á sama tíma stefnir í óefni í loftslagsmálum. Losun hefur að vísu minnkað tímabundið vegna COVID-19 faraldursins. Samt sem áður hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu aldrei verið meiri og fer vaxandi. Síðasti áratugur var hinn hlýjasti í sögunni; íshellan á norðurskautinu í október hefur aldrei verið þynnri. Dómsdagseldar, flóð, þurrkar og ofviðri eru að verða daglegt brauð. Fjölbreytni lífríkisins er að hruni komin, eyðimerkur breiðast út, höfin hlýna og fyllast af plasti. Vísindin segja okkur að ástandið muni enn versna ef ekki verði dregið úr framleiðslu eldsneytis úr jarðefnum um 6% á ári fram til 2030.

Þess í stað er útlit fyrir 2% árlegri aukningu.

 

Óvænt tækifæri

Endurreisn að loknum heimsfaraldrinum gefur okkur óvænt en mikilvægt tækifæri til að ráðast gegn loftslagsbreytingum, hlúa að umhverfinu, endurnýja hagkerfi og hugsa framtíðina upp á nýtt. Hér er það sem ber að gera:

Í fyrsta lagi þurfum við að skapa alheimsbandalag sem stendur undir nafni um kolefnisjafnvægi fyrir 2050.

Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til þess að ná þessu markmiði. Bretland, Japan og Lýðveldið Kórea og meir en 110 önnur ríki hafa tekið í sama streng. Og það gerir einnig verðandi Bandaríkjastjórn. Kína hefur heitið því að ná þessu marki fyrir 2060.

Hverju ríki, borg, fjármálastofnun og fyrirtæki ber að semja áætlanir um kolefnisjafnvægi. Þeim ber að grípa nú þegar til aðgerða til þess að sveigja inn á þessa braut. Það felur í sér að losun í heiminum minnki um 45% fyrir 2040 sé miðað við 2010. Í nóvember á næsta ári verður haldin Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Glasgow. Samkvæmt Parísarsamningnum um loftslagmál ber ríkisstjórnum að standa skil á sífellt metnaðarfyllri skuldbindingum á fimm ára fresti. Þessar skuldbindingar nefnast Landsmarkmið (Nationally Determined Contributions, NDCs) og þær ættu að fela í sér skýran vilja til að ná kolefnisjafnvægi.

Tæknin er okkur hliðholl. Það er ódýrara að reka þau kolaorkuver sem til eru en að byggja ný frá grunni. Hagfræðileg greining staðfestir þetta. Að mati Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) munu umskiptin yfir í hreina orku skapa 18 milljónir starfa nettó og er þá tekið tillit til þeirrar atvinnu sem mun hverfa með gamla orkugeiranum. En við verðum þó að viðurkenna mannlegan fórnarkostnað við það að kasta kolefninu fyrir róða. Það ber að slá skjaldborg félagslegrar verndar um starfsfólkið. Greiða ber fyrir endurþjálfun þess svo að umskiptin verði réttlát.

 

Vegvísir veraldar til betri framtíðar

Heimsmarkmiðin eru vegvísir okkar.

Í öðru lagi þarf að laga fjármálakerfi heimsins að Parísarsamningnum og Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun; vegvísi veraldar til betri framtíðar.

Það er kominn tími til að verðleggja kolefni. Binda verður enda á niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis. Stöðva verður byggingu nýrra kolaorkuvera. Færa verður skattbyrðina frá tekjum yfir á kolefni, frá skattgreiðendum til þeirra sem menga. Ástæða er til að gera það að skyldu að gera loftslagsleg reikningsskil í fjármála-ákvörðunum. Þá ættu allar ákvarðanir í efnahags- og fjármálum að fela í sér markmið um kolefnisjafnvægi. Bönkum ber að laga útlán sín að kolefnisjafnvægi og eigendur og stjórnendur sjóða ættu að stefna að því að gera eignasafn sitt kolefnissnautt.

Aðlögun og viðnámsþróttur

Í þriðja lagi er afar brýnt að stuðla að bættri aðlögun og auknum viðnámsþrótti til þess að koma til móts við þá sem nú þegar verða fyrir barðinu á þungbærum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Sú er ekki raunin í dag. Aðeins 20% þess fjár sem varið er til loftslagsmála rennur til aðlögunar. Þetta er ljón í vegi viðleitni okkar til þess að draga úr hamfaraskaða. Þetta er heldur ekki skynsamlegt. Hver króna sem fjárfest er í aðlögun skilar sér fjórfalt til baka. Aðlögun og viðnámsþróttur eru litlum þróunar-eyríkjum sérlega mikilvæg þar sem loftslagsbreytingar eru spurning um sjálfa tilveru þeirra.

