Ísland leiðandi í nefnd um þróunarmál og mannréttindi

New York – Nefndarstarf á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur verið með heldur óvenjulegu sniði þetta árið. Flestar samingaviðræður um ályktanir fara fram með rafrænum hætti þó að atkvæðagreiðslur séu haldnar í sölum SÞ. Í tveimur ályktunum sem samþykktar voru á síðustu dögum hefur Ísland verið í leiðandi hlutverki.

Í nefnd um þróunarmál hefur Ísland undanfarin ár tekið að sér að leiða, ásamt Alsír, samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu, sem samþykkt var samhljóða í vikunni. Fastanefnd Íslands hefur lagt áherslu á landgræðslu um árabil í starfi Sameinuðu þjóðanna enda fyrirfinnst talsverð reynsla og þekking á Íslandi og landgræðsla mikilvægur liður í náttúruvernd og á ýmsa félags- og efnahagslega þætti. Ísland gegnir einnig formennsku, ásamt Namibíu, í vinahópi Sameinuðu þjóðanna um endurheimt lands, en hópurinn kom því m.a. til leiðar að landgræðsla hlyti ríkan sess í heimsmarkmiðunum, sem ríki heims keppast nú við að innleiða á næstu tíu árum.

Í nefnd um félags- og mannréttindi leiddi Ísland í þriðja skipti ályktun um styrkingu mannréttindanefndanna í Genf. Ályktunin er lögð fram í nafni Norðurlandanna, Belgíu og Slóveníu og miðar að því að styrkja starf mannréttindanefndanna í því augnamiði að gera þær skilvirkari. Langt og strangt endurskoðunarferli stendur enn yfir og hefur m.a. tafist vegna COVID-19 heimsfaraldursins, en Ísland hefur verið virkur þátttakandi í ferlinu síðan 2012. Ályktunin var samþykkt án atkvæðagreiðslu og gerðust 66 ríki frá öllum heimshornum, eða u.þ.b. þriðja hvert aðildarríki SÞ, meðflutningsaðilar að ályktuninni.

 

NORDIC UNA

Nú á dögunum fór fram fræðslufundur um málefni „ Nordic UNA“, en  fundir sem þessi eru haldnir árlega á meðal Norðurlanda þjóðanna. Fundurinn var þó með óhefðbundnu sniði í ár, eins og margt annað á þessum skrítnu Covid- tímum, en fundurinn fór fram heima í stofu á „online“ formi.

Norðurlanda þjóðirnar skiptast á um að á að halda fundinn og í ár var röðin komin að Íslandi. Fundinum var skipt upp og fór fram yfir tvo daga.

 

Fyrri daginn hittust framkvæmdarstjórar Sameinuðu þjóðanna fyrir hvert land og ræddu þar ýmis mikilvæg málefni svo sem; Stefnumótun fyrir árið 2021, alþjóðlegt samstarfs og margt fleira.

Seinni daginn hittust síðan allir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum og voru þá keyrðar vinnustofur, ásamt því að boðið var uppá fræðslu fyrir alla sem vildu. Ísland fékk stafrænu auglýsingastofuna „Sahara“ til að halda vinnustofu um samfélagsmiðla og notkun þeirra við ýmiskonar herferðir. Þar á eftir fylgdu fróðlegar umræður fulltrúa þjóðanna á milli , þar sem skipst var t á reynslusögum um þeirra herferðir, markmið og árangur.

Seinni hluti dagsins var svo helgaður fræðslu/ UNESCO skólunum. Kristrún María Heiðberg,  verkefnisstjóri UNESCO skólanna á Íslandi, var fundarstjóri. Hélt hún erindi ásamt fulltrúum hinna þjóðanna um starf skólanna 2020, stefnumótun og markmið fyrir 2021. Að þeim fundi loknum voru þjóðirnar með fræðslu og námskeið fyrir kennara um heimsmarkmiðin.

