Málþing á hamingjudeginum um Heimsmarkmiðin og Heilsueflandi samfélag

Eliza Reid

„Veittu því athygli sem er jákvætt” sagði Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í einlægu ávarpi á málþingi um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Heilsueflandi samfélagi þar sem hún deildi sinni sýn á hamingjunni.

Málþingið var haldið 20. mars sl. í tilefni alþjóðlega hamingjudagins og kynnti Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félag Sameinuðu þjóðanna, störf félagins en það leggur áherslu á margvísleg verkefni til aukinnar almannavitundar, fræðslu- og samfélagsumræðu um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.

„Ábyrgðin er ekki einungis á höndum stjórnvalda heldur berum við líka ábyrgð sem einstaklingar á Heimsmarkmiðunum og í dag eru þið að taka þetta skref í þágu Heimsmarkmiðanna” sagði Vera áður en hún taldi upp ýmis atriði sem ber að hafa í huga þegar kemur að sjálfbærni til að mynda að draga úr matarsóun, flokkun plasts, val á vistvænum ferðamáta, mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn og taka þannig þátt í stefnumótun samfélagins. „Ég trúi því að með því að uppfylla heimsmarkmiðin þá verða lífsgæði okkar allra mun betri en þau eru í dag, kjarni þeirra er nefnilega að búa til samfélag þar sem allir fá að njóta sín og nýta hæfileika sína, samfélag sem ber virðingu fyrir náttúrunni svo við fáum að njóta fegurðarinnar og þeirra afurða sem hún hefur að gefa. Ég tel að í raun eru Heimsmarkmiðin uppskriftin að hamingjunni” bætti Vera við.

Megin áhersla málþingins var hvernig ríkið og sveitarfélög geta unnið markvisst að Heimsmarkmiðunum en Ásta Bjarnadóttir, frá verkefnisstjórn Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin, kynnti vinnu stjórnvalda og hvernig þau tengja sína starfsemi við Heimsmarkmiðin. Helsta hlutverk verkefnastjórnarinnar er að greina, innleiða og kynna markmiðin. Þau hafa nú þegar tekið stöðu á öllum undirmarkmiðunum og mun stöðuskýrsla sem inniheldur niðurstöður þeirrar vinnu verða birt fljótlega ásamt tillögum að forgangsmarkmiðum. Stór hluti af vinnunni er alþjóðasamstarf en Ísland mun kynna sína vinnu að Heimsmarkmiðunum á næsta ári á árlegi ráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

„Alþjóðlegar stefnumótanir ásamt Heimsmarkmiðunum geta verið frábær, en þegar uppi er staðið skiptir það mestu máli hvað er að gerast í daglega lífi fólks“ sagði Dr. Kai Ruggeri, lektor við Columbia University Mailman School of Public Health og yfirmaður stefnumótandi rannsókna við University of Cambridge. Í rannsóknum sínum hefur hann fjallað um hversu mikilvæg vellíðan er í stefnumótun ásamt áhrifum markmiðasetningu á komandi áhrif og framfarir. Dr. Ruggeri hefur mikið skoðað hvaða mælikvarða er hægt að nota við mælingu á vellíðan einstaklinga. Áður fyrr var talið að verg þjóðarframleiðsla og vellíðan haldist í hendur en önnur var raunin. Hann lagði áherslu á að skoða hvað aukin vellíðan gefur okkur í stað þess að einblína einungis á hvaða þættir hafa áhrif á vellíðan. Líður okkur betur ef við stöndum okkur betur í vinnu eða námi eða gerir aukin vellíðan það að verkum að við stöndum okkur vel?