Á næsta ári gefast fjölmörg tækifæri til að takast á við neyðarástand heimsins í loftslagsmálum. Á dagskrá eru meiriháttar ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og önnur verkefni á sviði fjölbreytni lífríkisins, hafsins, samgangna, orku, borga og fæðukerfa. Einn traustasti bandamaður okkar er náttúran sjálf. Lausnir sem byggja á náttúrulegum lausnum geta stuðlað að þriðjungi nettó-niðurskurðar á losun gróðurhúsalofttegunda sem markmið Parísarsamningsins krefjast. Þekking frumbyggja getur verið okkur leiðarljós. Og þörf er á fleiri konum í hópi þeirra sem taka ákvarðanir nú þegar mannkynið leitar leiða til að vernda umhverfið og byggja upp grænt hagkerfi.

 

Vatnaskil

COVID og loftslagið hafa leitt okkur að vatnaskilum. Okkur er ófært að hverfa aftur til þess hversdagsleika sem fól í sér ójöfnuð og veikleika. Þess í stað ber okkur að feta öruggari og sjálfbærari braut. Þetta er margslungin þolraun í stefnumótun og brýn siðferðileg prófraun. Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu varða veginn næstu áratugi. Okkur ber að líta á endurreisn eftir faraldurinn og aðgerðir í loftslagsmálum sem tvær hliðar á sama pening.

 

 

Helstu stefnunmál Sameinuðu þjóðanna árið 2021 er að ná kolefnisjafnvægi í heiminum fyrir miðja öld

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að viðleitnin við að ná kolefnisjafnvægi í heiminum fyrir miðja öldina verði helsta stefnumál samtakanna árið 2021.

 

 „Helsta metnaðarmál Sameinuðu þjóðanna árið 2021 verður að mynda alheimsbandalag í þágu kolefnisjafnvægis fyrir 2050,” sagði aðalframkvæmdastjórinn í nýársávarpi sínu fyrir 2021.

Hver ríkisstjórn, hver borg, hvert fyrirtæki og hver einstaklingur hefur hlutverki að gegna í að ryðja þessu sjónarmiði braut.”

Með kolefnisjafnvægi er átt við að nettó losun koltvísýrings verði engin.

 

 

Ljósglæta í myrkrinu

Guterres sagði að 2020 hefði verið sérlega erfitt ár. Ljósglæta hefði þó sést í myrkrinu sem kynni að lýsa upp komandi ár. Sem dæmi nefndi hann:

  • Fólk sem hefði rétt nágrönnum og ókunnugu fólki hjálparhönd.
  • Framlínustarfsfólk sem lagði sig allt fram.
  • Vísindamenn sem þróuðu bóluefni á mettíma.
  • Ríki sem tilkynntu um nýjar skuldbindingar til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir.

Guterrres sagði að lærdóm mætti draga „af þessu erfiðasta ári.” “Ef við vinnum saman af einhug og samstöðu geta þessir geislar vonar náð um allan heim.” 

Oddviti Sameinuðu þjóðanna sagði að 2020 hefði verið ár prófrauna, harmleikja og tára.

COVID-19 hefði sett líf okkar á hvolf og valdið heiminum þjáningum og sorg.

„Við höfum misst marga ástvini – og faraldurinn geisar enn með nýjum bylgjum veikinda og dauða,” bætti Guterres við. „Fátækt, ójöfnuður og hungur fara vaxandi. Störf tapast og skuldir aukast. Börn eiga erfitt uppdráttar.

Heimilisofbeldi hefur  og óöryggi magnast hvarvetna.

 

Græða sár

Loftslagsbreytingar og COVID-19 fela í sér kreppu sem einungis er hægt að glíma við í sameiningu. Þeirri viðleitni ber að stefna í átt til framtíðar þar sem sjálfbærni og hagur allra er hafður að leiðarljósi“.

Gutterres hvatti til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu. „Með samstilltu átaki getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslagsbreytingar, stöðvað útbreiðslu COVD-19 og helgaði árið 2021 því að græða sár.

Græða sár af völdum banvænnar veiru. Græða særð hagkerfi og samfélög. Græða sár sundrungar. Og hefja lækningu plánetunnar.

,,Þetta ættu að vera nýársheit okkar fyrir 2021,“ sagði Guterres að lokum.

Guðlaugur Þór – Ráðherra á hátíðarfundi í tilefni 75 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna

Mannréttindi og 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna voru til umfjöllunar á opnum fjarfundi sem haldinn var í tilefni af alþjóðamannréttindadeginum sem haldinn er hátíðlegur 10. desember ár hvert. Í ávarpi sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hélt á fundinum lagði hann áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um hinar Sameinuðu þjóðir. COVID-19 heimsfaraldurinn hefði sýnt rækilega hve miklu máli skipti að ríki heims geti átt samstarf um brýn úrlausnarefni, svo sem fjármögnun og dreifingu á bóluefni, og hversu mikilvægt það er að gott alþjóðastofnanakerfi sé til staðar til byggja það samstarf á.