Fundirnir gengu mjög vel þrátt fyrir takmarkanir og ákveðna annmarka. Voru fulltrúar allra þjóða sammála um eitt; Mikið verður það gaman þegar við loksins fáum að hittast svona „í holdinu“ og vonuðust allir til að það mætti verðaá næsta ári.

,,Ég tilheryi“ – #ibelong

Nú á dögunum hófst herferðin #ibelong á vegum UNCHR, eða „Ég tilheyri“.

Herferðin miðar að því að varpa ljósi að einstaklingum sem eru ríkisfangslausir. Eflaust eru þeir margir sem velta vöngum yfir hvað það þýði að vera ríkisfangslaus og hvernig einstaklingar/ fólk verði „ríkisfangslaust“.

Dæmi um slíkt eru eftirfarandi:

  • Ekki er til fæðingarvottorð eða að fæðingarskráning var aldrei gerð.
  • Ríkisfangslausir einstaklingar eignast barn og verður það því ríkisfangslaust.
  • Stjórnmálabreytingar sem breyta þjóðernisstöðu.
  • Átök milli tveggja landa.
  • Eyðiegging á opinbrerum gögnum.
  • Breyting á þjóðerni við hjónaband.
  • Skilnaður milli hjóna frá mismunandi löndum.
  • Lög um takmörkun ríkisborgararéttar.
  • Lög sem takmarka rétt kvenna til að barn þeirra fái þjóðerni móður.
  • Lög sem varða börn fædd eru utan hjónabands eða fæðast þegar foreldar eru að flytja sig á milli landa.

Helsti talsmaður ríkislausra einstaklinga er kona að nafni Maha Mayo .

Maha Mayo og systkyni hennar eru ein af mörgum sem fæddust ríkisfangslaus. Foreldrar hennar eru frá Sýrlandi. Móðir Maho var múslimi og faðir hennar kristinn. Í Sýrlandi er það ólöglegt fyrir kristna menn að kvænast múslinskum konum. Því var var hjónband þeirra dæmt ólöglegt og börnin þeirra því ríkisfangslaus.

Að vera ríkisfangslaus hefur hefur það í för með sér að þú hefur ekki rétt á einföldustu hlutum í lífinu, sem margir taka sem sjálfsögðum. Þetta á við um atriði eins og að fá símkort, bókasafnskort eða ökuskirteini. Maha og systkyni hennar börðust í þrjátíu ár og leituðu landi sem tæki þau að sér og vildi viðurkenna þau sem sína borgara. Það varð að lokum Braslía,  eina landið af fjölmörgum sem systkynin höfðu samband við, sem opnaði hliðin og gaf þeim ríkisborgararétt.

Áætlað er að um 4,2 milljónir manns út um allan heim eru ríkisfangslaus en sú tala gæti verið mun hærri, því það er erfitt að telja einstaklinga sem eru hvergi skráðir.

 

Í grófum dráttum má segja að ríkisfangslausir einstaklingar búi við eftirfarandi:

Þau geta ekki unnið

Þau geta ekki fengið ökuskírteini

Þau geta ekki fengið símkort

Þau geta ekki gengið í skóla

Þau geta ekki ferðast

Þau geta ekki farið til læknis

Þau geta ekki gifst

Þau geta ekki opnað bankareikning

Þau geta ekki unnið

 

Ríkisfangslausum einstaklingum er synjað að njóta allra þeirra grunnréttinda sem fylgja því að vera partur af samfélagi og eiga þau því í raun hvergi heima.

Ef við prufum að setja okkur í þeirra spor, þá sjáum við að binda þarf endi á fyrirkomulag sem þetta. …. #Endstatelessness

Það fólk sem verður fyrir þessu líður þau örlög að verða skuggar í samfélaginu. Hverjum er það bjóðandi?