Embætti landlæknis ber ábyrgð á heilsueflingu og forvarnastarfi þar sem unnið er heildstætt með helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Birgir Jakobsson, landlæknir, fjallaði um Heilsueflandi samfélag (HSAM) og lærdóm þess verkefnis sem landlæknir. Birgir vitnaði í Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina þegar hann minnti á að heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku. Embætti landlæknis leggur ýmislegt til við vinnu Heilsueflandi samfélaga til dæmis ráðgjöf, stuðning, fræðslusefni ásamt því að standa fyrir vinnustofum og námskeiðum. Þá gefur embættið gefur út lýðheilsuvísi eftir heilbrigiðsumdæmum til þess að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu svæðis, finna styrkleika og veikleika hvers svæðis og skilja þannig betur þarfir íbúa. Birgir sagði mikilvægt að átta sig á að ávinningur Heilsueflandi samfélags væri bæði fyrir almenning og þá sem stýra sveitarfélögunum. Í dag er um 75% landsmanna hluti af HSAM og er hlutverk embættisins að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun HÍ, kynnti niðurstöður rannsókna Embættis landlæknis um hamingju og vellíðan í íslenskum sveitarfélögum. Dóra gerði grein fyrir því hvernig þau gátu greint niðurstöður á sveitarfélög og munu heilsueflandi sveitarfélög geta fengið upplýsingar m.a. um stöðu hamingju og vellíðan í þeirra samfélagi á heilsueflandi.is. Þegar skoðuð voru tengsl milli hamingju unglinga og hagvaxtar kom í ljós að þegar hagvöxtur minnkaði þá fór hamingja unglinga upp. Þetta munstur má finna á öllum Norðurlöndum nema í Finnlandi en ekki er einfalt svar við þeim niðurstöðum. Þá leiddu niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að tekjur skýra minna en 1% af hamingju íslendinga.

„Þetta er lykilatriði, við verðum að hætta að horfa á geðheilsu sem heilbrigðisvandamál og horfa í stað þess á þetta sem samfélagsáskorun” sagði Dr. Fredrik Lindencrona sem kemur frá Sambandi sænskra sveitarfélaga þar sem hann er yfirmaður stefnumótandi umbóta og alþjóðlegs samstarfs í geðheilbrigðismálum. Dr. Fredrik greindi frá leiðum sem sænsk sveitarfélög hafa farið til þess að ná Heimsmarkmiði 3.4 og lagði áherslu á samvinnu allra, frá stjórnendum til stjórnmálamanna. „Auðvelt er að sjá hver kostnaðurinn er en erfiðara er að sjá hverjar tekjurnar verða” sagði Dr. Fredrik og lýsti því hvernig Svíar hafa búið til kerfi til að meta fjárfestingar í félagslegum þáttum eins og geðheilsu.

Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið til að taka þátt með Embætti Landlækni í Heilsueflandi samfélagi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði frá þeim fjölmörgu verkefnum sem borgin hefur hrint í framkvæmt og eru til að mynda allir leik- og grunnskólar í Reykjavík hluti af Heilsueflandi samfélagi. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig lagt áherslu á Heilsueflinu eldri borgara með því að bjóða eldri borgurum frítt í sund, aðgengi að hreyfingu og 17 félagsheimilum. Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri íþróttadeildar hjá Akureyrarbæ, lýsti því vel hvernig Akureyrarbær mátaði Heimsmarkmiðin við það sem hefur verið gert, er verið að gera og það sem þau vilja gera. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kynnti fyrir hönd stýrihóps Hafnafjarðar þau 3 Heimsmarkmið sem bærinn vinnur að. Hún tók þó fram að þetta sé langhlaup, en ekki spretthlaup því góðir hlutir gerast hægt.

Björg Magnúsdóttir stýrir umræðum í lok málþings

Í lok málþingsins stýrði Björg Magnúsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, pallborðsumræðum þar sem ræðumenn málþingsins sátu í pallborði. Ýmist var rætt um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag og voru allir panelgestir sammála um að ekki sé hægt að einblína á eitt Heimsmarkmið fremur en annað þar sem mikilvægt er að líta á þau sem eina heild. Þá sköpuðust einlægar umræður á meðal panelgesta þar sem þau deildu hvað þau gera sem einstaklingar til þess að vera hamingjusöm.

Fundarstjóri var Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu hér.