Ísland átti sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um átján mánaða skeið 2018-2019 og hefur tilkynnt um framboð vegna setu í ráðinu heilt kjörtímabil 2025-2027. „Okkar reynsla sýnir að jafnvel smáríki geta haft jákvæð áhrif á þeim vettvangi, með því að tala skýrt og skorinort fyrir mannréttindum og virðingu fyrir þeim,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í ávarpi sínu í gær.

Fundurinn í 10. desember var haldinn á vegum utanríkisráðuneytisins, Höfða – friðarseturs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Þátttakendur í pallborðsumræðum um þau tímamót sem Sameinuðu þjóðirnar standa nú á voru Richard Gowan frá hugveitunni International Crisis Group, Rita French, sendiherra mannréttindamála í bresku utanríkisþjónustunni, með aðsetur í Genf, Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, og Niels Nagelhus Schia, fræðimaður við norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI), en Noregur mun um áramótin taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Umræðum stjórnaði Pia Hansson, framkvæmdastjóri Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Utanríkisráðherra harmaði í ávarpi sínu hve hart væri sótt að mannréttindum, lýðræði og fjölþjóðasamvinnu um þessar mundir. Afar brýnt væri að taka slaginn fyrir þessi gildi með þeim tækjum sem tiltæk væru. Einnig væri mikilvægt að tryggja að einræðisríki, eða ríki þar sem grundvallarmannréttindi eru ekki virt, næðu ekki undirtökunum í starfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðstofnana.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson - utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á hátíðarfundi í tilefni 75 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson – utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á hátíðarfundi í tilefni 75 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna.

Ísland leiðandi í nefnd um þróunarmál og mannréttindi

New York – Nefndarstarf á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur verið með heldur óvenjulegu sniði þetta árið. Flestar samingaviðræður um ályktanir fara fram með rafrænum hætti þó að atkvæðagreiðslur séu haldnar í sölum SÞ. Í tveimur ályktunum sem samþykktar voru á síðustu dögum hefur Ísland verið í leiðandi hlutverki.

Í nefnd um þróunarmál hefur Ísland undanfarin ár tekið að sér að leiða, ásamt Alsír, samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu, sem samþykkt var samhljóða í vikunni. Fastanefnd Íslands hefur lagt áherslu á landgræðslu um árabil í starfi Sameinuðu þjóðanna enda fyrirfinnst talsverð reynsla og þekking á Íslandi og landgræðsla mikilvægur liður í náttúruvernd og á ýmsa félags- og efnahagslega þætti. Ísland gegnir einnig formennsku, ásamt Namibíu, í vinahópi Sameinuðu þjóðanna um endurheimt lands, en hópurinn kom því m.a. til leiðar að landgræðsla hlyti ríkan sess í heimsmarkmiðunum, sem ríki heims keppast nú við að innleiða á næstu tíu árum.

Í nefnd um félags- og mannréttindi leiddi Ísland í þriðja skipti ályktun um styrkingu mannréttindanefndanna í Genf. Ályktunin er lögð fram í nafni Norðurlandanna, Belgíu og Slóveníu og miðar að því að styrkja starf mannréttindanefndanna í því augnamiði að gera þær skilvirkari. Langt og strangt endurskoðunarferli stendur enn yfir og hefur m.a. tafist vegna COVID-19 heimsfaraldursins, en Ísland hefur verið virkur þátttakandi í ferlinu síðan 2012. Ályktunin var samþykkt án atkvæðagreiðslu og gerðust 66 ríki frá öllum heimshornum, eða u.þ.b. þriðja hvert aðildarríki SÞ, meðflutningsaðilar að ályktuninni.

 

NORDIC UNA

Nú á dögunum fór fram fræðslufundur um málefni „ Nordic UNA“, en  fundir sem þessi eru haldnir árlega á meðal Norðurlanda þjóðanna. Fundurinn var þó með óhefðbundnu sniði í ár, eins og margt annað á þessum skrítnu Covid- tímum, en fundurinn fór fram heima í stofu á „online“ formi.

Norðurlanda þjóðirnar skiptast á um að á að halda fundinn og í ár var röðin komin að Íslandi. Fundinum var skipt upp og fór fram yfir tvo daga.

 

Fyrri daginn hittust framkvæmdarstjórar Sameinuðu þjóðanna fyrir hvert land og ræddu þar ýmis mikilvæg málefni svo sem; Stefnumótun fyrir árið 2021, alþjóðlegt samstarfs og margt fleira.