UNCHR hefur gert mjög gott fræðslu myndband sem sjá má hér:

https://www.unhcr.org/ending-statelessness.html

Staldrið við

STALDRIÐ VIÐ

António Guterres aðalframkvæmdastjóri hefur hleypt af stokkunum “Pause” nýju alheims-átaki þar sem fólk er hvatt til að staldra við eitt augnablik áður en það deilir færslum á netinu. Almenningur er hvattur til að heita því að hugsa sig tvisar um áður en efni er deilt á samfélagsmiðlum – #PledgetoPause. Tilefnið eru þær bábiljur  sem vaða uppi á netinu um COVID-19.

Átakið er hluti af vitundarvakningu um rangfærslur og rangar og villandi upplýsingar sem þrífast á netinu. Hér er um að ræða hvatningu til fólks um að staldra við eitt augnablik og hugsa sig tvisvar um áður en það deilir fréttum sem það þekkir lítið til. Langtímamarkmiðið er að breyta hegðun notenda á samfélagsmiðlum.

„Rangar upplýsingar geta verið banvænar á tímum COVID-19 faraldursins. Þess vegna skulum við sverja þess eið að hugsa okkur um tvisvar áður en við deilum efni og gröfum þannig undan útbreiðslu villandi upplýsinga,“ sagði Guterres aðalframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna.

Pause eða pásu-átakið er hluti af Verifiedfrumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Því var hleypt af stokkunum í maí 2020 til að koma á framfæri aðgengilegum upplýsingu um heilbrigðismál. Áhersla er lögð á upplýsingar sem byggja á traustum vísindalegum grunni. Þá er Verified vettvangur jákvæðra frásagna um samstöðu gegn COVID-19.

#PledgeToPause:Byggt á rannsóknum

Átakið byggir á rannsóknum sem benda til að það kunni að skipta sköpum að staldra við andartak á samskiptamiðlum. Slíkt minnki líkur á að fólk dreifi yfirgengilegu eða tilfinningahlöðnu efni og dragi þar með úr dreifingu rangfærslna.  Með þessu er vonast til að bæta megi almennt fjölmiðlalæsi. Markmiðið er að hjálpa notendum að koma auga á rangar upplýsingar og forðast að áframsenda slíkt efni til vina og kunningja.

Ætlunin er að ná til eins milljarðs manna fyrir árslok. Í dag 21.október ríður António Guterres á vaðið en búast má við að fjöldi áhrifamanna og þekktra einstaklinga bætist í hópinn. Þau munu  sverja eið -#PledgetoPause- að því að staldra við og hvetja vini og fylgjendur að gera slíkt hið sama.

„Þegar rangfærslur þrífast, missir almeningur traust og gerir mistök sem grafa undan aðgerðum stjórnvalda og fólk hættir jafnvel eigin lífi vegna slíks“ segir Melissa Fleming framkvæmdastjóri upplýsingamála hjá Sameinuðu þjóðunum.

 

 

Sameinuðu þjóðirnar 75 ára 24. október

Í dag 24. október eiga Sameinuðu þjóðirnar 75 ára afrmæli.

 

Í gegnum árin hafa Sameinuðu þjóðirnar áorkað miklu. Hér má sjá nokkrar staðreyndir um sögu Sameinuðu þjóðanna.

Ásamt því eru meir en 200 byggingar um alla Evrópu sem verða lýstar upp í bláu 24. október í tilefni afmæli Sameinuðu þjóðanna

UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, á frumkvæðið að átakinu Turn Europe UN Blue en í dag  24.október verða 75 ár liðin frá því stofnsáttmáli samtakanna gekk formlega í gildi árið 1945.

Harpa, Háskóli Íslands, Höfði, Dómkirkjan í Reykjavík og Akureyrarkirkja voru lýstar upp með bláa litnum í dag 24. október

Er friðurinn úti?

Er friðurinn úti?

4. þáttur: Rödd Íslands á alþjóðavettvangi

 

Þessi 4. þáttur friðarhlaðsins snýst um rödd, rödd Íslands á alþjóðavetvangi.

Spurt er: Hefur Ísland rödd á alþjóðavettvangi? Getur Ísland haft áhrif í alþjóðakerfinu þegar kemur að því að sporna gegn ofbeldi og stuðla að friði á heimsvísu?