Aðalfundur Félags SÞ 10.maí kl 17:00

Aðalfundur Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verður haldinn n.k. miðvikudag þann 10.maí kl. 17. Hefðbundin aðalfundarstörf eru á dagskrá, skýrsla stjórnar kynnt, ársreikningur 2016 lagður fram til samþykktar og kosið verður í nýja stjórn. Allir félagsmenn hjartanlegavelkomnir á fundinn og eru beðnir um að senda línu ef þeir hafa hug á að mæta til starfandi framkvæmdastjóra á hildur@un.is

Heimsmarkmiðin kynnt á Fundi fólksins 2.-3. September

Félag Sameinuðu þjóðanna tekur þátt á Fundi fólksins sem fer fram í Norræna húsinu dagana 2.-3. september. Félagið mun ásamt Junior Chamber International (JCI) á Íslandi kynna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir gestum og gangandi.

Fundur fólksins 2016

Heimsmarkmiðunum, sem eru 17 talsins, er ætlað að stuðla að aukinni sjálfbærni ríkja og snúa m.a. að því að enda hungur og fátækt, auka jöfnuð og stuðla að jafnrétti kynjanna, bæta og tryggja aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu, gera borgir vistvænni, sporna við loftslagsbreytingum og vernda lífríki hafsins og skóga.

193 ríki hafa samþykkt að vinna að þessum markmiðum og reyna að ná þeim fyrir árið 2030. Mun auðveldara verður að uppfylla markmiðin ef að allir leggjast á eitt en það er ýmislegt sem að hver og einn getur gert til þess og verða gestir hátiðarinnar hvattir til þess að velja sér markmið til að vinna að. Hugmyndum verður safnað saman og samantekt birt hér á vefsíðu félagsins eftir að viðburðinum líkur.

Heimsmarkmiðin verða kynnt í kynningartjaldi 2 frá klukkan 12:00-18:00 báða dagana.

Nýr framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna

Vera Knútsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna. Hún var ráðin úr hópi 93 umsækjenda eftir ráðningarferli hjá Capacent.

Vera og Berglind takast í hendur
Berglind Sigmarsdóttir (hægri) tekur í hönd Veru Knútsdóttur (vinstri)

Við erum mjög þakklát fyrir þann sterka hóp umsækjenda heima og erlendis sem sóttu um starfið,“ segir Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags SÞ. „Við teljum að ráðningarferlið hafi skilað okkur afar hæfum framkvæmdastjóra, enda býr Vera að víðtækri reynslu og þekkingu á alþjóða- og þróunarmálum, m.a. af vettvangi í Líbanon og Sómalíu. Við vitum að sú reynsla kemur til með að nýtast mjög vel í störfum félagsins í þágu aukinnar almannavitundar, fræðslu og samfélagsumræðu á Íslandi um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.

„Stjórn félagsins er sömuleiðis ánægð með þá sýn um framþróun félagsins og þróun verkefna á næstunni, sem Vera færir inn í starfsemi félagsins,“ segir Þröstur Freyr.

Vera Knútsdóttir hefur um fimm ára reynslu af alþjóðastarfi og þar af þriggja ára reynslu af störfum hjá Sameinuðu þjóðunum. Vera hefur reynslu af mannúðarstarfi og flóttamannaaðstoð og hefur starfað bæði hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Sómalíu og Flóttamannaaðstoð SÞ fyrir Palestínumenn, UNRWA, í Líbanon.

Áður var hún í starfsnámi á viðskiptasviði og alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins, þ.á.m. verkefnum tengdum mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Vera lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MA-gráðu í öryggis- og varnarmálafræðum frá Georgetown háskóla í Bandaríkjunum árið 2011.

Vera Knútsdóttir (t.v.) tekur við af Berglind Sigmarsdóttur (t.h.), fráfarandi framkvæmdastjóra félagsins. Félag Sameinuðu þjóðanna þakkar Berglind fyrir öflug og vel unnin störf í þágu félagsins síðastliðin fimm ár og býður Veru velkomna til starfa.