Seinni daginn hittust síðan allir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum og voru þá keyrðar vinnustofur, ásamt því að boðið var uppá fræðslu fyrir alla sem vildu. Ísland fékk stafrænu auglýsingastofuna „Sahara“ til að halda vinnustofu um samfélagsmiðla og notkun þeirra við ýmiskonar herferðir. Þar á eftir fylgdu fróðlegar umræður fulltrúa þjóðanna á milli , þar sem skipst var t á reynslusögum um þeirra herferðir, markmið og árangur.

Seinni hluti dagsins var svo helgaður fræðslu/ UNESCO skólunum. Kristrún María Heiðberg,  verkefnisstjóri UNESCO skólanna á Íslandi, var fundarstjóri. Hélt hún erindi ásamt fulltrúum hinna þjóðanna um starf skólanna 2020, stefnumótun og markmið fyrir 2021. Að þeim fundi loknum voru þjóðirnar með fræðslu og námskeið fyrir kennara um heimsmarkmiðin.

Fundirnir gengu mjög vel þrátt fyrir takmarkanir og ákveðna annmarka. Voru fulltrúar allra þjóða sammála um eitt; Mikið verður það gaman þegar við loksins fáum að hittast svona „í holdinu“ og vonuðust allir til að það mætti verðaá næsta ári.

,,Ég tilheryi“ – #ibelong

Nú á dögunum hófst herferðin #ibelong á vegum UNCHR, eða „Ég tilheyri“.

Herferðin miðar að því að varpa ljósi að einstaklingum sem eru ríkisfangslausir. Eflaust eru þeir margir sem velta vöngum yfir hvað það þýði að vera ríkisfangslaus og hvernig einstaklingar/ fólk verði „ríkisfangslaust“.

Dæmi um slíkt eru eftirfarandi:

  • Ekki er til fæðingarvottorð eða að fæðingarskráning var aldrei gerð.
  • Ríkisfangslausir einstaklingar eignast barn og verður það því ríkisfangslaust.
  • Stjórnmálabreytingar sem breyta þjóðernisstöðu.
  • Átök milli tveggja landa.
  • Eyðiegging á opinbrerum gögnum.
  • Breyting á þjóðerni við hjónaband.
  • Skilnaður milli hjóna frá mismunandi löndum.
  • Lög um takmörkun ríkisborgararéttar.
  • Lög sem takmarka rétt kvenna til að barn þeirra fái þjóðerni móður.
  • Lög sem varða börn fædd eru utan hjónabands eða fæðast þegar foreldar eru að flytja sig á milli landa.

Helsti talsmaður ríkislausra einstaklinga er kona að nafni Maha Mayo .

Maha Mayo og systkyni hennar eru ein af mörgum sem fæddust ríkisfangslaus. Foreldrar hennar eru frá Sýrlandi. Móðir Maho var múslimi og faðir hennar kristinn. Í Sýrlandi er það ólöglegt fyrir kristna menn að kvænast múslinskum konum. Því var var hjónband þeirra dæmt ólöglegt og börnin þeirra því ríkisfangslaus.

Að vera ríkisfangslaus hefur hefur það í för með sér að þú hefur ekki rétt á einföldustu hlutum í lífinu, sem margir taka sem sjálfsögðum. Þetta á við um atriði eins og að fá símkort, bókasafnskort eða ökuskirteini. Maha og systkyni hennar börðust í þrjátíu ár og leituðu landi sem tæki þau að sér og vildi viðurkenna þau sem sína borgara. Það varð að lokum Braslía,  eina landið af fjölmörgum sem systkynin höfðu samband við, sem opnaði hliðin og gaf þeim ríkisborgararétt.

Áætlað er að um 4,2 milljónir manns út um allan heim eru ríkisfangslaus en sú tala gæti verið mun hærri, því það er erfitt að telja einstaklinga sem eru hvergi skráðir.

 

Í grófum dráttum má segja að ríkisfangslausir einstaklingar búi við eftirfarandi:

Þau geta ekki unnið

Þau geta ekki fengið ökuskírteini

Þau geta ekki fengið símkort

Þau geta ekki gengið í skóla

Þau geta ekki ferðast

Þau geta ekki farið til læknis

Þau geta ekki gifst

Þau geta ekki opnað bankareikning

Þau geta ekki unnið

 

Ríkisfangslausum einstaklingum er synjað að njóta allra þeirra grunnréttinda sem fylgja því að vera partur af samfélagi og eiga þau því í raun hvergi heima.

Ef við prufum að setja okkur í þeirra spor, þá sjáum við að binda þarf endi á fyrirkomulag sem þetta. …. #Endstatelessness

Það fólk sem verður fyrir þessu líður þau örlög að verða skuggar í samfélaginu. Hverjum er það bjóðandi?

UNCHR hefur gert mjög gott fræðslu myndband sem sjá má hér:

https://www.unhcr.org/ending-statelessness.html