 

Hlaðvarpið er hluti af „Friðardögum í Reykjarvík 2020“ og er þessi þáttur í samstarfi við Utanríkisráðnuneytið og félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

 

Umsjónarmaður þáttana er Margrét Marteinsdóttir, fjölmiðlakona. Í þáttunum er m.a. rætt við  Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur, formann hjá „Kynslóð jafnréttis“ um þátttöku Íslands í átaki UN Women.

 

Píu Hansson – Forstöðumann Höfða friðarseturs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, um stærstu áskoranirnar sem framundan eru í friðarmálum og möguleika smáríkja til áhrifa á alþjóðavettvangi.

 

Birnu Þórarinsdóttur – Framkvæmdastýru UNICEF á Íslandi og Stellu Samúelsdóttur – framkvæmdastýru UN Women á Íslandi um möguleika Íslands til að setja mál á dagskrá á alþjóðavísu þegar kemur að því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gagnvart börnum.

 

Þá kemur Davíð Logi Sigurðsson frá  Alþjóða- og Þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og fjallar um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna,

 

Baldri Þórhallssyni – Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands fjallar um það hvort lítil ríki eins og Ísland geti orðið leiðandi í mannréttindamálum.

 

Björn Bjarnason um mikilvægi norræns samstarf þegar kemur að friði.

 

Davíð svarar meðal annars þeirri spurningu: Hvað náðum við að gera á þessu eina og hálfa ári þar sem Ísland var með setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna?

 

,,Við lögðum upp með það þegar við vorum kjörin í mannréttindaráðið, við vissum að við yrðum stuttum tíma í ráðinu. Ríki sitja venjulega 3 ár en kjör okkar í ráðið kom þannig til að við förum inn á miðju kjörtímabili við vissum að þetta yrði stuttur tími”

 

Við vildum fara inn í ráðið og gera eitthvað ekki bara fara og sitja þar og taka þátt í atkvæðargreiðslum og flytja ræður og svo framvegis, heldur setja ákveðin mál á oddinn. Það eru nokkrir hlutir sem ég myndi vilja nefna í þeim efnum –

 

Í fyrsta lagi hverjir sitja i ráðinu? Utanríkisráðherra hefur talað nokkrum sinnum um það og gerði það áður en við vorum kosin inn í ráðið að það skipti máli hvaða ríki sem eiga sæti í mannréttindarráðinu séu að reyna að uppfylla kröfur um það að vera leiðandi i mannréttindarmálum. Að þau ríki sem sitja í mannréttindarráðinu séu allavega að reyna stuðla að bættum mannréttindum “

 

Hlaðvarpið er mjög áhugavert. Fyrir þá sem hafa áhuga á að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni er hægt að nálgast þáttinn hér: https://ams.hi.is/is/publication/43/

WFP hlaut friðarverðlaun Nóbels

Félag Sameinuðu þjóðanna óskar Matvælaáætun Sameinuðu þjóðanna (WFP) innilega til hamingju með friðarverðlaun Nóbles fyrir baráttu stofnunarinnar gegn hungri. WFP hefur um margra ára skeið barist fyrir friði á átakasvæðum með aðgerðum sem afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum.

Árlega veita íslensk stjórnvöld kjarnaframlög til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem eru ein stærstu mannúðarsamtök heims í baráttunni gegn hungri og bregðast jafnframt við neyðarköllum frá stofnunni. WFP starfar í 88 löndum og aðstoðar tæplega eitt hundrað milljónir manna á ári hverju sem búa við alvarlegt matvælaóöryggi og hungur. Framlag Íslands á þessu ári er 137 milljónir króna.

„Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur um langt skeið verið ein af áherslustofnunum Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð og friðarverðlaun Nóbels eru að mínum dómi mjög verðskulduð viðurkenning fyrir ómetanlegt starf á átakasvæðum sem stuðlar að friði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í formlegu heillaskeyti sem hann sendi WFP þann 9.okt sl.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft veruleg áhrif um heim allan og hefur víða borið á matvælaskorti. WFP hefur aldrei veitt jafn mörgum matvælaaðstoð en á þessu ári. Markmið WFP er að aðstoða 138 milljóna einstaklinga en nú þegar hafa 85 milljónir manna á þessu ári notið matvælaaðstoðar stofnunarinnar. David Beasly framkvæmdarstjóri WFP sagði á fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að án aukinna framlaga væri heimurinn á barmi hungursneyðar.

 

Fyrir áhugasama var Vera Knútsdóttir framkvæmdarstjóri Sameinuðu Þjóðanna í útvarpsviðtali hjá Morgunvaktini um WFP hlekkur: https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunvaktin/23614/7hhgcp

Við viljum einnig benda á https://sharethemeal.org/en/ þetta app gerir fólki kleift að gefa barni skólamáltíð

Heimildir:

12 staðreyndir um WFP: https://insight.wfp.org/12-things-you-didnt-know-about-the-world-food-programme-4f8ee1914334

Heimsmarkmið 2: Ekkert hungur, nánar um störf WFP í þágu sjálfbærrar þróunnar:  https://www.wfp.org/zero-hunger

 

 

 

Trú í þágu jarðar ráðstefna í Skálholti

Biskupar og aðrir trúarleiðtogar frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum og Kanada áttu fund með fræðimönnum, listamönnum og aðgerðarsinnum í loftslagsmálum ásamt fulltrúum frá umhverfissamtökum í Skálholti dagana 8.-10. október. Meðal þátttakenda var fulltrúi frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem er ábyrgur fyrir frumkvæði samtakanna að „Trú í þágu jarðar“.

Þátttakendur ræddu þátt trúar, andlegra viðhorfa og trúarlegrar sannfæringar í að takast á við loftslagsvá og hnignun vistkerfa. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði ráðstefnuna.

Þátttakendur lögðu áherslu á eftirfarandi:

  • Rætur loftslagsvár, sem mannkyn stendur frammi fyrir, og annarra vandamála sem hindra sjálfbæra þróun, má rekja til mannlegs breyskleika. Tæknin ein dugir ekki til að uppræta það samhengi.
  • Trú sem og andleg viðhorf fela í sér boðskap um gæslu sköpunarverksins og verndun náttúrunnar. Um leið hafa þau vekjandi áhrif á fólk og virkja það á grundvelli gildismats.
  • Trúarleiðtogar og samfélög leitast við að vernda umhverfið. Engu að síður er þörf fyrir áhrifaríkari tengsl, öflugri samskiptanet og meiri samræmingu svo hægt sé að gera þessa viðleitni markvissa. Raddir allra kynja, ungra kynslóða og frumbyggjahefða þurfa að hljóma sterkt í því samtali og samskiptum sem nauðsynleg eru.
  • Sú brýna nauðsyn sem heimtar svör við loftslagsbreytingum og hnignun vistkerfa jarðar krefst þess að leiðtogar fylgi orðum sínum eftir með aðgerðum.
  • Trúarleiðtogar njóta trausts og virðingar í samfélögum. Þeir hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að leiða og örva þá andlegu og menningarlegu umbreytingu sem þarf til að vernda okkar sameiginlegu heimkyni. Þeir geta verið fyrirmynd, höfðað til dýpstu tilfinninga og blásið kjarki í fólk til aðgerða.
  • Á Íslandi ríkir friðsæld og velvild. Landið hefur verið vettvangur fyrir friðar- og umhverfisstarf. Lega landsins við norður-heimskautsbaug setur það í þá víglínu loftslagsbreytinga sem hvað mest mæðir á. Þess vegna er Ísland kjörið til þess að kalla á rökstóla leiðtoga í trúarmálefnum og stjórnmálum. „Bandalag trúar fyrir jörðina“ gæti veitt trúarleiðtogum tækifæri til þess að setja fram sameiginleg markmið um það hvernig eigi að takast á við loftslagsbreytingar og hnignun vistkerfa. Slíkt bandalag gæti eflt samskiptanet trúarsamfélaga og auðveldað þeim að deila sögum sínum, reynslu og þekkingarhefð, og ýtt undir sameiginlegar aðgerðir.

Ráðstefnan var skipulögð af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Landgræðslunni og Þjóðkirkjunni ásamt Stofnun Sigurbjörns Einarssonar og  Guðfræðistofnun Háskóla Íslands. Ráðstefnan naut styrkja frá Þjóðkirkjunni og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Þáttakendur í Skálholti
Þáttakendur í Skálholti

Heimsmarkmiðin og sveitarfélögin

Félag Sameinuðu þjóðanna hélt viðburð á Lýsu þann 7. september sl. um hlutverk og tækifæri sveitarfélaga í innleiðingu og framgangi Heimsmarkmiðanna. Kópavogur og Skaftárhreppur kynntu hvernig þau vinna að Heimsmarkmiðunum og Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra fjallaði um hvernig samtökin ætla að beita sér fyrir því að Heimsmarkiðin séu höfð til hliðsjónar við stefnumótun í þeim sveitarfélögum sem eiga þar aðild.

Framsögukonur voru:

Auður Finnbogadóttir, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ

Eva Björk Harðardóttir, Oddviti Skaftárhrepps

Unnur Valborg Hilmarsdóttir,  Framkvæmdastjóri Samtaka Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra

Glærur Evu og Unnar eru fáanlegar með því að ýta hér og glærurnar hennar Auðar eru fáanlegar með því að ýta hér.

Vitundarvakningin Þróunarsamvinna ber ávöxt

Fulltrúar samráðshópsins

Öll helstu íslensku félagasamtökin í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu hafa tekið höndum saman, í samstarfi við utanríkisráðnuneyti, að endurvekja átakið ,,Þróunarsamvinna ber ávöxt“ sem fer fram 9.- 13. september nk. og leggja að þessu sinni áherslu á þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu.

Íslensk fyrirtæki geta lagt þung lóð á vogarskálar þróunarsamvinnu. Með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er gert skýrt ákall eftir þátttöku fyrirtækja í brýnustu verkefnum á heimsvísu, sem eru meðal annars loftlagsaðgerðir ásamt útrýmingu hungurs og fátæktar í öllum sínum birtingarmyndum. Með því að leggja til þekkingu, búnað, vinnuafl eða fjármuni hafa mörg fyrirtæki breytt lífskjörum fjölda fólks, víðs vegar um heiminn.

Starfsfólk, viðskiptavinir og fjárfestar gera æ meiri kröfur til fyrirtækja um samfélagslega ábyrga hegðun. Með þátttöku í þróunarsamvinnu geta fyrirtæki aukið stolt starfsmanna sinna og gefið viðskiptavinum og fjárfestum skýran og ábyrgan valkost.

Hápunktur átaksins er málstofan Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu sem fer fram á Nauthóli 10. september nk. kl. 9:00-11:30. Markmið málstofunnar er að kynna fyrir fyrirtækjum, stórum sem smáum, tækifæri og ávinning þess að styðja við alþjóðlega þróunarsamvinna. Fyrirtæki á borð við Marel, Íslandsbanka, Te og kaffi og Áveituna á Akureyri koma til með segja frá reynslu sinni af þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Á málstofunni verður jafnframt myndband frumsýnt er fjallar um ýmis samstarfstækifæri fyrirtækja og félagasamtaka er starfa á þessum vettvangi.

Að átakinu standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Rauði Krossinn, UN Women, UNICEF, SOS barnaþorpin, Barnaheill, ABC barnahjálp, Kristniboðssambandið, Hjálparstarf kirkjunnar, Sól í Tógó og utanríkisráðuneytið.

Við hvetjum alla til að fylgjast með á Facebook síðu átaksins: https://www.facebook.com/throunarsamvinna.ber.avoxt/?ref=bookmarks

Fulltrúar samráðshópsins
Fulltrúar samráðshópsins